Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 17:59:15 (5331)

1996-04-29 17:59:15# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[17:59]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt að þessi umræða raskar mjög sálarró þeirra framsóknarmanna og það er eðlilegt og er til marks um það að þeir hafi vonda samvisku í málinu. Er jafnvel svo langt gengið að það er sagt að það sé ekkert stórmál hér þó að hv. þm., hæstv. utanrrh. og formaður flokksins, sé ómerkur orða sinna. Þetta mál snýst ekki um upphæðir. Það er grundvallarmisskilningur hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni. Þetta snýst um prinsipp og á þeim grundvelli sem er hér deilt. Það er eðlisbreyting að taka þessa gjaldtöku út fyrir þann ramma sem tengist beint hinu skráða tilnefnda viðfangsefni. Málflutningur af því tagi að það auki bara virðingu manna fyrir háskólanum að borga 24.000 kr. er náskyldur því sem hæstv. menntmrh. sagði áðan að það fjölgaði fólki á endurmenntunarnámskeiðum í háskólanum þó að menn væru að borga þar gjöld og það lá næstum í orðunum að þeim mundi fjölga enn meira ef gjöldin yrðu enn hærri. Vex þá ekki virðing manna enn meir fyrir háskólanum ef þetta verður hækkað í 50.000 kall? Nei, auðvitað er svona málflutningur fyrir neðan allar hellur og fyrst og fremst til marks um algert rökþrot í umræðu af þessu tagi. Ég tel, herra forseti, að það sé enn ríkari ástæða nú en áður var til þess að fá hæstv. utanrrh. hingað til umræðunnar þegar svo er komið að lautinantar hans hér eru farnir að tala um það sé smámál að hæstv. utanrrh. sé gerður ómerkur orða sinna.