Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 17:17:24 (5321)

1996-04-29 17:17:24# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[17:17]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að sýna þann kjark að koma hér í ræðustól í umdeildu máli. Það hafa framsóknarmenn yfirleitt ekki gert í vetur þannig að hann á þakkir skildar fyrir það þó að málsvörn hans væri ámátleg satt að segja í alla staði og einkum og sér í lagi það að Framsfl. hefur komið sér upp ,,standard`` svari eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir benti á. Það er: Við ætluðum fyrst að leysa vanda ríkissjóðs. En þá auglýsi ég eftir því hvort hv. þm. Hjálmar Árnason getur nefnt mér eitt einasta dæmi úr ræðum framsóknarmanna fyrir kosningar þar sem þeir tóku það fram að þeir ætluðu fyrst að leysa halla ríkissjóðs, áður en kæmi að heilbrigðismálunum, áður en kæmi að húsnæðismálunum, áður en kæmi að menntamálunum. Staðreyndin er sú að sennilega er þessi ræða ekki til. En ef hún er til, þá væri hún þakksamlega þegin sem heimild um eitt einasta dæmi um það að framsóknarmenn hefðu stillt hlutunum svona upp. Staðreyndin er sú að það er ekki nokkur leið að orða þetta öðruvísi en þannig að þeir séu að koma aftan að kjósendum. Málið snýr gagnvart kjósendum svipað og tryggingafélögin haga sér stundum gagnvart viðskiptavinum sínum. Allt sem skiptir máli er í smáa letrinu. Þannig er það með Framsfl. í kosningastefnuskránni. Allt sem skiptir máli er í smáa letrinu. Allt sem Framsfl. sagði við kjósendur og það sem kjósendur kusu hann út á var fallegt og gott. Það var um að leysa húsnæðisvandann. Það var um að afnema gjöld í heilbrigðiskerfinu. Það var um að afnema skólagjöld. Það var um að hækka Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þetta stóð gylltu letri í öllum kosningastefnuskrám Framsfl. En í smáa letrinu stóð hitt að það ætti að leysa halla ríkissjóðs. Ég skora á hv. þm. Hjálmar Árnason að finna eitt dæmi um annað af þeirra hálfu. Ég held því miður að það sé ekki til. En ég segi aftur, hæstv. forseti: Ég vil þakka þingmanninum fyrir að hafa sýnt þann kjark að koma hér upp til þess að reyna að verja málstað þeirra framsóknarmanna sem er í rauninni ekki hægt og hv. þm. sýndi ágætlega með ræðu sinni.