Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 17:22:09 (5324)

1996-04-29 17:22:09# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[17:22]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ef ég þekki hæstv. forseta rétt, þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem hann hleypur yfir hann og væntanlega ekki heldur í hið síðasta og það skiptir engu máli. Eins og fram hefur komið í umræðum, þá hefur þessi hæstv. forseti hjarta úr gulli. Þannig að þetta er allt í lagi, enda er ég í svo góðu skapi. Þetta hefur verið skemmtileg umræða því satt að segja kom ræða hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur mér í jólaskapið. Mér fannst eins og það væru komin jól og sú iðja væri fram undan sem hv. þingkona stóð fyrir hér í stólnum, að taka einhvern lítinn böggul, pakka honum inn og hnýta fyrir því það var auðvitað það sem hv. þm. gerði við kollega sinn úr Reykjanesi. Ég hef satt að segja ekki um langt skeið séð jafnsnöfurmannlega afgreiðslu á einum ágætum þingmanni eins og hv. þm. Hjálmar Árnason auðvitað er. Af munni hans hrutu mörg gullkorn sem ég á eftir að muna lengi.

Hv. þm. sagði, og var dálítið hissa, að kosningaloforð framsóknarmanna hefðu vakið mikinn áhuga þingmanna eins og hér hefur komið fram. Það er alveg hárrétt. En það er bara einn hópur þingmanna sem þau virðast ekki snerta að nokkru leyti. Það eru hv. þm. Framsfl. Það er eins og kosningaloforð framsóknarmanna séu fersk í hugum mjög margra, allra nema framsóknarmanna. Auðvitað er þetta tiltekna mál dálítið erfitt fyrir hv. þm. Hjálmar Árnason vegna þess að hann gekk fram fyrir skjöldu og var með yfirlýsingar í menntamálum. En hvað segir hann núna? Ja, það er enn eitt gullkornið. Hann varpaði fram þessari heimspekilegu spurningu: Hvenær byrja menn að mæla kosningaloforð, í upphafi eða enda kjörtímabilsins? Þetta var glæsilegt. Ég hef auðvitað mitt svar við því en það skiptir ekki máli. Ég ætla að gefa Framsfl. sjálfdæmi. Ég ætla að leyfa þeim að meta sjálfir hvenær þeir vilja að kjósendur fari að mæla kosningaloforðin þeirra. Og ef ekkert svar kemur, þá gerist það óhjákvæmilega í næstu kosningum. Auðvitað veit ég að þetta er erfitt, hv. þm. Hjálmar Árnason. Það er afskaplega erfitt að hafa staðið í kosningabaráttu eins og rekin var af hv. þingmönnum Framsfl. og þurfa síðan að standa frammi fyrir þeirri staðreynd að eitt af öðru eru þessi loforð einskis metin, vegin og léttvæg fundin. Þeim er fleygt eins og fúasprekum á bálið. Auðvitað er slíkt erfitt.

Ég spurði hv. þm. Hjálmar Árnason hvort honum þætti ekki erfitt að vera í flokki sem hefur formann sem lofaði að lækka skólagjöld á háskólanemum og standa svo frammi fyrir því að þurfa að styðja hækkun á skólagjöldum. Hv. þm. sagði að ég og fleiri þingmenn hefðum staðið fyrir rannsókn á sögu kosningaloforða Framsfl. Það er rétt hjá hv. þm. að þau eru svo sannarlega rannsóknarefni því að satt að segja hefur aldrei komið fram jafnmikill haugur af loforðum sem eru einskis nýt örfáum mánuðum eftir kosningar.

