Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 18:03:56 (5334)

1996-04-29 18:03:56# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[18:03]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er u.þ.b. eitt og hálft ár síðan að orðhagur þingmaður var í andsvari og var að tala við alþýðuflokksmenn og tók eftir því að þeir kveinkuðu sér. Hann komst þá þannig að orði að þeir væru sárfættir af ódáðahrauni spillingarinnar. Satt að segja rifjaðist þetta upp fyrir mér þegar ég hlustaði á hv. þm. Guðna Ágústsson. Mér fannst hann orðinn þegar býsna sárfættur af ódáðahrauni spillingarinnar því að ég hef sjaldan heyrt mann kveinka sér eins átakanlega undan gagnrýni stjórnarandstöðunnar og hann gerði hér í dag. Mér finnst það þó virðingarvert að hann skuli bera harm sinn upp í þennan ræðustól þó að það sé sjaldgæft. En hann virðist hins vegar ekki gera sér grein fyrir því grundvallaratriði að annars vegar er um að ræða innritunargjöld vegna tiltekins kostnaðar við félagsrekstur stúdenta, hins vegar er um að ræða skattlagningu til að standa undir rekstri háskólans og hv. þm. verður að draga þarna markalínu á milli. Það er grundvallarmunur á því hvor leiðin er farin í þessum efnum og þess vegna er þetta ekkert annað en útúrsnúningur þegar hv. þm. er að segja: Stjórnarandstaðan leggur til 9.000 kr. og við leggjum til 24.000 kr. Það er hreinn útúrsnúningur og ekkert annað og ég skora á hv. þm. að endurskoða þennan málflutning því hann er honum ekki sæmandi.