Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 18:06:53 (5336)

1996-04-29 18:06:53# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[18:06]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég met það mikils við hv. þm. að hann skuli segjast vera sárfættur eftir þennan dans sem hann hefur stigið með íhaldinu á ódáðahrauninu síðustu missirin. Ég held að hann verði að gera sér ljóst að Framsfl. lofaði allt öðru en hér er verið að gera. Hér er verið að lögfesta skólagjöld í Háskóla Íslands í fyrsta sinn. Það hefur aldrei verið jafnafdráttarlaust. Framsfl. er þar með að brjóta í blað og hvað er hann að gera? Hann er að svíkja miðað við loforðin sem Halldór Ásgrímsson, hæstv. utanrrh., gaf 28. mars 1995. Hvort hv. þm. Guðni Ágústsson telur það smámál eða ekki skal ég ekkert um segja en ég er sannfærður um það að þúsundir kjósenda, sem tóku mark á Framsfl. fyrir síðustu kosningar, hugsa sig um tvisvar áður en þeir greiða atkvæði aftur með þeim flokki.