Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 16:07:55 (5311)

1996-04-29 16:07:55# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[16:07]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Viðhorf mitt gagnvart því sem hér er að gerast liggur fyrir þar sem ég hef setið fundi menntmn. og er sammála því áliti sem hér er fram borið af 2. meiri hluta menntmn. Ég vil samt ekki láta hjá líða vegna umræðunnar að taka þátt í henni til þess að undirstrika þann ótta sem menn hafa lýst á undan mér varðandi það skref sem hér er verið að stíga.

Það er mjög slæmt, herra forseti, þegar skref sem þetta eru stigin og reynt að koma í veg fyrir að menn séu þá meðvitað að gera það sem í raun er verið að gera hér, þ.e. að lögfesta tiltekna upphæð sem skrásetningargjöld enda þótt það megi öllum læsum vera ljóst að það er auðvitað verið að fara út um víðan völl hvað varðar gjaldtöku. Ef menn bera saman annars vegar þá skilgreiningu sem liggur fyrir, svo að ég taki t.d., í því frv. til framhaldsskólalaga sem hér er, þar sem er verið að skilgreina skrásetningargjöld, og síðan það sem við sem stöndum að áliti 2. minni hluta menntmn. erum tilbúin að skilgreina sem skrásetningargjöld, þá eru þau gjöld óravegu frá þeirri upphæð sem hér er verið að tala um. Mismunurinn er skólagjöld. Og það er mjög miður þegar menn eru að framkvæma kerfisbreytingu að menn skuli þá ekki vilja horfast í augu við þá kerfisbreytingu vegna þess að henni fylgir annar hugsunarháttur. Ég held að það sé betra að menn gangist við honum strax og það sé tekið á honum sem slíkum.

Sá ótti sem menn hafa hér lýst gagnvart því að ekki verði látið staðar numið er ekki óeðlilegur. Eðlilega óttast menn það þegar farið er fram með þessum hætti, þ.e. verið að breyta grundvallaratriðum án þess að menn vilji viðurkenna það, að þá finnist mönnum kannski ekki svo mikið mál að fara í stórar breytingar á þessari upphæð. E.t.v. má tína eitthvað fleira til sem einhverjir gætu hugsað sér að flokka sem skrásetningargjöld, hver veit? Ég deili hins vegar ótta þeirra sem telja að með þessu sé verið að opna fyrir breytingu á þeim grundvallarrétti sem hefur verið í okkar samfélagi, þ.e. að háskóli eigi að vera fyrir alla og eitthvað sem heitir skrásetningargjald eigi a.m.k. ekki að koma í veg fyrir það --- ég tel að sá ótti sé alveg fullkomlega réttmætur. Þess vegna mun ég greiða atkvæði gegn því frv. sem hér liggur fyrir um skrásetningargjöld til Háskóla Íslands og Háskóla Akureyrar.