Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 16:39:38 (5315)

1996-04-29 16:39:38# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[16:39]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þessa spurningu tel ég að menn verði að gera greinarmun á skrásetningargjaldi og skólagjöldum og ef gjöldin færu eftir því hvaða nám menn stundi sé alveg tvímælalaust farið að ræða um greiðslu kostnaðar við kennslu og aðra slíka hluti þannig að ég tel að hér sé um skrásetningargjald að ræða sem þeir eigi að greiða sem skrásetjist í Háskóla Íslands.

Um endurmenntunina gildir öðru máli og menn gleyma því stundum að Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands er orðin fjölmennari en háskólinn sjálfur að því er nemendafjölda varðar. Þar greiða menn að sönnu skólagjöld fyrir þau námskeið sem þeir sækja og það hefur síður en svo aftrað mönnum frá því að taka þátt í þessum námskeiðum og Endurmenntunarstofnunin er sá þáttur í starfi Háskóla Íslands sem vaxið hefur mest á undanförnum árum þrátt fyrir að menn greiði þar kostnað við kennslu og alla þá þætti sem að því starfi lýtur sem endurmenntunina varðar. Þarna stangast nú á ef menn ætla að fara út í rökræður um gildi þessara gjalda og hvort þau aftri mönnum frá því að stunda nám þá hefur það ekki komið í ljós þegar rætt er um endurmenntun eða símenntun á vegum Háskóla Íslands.