Ég lái hv. þm. Hjálmari Árnasyni það ekki að hann kaus að sneiða hjá því að svara hvernig honum þættu þessar efndir. En mig langar til að rifja upp að það var samt sem áður þannig að í DV 28. mars sl. var viðtal við Halldór Ásgrímsson. Og hann er spurður að því hvaða afstöðu Framsfl., ekki bara hann persónulega, heldur Framsfl. hefur til skólagjalda á háskólastigi og hæstv. núv. utanrrh. svarar svona: ,,Framsókn stefnir að því að lækka skólagjöld á háskólanema.`` Þetta getur ekki verið skýrara. Framsfl. gefur opinbera yfirlýsingu um það að komist hann til valda, þá muni hann freista þess, --- hann mun ekki freista þess, hann stefnir að því að lækka skólagjöld á háskólastigi. En fyrsta frv. sem hér er að sigla í gegnum Alþingi að loknum kosningum sem varðar menntamál felur í sér hækkun á skólagjöldum á háskólastigi. Með öðrum orðum, það er ekki hægt að væna mig eða nokkurn annan um það að við förum með rangt mál þegar við segjum það að hér er Framsfl. að brjóta kosningaloforð með eins hörðum hætti og það er hægt. Þá kannski getur hv. þm. Hjálmar Árnason ornað sér við það að það er óvíst í Framsfl. hvenær menn byrja að mæla kosningaloforð, í upphafi eða enda kjörtímabilsins eða svo að ég botni þessa hálfkveðnu vísu, hvort þeir gera það yfirleitt. Ég tek nefnilega undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og Svavari Gestssyni. Ég minnist þess ekki að hafa séð eina einustu ræðu, eina einustu grein koma frá Framsfl. þar sem því er lýst yfir að öll þessi kosningaloforð séu skilyrt því að fyrst þurfi að koma ríkisfjármálunum í jafnvægi. Þvert á móti, hv. þm. Hjálmar Árnason, þá gæti ég sýnt ýmsar afurðir rannsókna minna á sögu kosningaloforða Framsfl. þar sem kemur fram að stöku þingmaður Framsfl. hefur á umliðnum árum beinlínis haldið því fram að það sé réttlætanlegt að auka halla ríkisins á tímum atvinnuleysis. Sá sem gekk einna harðast fram í því er að vísu ekki á meðal okkar, þ.e. hann er kominn í æðri heima í Seðlabankanum og stýrir þar annars konar ríkisfjármálum. En ef ég man rétt, þá var sá maður einmitt mentor hv. þm. Hjálmars Árnasonar og átti eiginlega frumkvæði að því að hann er góðu heilli á meðal okkar í dag. Ég held því að það sé alls ekki hægt að koma hér og skjóta sér á bak við það að Framsfl. hafi sagt að það þyrfti fyrst að koma ríkisfjármálunum í jafnvægi. Hann sagði það aldrei í kosningabaráttunni.

En menntamál skulu skipa forgang, segir hv. þm. Hjálmar Árnason og hann á sér þá sýn, sagði hann og nánast lagði hönd á hjartastað, að það sjáist merki í lok kjörtímabilsins. Þá er kannski kominn mælikvarði Framsfl. á það hvenær menn byrja að mæla kosningaloforð. Það er í lok kjörtímabilsins. Gott og vel. (Gripið fram í: Það er örugglega þetta kjörtímabil er það ekki?) Það hefur ekki komið fram í máli Framsfl. í dag. En ég trúi því að hv. þm. Hjálmar Árnason meini þetta og ég er til í að bíða til loka kjörtímabilsins. En ég get ekki annað vegna ræðu hv. þm. en rifjað það upp að annar af tveimur málaflokkum sem hv. þm. barðist fyrir eða lét einkum að sér kveða í í aðdraganda kosningabaráttunnar var auðvitað menntamálin. Þau skipa forgang. Ég hlustaði á hv. þm. Hjálmar Árnason halda snjallar ræður í sjónvarpi um menntamálin og ég hugsaði með mér: Gríðarlega hlýtur það að vera gott að fá mann af þessu tagi inn á Alþingi Íslendinga. Nú er maður af þessu tagi kominn inn á Alþingi Íslendinga og hvað höfum við upp úr krafsinu? Jú, hann er ekki viss um það hvenær á að byrja að mæla kosningaloforðin. Hann vonar að kannski sjáist einhverjar efndir í lok kjörtímabilsins. Að minnsta kosti treystir hann sér ekki til þess að lýsa því hreinlega yfir að hann sé afskaplega ósáttur við að það sé snúið upp á höndina á honum og hann látinn greiða atkvæði gegn sinni eigin sannfæringu þegar hann samþykkir hækkun á skólagjöldum, sérstaklega vegna þess að því var lýst yfir fyrir hans hönd og annarra framsóknarmanna að Framsókn stefnir að því að lækka skólagjöld á háskólanema. Heimildin er DV 28. mars 1995 og sá sem talar fyrir hönd Framsfl. er formaðurinn, hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson.

Herra forseti. Þetta hlýtur að vera erfiður dagur fyrir hv. þm. Hjálmar Árnason og þess vegna ætla ég ekki að segja fleira í dag.