Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 15:59:41 (5310)

1996-04-29 15:59:41# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, RG
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:59]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég get ekki stillt mig um að eiga nokkur orð við hæstv. menntmrh. og blanda mér í þá umræðu sem hér fer fram um svokölluð innritunargjöld eða skólagjöld. Af því að þetta hefur verið mál sem hefur snert mig og mínar skoðanir mjög sterklega, þá verð ég að rifja upp hvernig þróun umræðu er og hvar við erum stödd á þessum tímapunkti miðað við umræðuna eins og hún var.

Ætli það séu ekki tvö til þrjú ár síðan að við vorum að ræða um þessi mál við fjárlagagerð. Þegar verið var að ákveða það að færa innritunargjöld, nú kölluð skrásetningargjöld, inn í fjárlögin --- Virðulegi forseti. Það hefur tíðkast um nokkurt skeið að þegar við þingmenn erum að eiga orðastað við ráðherra, þá þurfa samflokksmenn gjarnan að eiga prívatviðræður við ráðherra í sal svo að nú ætla ég að hinkra ögn við með minn málflutning.

(Forseti (ÓE): Vill þingmaðurinn halda áfram ræðu sinni?)

Þingmaðurinn ætlar að halda áfram ræðu sinni af því að hann telur að nú muni ráðherra gefa sér tíma til þess að hlýða á hana.

Þegar verið var að ræða hvað fælist í því að flytja innritunargjöld, nú kölluð skrásetningargjöld, inn í fjárlög, þá var lögð gífurlega mikil áhersla á það að þessi gjöld væru til staðar. Í framhaldsskólunum voru þau til staðar. Það voru ákvæði um að skólanefndir framhaldsskólanna t.d. hefðu heimildir til þess að ákveða hver þessi svokölluðu innritunargjöld ættu að vera. Í innritunargjöldunum fólst innheimta félagsgjalda fyrir nemendur, ýmiss konar efnisgjald og kaffisjóðir og það var dálítið mismunandi hvað í þessu fólst. Mér er kunnugt um hversu mismunandi það var því að þingmenn úr þingflokki Alþfl. tóku sig til og höfðu samband við flesta skóla og báðu um upplýsingar um hvað innheimt gjald væri og hvað fælist í því. Þá var verið að leggja áherslu á að það væri verið að samræma á milli skóla, það væri verið að samræma gjöld vegna þess að það væri óeðlilegt að mismunandi innritunargjöld væru innheimt frá einum skóla til annars. Þá var ekki verið að flytja gjöldin inn í ríkisreksturinn til að verða að einhvers konar tekjum ríkisins, aldeilis ekki. Þetta voru samræmisgjöld og þar með væntanlega réttlætisaðgerð.

Mörg okkar sem tókust á um þetta mál héldu því fram að með því að taka slíkt gjald inn í fjárlög væri það komið inn á tekjupóst ríkisins og þó það í upphafi væri lítil og lág upphæð, þá væri skrefið svo stórt þegar gjaldtakan væri flutt inn í fjárlög og skráð á hvern einasta skóla að þaðan í frá yrði mjög einfalt að hækka upphæðina. Þaðan í frá væri það eins og hver önnur ákvörðun ráðuneytis að hækka upphæðina og það væri miklu meiri hætta á því að slík upphæð í tímans rás mundi þróast í hefðbundin skólagjöld en ef þetta væru efnis- og félagagjöld ákvörðuð af viðkomandi skólanefnd miðað við upplýsingar sem lægju fyrir og heimilt að taka gjöldin sem slík.

Nú er einnig, virðulegi forseti, lögð mikil áhersla á það af hálfu hæstv. menntmrh. að ekki sé ágreiningur um að einhver gjöld séu innheimt heldur sé verið að hengja sig á upphæðina. Það má ekki einfalda þessa umræðu svona því það er djúpstæður ágreiningur um eðli innheimtunnar. Ágreiningurinn er um það hvort það sé opnuð leið til þess að innheimta gjöld og gera slíka gjaldtöku að tekjupósti fyrir skóla, hvort heldur framhaldsskóla eða háskóla, Háskóla Íslands fyrir sunnan eða Háskólann á Akureyri. Og með því að svæfa vitund okkar í þessu efni mun það gerast einn góðan veðurdag að við erum komin með eins konar hefðbundin skólagjöld í íslenskum skólum. Þetta er kjarni umræðunnar. Þetta er kjarni andófsins. Þá: Að taka þessi gjöld inn í framhaldsskólann og inn í fjárlög ríkisins. Nú: Að tala um þessar krónur, 24 þús. kr., hvað í þeim felst, vegna þess að það er verið að tala um þetta skref sem stigið er inn í skólagjaldaframtíðina.

Virðulegi forseti. Í raun og veru þarf ég ekki að hafa fleiri orð um þetta vegna þess að málið snýst um þetta, þ.e. ótta þeirra sem vilja ekki þjóðfélag með skólagjöldum, þjóðfélag sem sorterar nemendur, þá sem hafa efni á og þá sem hafa ekki efni á. Það snýst um ótta þeirra við að hleypa því lausu að einhvers staðar í ráðuneytum sitji einstaklingar með völd sem ákveði: Nú á þessu hausti vil ég að gjaldið verði þetta. Og að annað haust komi annar sem vill enn þá hærra gjald. Það er þetta sem við, hverju sinni með hverju litlu skrefi, erum að gera mögulegt. Ég minni á að við fjárlagaumræðuna í haust gerðist það að við sem erum vön bandormum af ýmsu tagi fengum einn svæsinn bandorm. Hann var hreinlega með ,,þrátt-fyrir``-ákvæðum af þeirri gerð að nú skyldi bara afnema allt sem áður hafði gilt um lagasetningu um að svo og svo mikill hluti fjárlaga skyldi renna til þessa eða hins verkefnisins, bara afnumið í einu skrefi. Þannig höfum við líka fengið bandorma og ég hef sjálf átt þátt í því með bara allt önnur verkefni, að vera að taka á upphæðum eins og í ýmsum þjónustugjöldum ríkisins með mjög mikilli hækkun á einhverjum tíma. Þetta gerist óhjákvæmilega þegar við erum með gjaldtökuheimild, þegar við erum með farveg og vasa þar sem gjöldin renna, að það verði mjög auðvelt á einhverjum tíma að segja: Nú vantar pening hér. Hvernig förum við að? Jú, hækkum gjöldin. Um þetta snýst umræðan. Óttinn er við ,,þrátt-fyrir``-ákvæðin sem koma, e.t.v. ekki í haust, e.t.v. næsta haust, þar sem segir: Þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar skal gjaldið ekki vera 24 þús. heldur 34 eða 48 eða hvað það yrði.

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi komið máli mínu mjög vel til skila með það að þetta snýst ekki um 24 þús. kr. Þetta snýst um grundvallarbreytingar og grundvallarrétt í okkar þjóðfélagi.