Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 17:46:58 (5326)

1996-04-29 17:46:58# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, GÁ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[17:46]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég hef setið hér og hlýtt á umræðuna og þegar ég sat í forsetastól fyrir stundu fannst mér eitthvert stórmál á ferðinni. Hér væri eitthvert rammpólitískt mál á ferðinni sem allir væru ósammála um. Stjórnarandstöðuflokkarnir láta með þeim hætti í hverju einasta máli að ráðast á Framsfl., bera upp á hann hinar þyngstu sakir, telja að hann hafi svikið kosningaloforð sín og sé kominn langt frá stefnu sinni. Þegar ég sat undir þessari umræðu var ég satt að segja að verða dálítið efins um flokk minn og áttavilltur á þessu öllu saman svo ég fór nú að rifja upp stefnuskrána og kosningaloforðin. Þá komst ég að raun um að við höfum staðið við ýmislegt sem við hétum að stefna að og við sjáum þegar árangur í þjóðfélaginu að það hefur birt yfir. Það er fallegt veður alla daga og atvinnulífið er að rísa, unga fólkið sem er að koma út úr skólunum, menntafólkið, á von á atvinnu og það á von á hærri launum af því að hagvöxturinn er að aukast o.s.frv. Hitt er annað mál að það sem vekur athygli mína er að allir stjórnmálaflokkar sem sitja í þessum sal eru sammála um það prinsipp sem hér er deilt um og hér er ekki verið að deila um neinar stórupphæðir. Hvernig hljóðar greinin? Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hver sá sem staðist hefur stúdentspróf frá íslenskum skóla sem heimild hefur til að brautskrá stúdenta getur sótt um að skrá sig til náms við háskólann gegn því að greiða skrásetningargjald, 24.000 kr.``

Stjórnarandstöðuflokkarnir, sem eru búnir að skamma Framsfl. í allan dag, bera fram tillögu um að þetta verði 9.000 kr. Það sem skilur að eru 15.000 kr. Hvar eru mótmæli námsmanna við þessu? Eru hv. þm. með marga pappíra um mótmæli stúdenta og námsmanna í þessu máli? Hv. þm. hafa ekki borið þau upp hér í málefnalegri umræðu og umræðan hefur því miður ekki verið málefnaleg. Hún hefur verið árás á Framsfl. aftur og aftur. (SvG: Það er málefnalegt.) Það er ekki málefnalegt, hv. þm. Það gerist ekki í neinu þjóðþingi að menn tali með þeim hætti sem stjórnarandstaðan hefur gert hér í dag. Það gerist bara ekki í neinu þjóðþingi. Allir stjórnmálaflokkar á Alþingi Íslendinga eru sammála um það og hafa verið í gegnum áratugi að taka þetta gjald sem verið er að ræða um og þeir hafa gert það. En menn sem hlýða á þessa umræðu halda að eitthvað nýtt sé á ferðinni. Það er ekkert nýtt á ferðinni. Það er aðeins verið að ákveða að þetta lágmarksgjald verði 24.000 kr. en ég vil nú segja fyrir mig að ég tel það kannski virðingu við þá stofnun, háskólann, að menn borgi 24.000 um leið og þeir skrá sig inn í hann. (Gripið fram í: Af hverju er ekki búið að hækka þetta?) Sumt af gjaldinu fer aftur til námsmanna. 13% af gjaldinu fer til Félagsstofnunar stúdenta o.s.frv., 10% til ýmissa verkefna. Menn eiga nú ekki að láta eins og himinn og jörð séu að farast. Ég tel nauðsynlegt í jafnvirðulegum stofnunum að menn sýni að þeir eru að ganga af alvöru inn í sitt nám í háskóla og greiði litlar 24.000 kr. Foreldrar gefa jafnvel börnum sínum þessa upphæð. (Gripið fram í: Eru ekki bændur að tala um það að þeir hafi ekki efni á að mennta börnin sín?) Auðvitað hafa ekki allir, því miður, efni á því að mennta börnin sín. Það er þannig. (Gripið fram í: Hvað eiga þeir að gera?) Bændur? Það þarf ekkert að tala um bændur hér. Auðvitað þurfum við að standa að almennri menntun og fara yfir ýmis mál í þjóðfélaginu og það mun þessi ríkisstjórn gera.

Það er ekki mikill ágreiningur uppi um þessar mundir um menntamál. Framsfl. mun standa við allt sem hann hefur sagt í menntamálum á þessu kjörtímabili. Það getur verið að hæstv. menntmrh. sé í aðra röndina þakklátur fyrir það að Framsfl. gaf mikil fyrirheit í menntamálum í kosningabaráttunni því að hann mun njóta þess sem ráðherra þegar frá líður. En Framsfl. mun standa við það.

En ég vek sérstaklega athygli á því að málflutningur stjórnarandstöðunnar í dag er útúrsnúningur. Hér eru þingmenn með brtt. um það að þetta skuli vera 9.000 kr. Þetta eru 24.000 kr. og voru 22.500 kr. og mér finnst það ásættanlegt. Ég mundi að vísu ekki vilja hafa það miklu hærra. Ég vil koma því á framfæri að ég kann ekki við að taka þingtímann dag eftir dag í svona röfl um Framsfl. Að vísu get ég vel sætt mig við það að menn skammi Framsfl. og menn eiga að gera það því að auðvitað vænta menn þess að það góða sem þessi ríkisstjórn gjörir muni Framsfl. standa fyrir og ég er í engum vafa um að það verði þannig.

Ég styð þessi frv. og tel eðlilegt að þau verði gerð að lögum og stjórnarandstaðan styður þau með aðeins lægri upphæð en lætur hér í allan dag eins og himinn og jörð séu að farast út af smáupphæð og er það til skammar sundraðri stjórnarandstöðu sem hefur ekkert gott lagt til málanna.