Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 18:10:58 (5339)

1996-04-29 18:10:58# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[18:10]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég hafði alls ekki hugsað mér að taka til máls í þessari umræðu en sú ræða sem hér var flutt áðan af hv. þm. Guðna Ágústssyni var þess efnis að ég get ekki orða bundist. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mikið ótrúlega eru menn fljótir að gleyma. Hér stóðum við dag eftir dag og fram á rauða nótt á síðasta kjörtímabili og reyndum að berjast gegn því með öllum okkar mætti sem þá vorum í stjórnarandstöðu, þar með talinn Framsfl., að þeim skólagjöldum yrði ekki komið á sem þáv. ríkisstjórn barðist fyrir. Það tókst að ná því fram að þau skólagjöld náðu eingöngu til háskólastigsins. Seinna var komið á gjöldum í framhaldsskólum, að vísu ekki nærri eins háum. En við börðumst gegn þessu af mikilli hörku og því get ég ekki annað en lýst undrun minni á þeim málflutningi sem hv. þm. hafði hér í frammi þar sem hann sagði það annars vegar að fólk munaði ekkert um að greiða þessi gjöld og hins vegar það að þessi umræða snerist ekki um nokkurn skapaðan hlut. Þetta væri ekki mál sem skipti máli. En það er nú einu sinni svo, hv. þm., að þegar einu sinni er búið að lögfesta gjöld af þessu tagi hafa þau tilhneigingu til að hækka vegna þess að því miður hefur verið búið þannig, sérstaklega að Háskóla Íslands, að hann skortir sárlega fé. Því verður það að sjálfsögðu mjög freistandi fyrir háskólann að reyna að hækka þessi gjöld þó að það sé ekki stefna skólans og þó að þeim sem starfa við háskólann sé í reynd mjög illa við þessi gjöld eins og kemur m.a. fram í umsögn þeirra tveggja háskóla sem hér um ræðir. Það kemur fram að háskólaráð Háskóla Íslands minnti á að það hefur ítrekað mótmælt því að háskólinn sé settur í þá stöðu að þurfa að innheimta gjald af stúdentum til reksturs skólans eins og fram kemur í þeirra umsögn, með leyfi forseta.

Af þessu tilefni vil ég aðeins að rifja upp sögu þessa máls og út á hvað það gengur. Þegar umræðan um skólagjöld hófst á þinginu haustið 1991, reyndar var það boðað strax um sumarið af þáv. hæstv. menntmrh., Ólafi G. Einarssyni, að skólagjöld væru í uppsiglingu, var staðan þannig að Háskóli Íslands innheimti 7.700 kr. í skólagjöld eða reyndar ekki í skólagjöld, það eru mismæli hjá mér, því að megnið af því gjaldi fór til stúdentaráðs. Það fóru 2.000 kr. til háskólans sjálfs, 2.000 kr. sem var þá það sem menn töldu vera jafnvirði þeirrar þjónustu sem hægt var að flokka sem kostnað við innritun nemenda í skólann því að innritunargjöldum eru auðvitað ekki ætlað annað en að standa undir þeim kostnaði. Þáverandi ríkisstjórn fór hins vegar þá leið að leggja það til að gjöldin yrðu hækkuð upp í 17.000 kr. sem var samþykkt eftir mjög harða baráttu á hinu háa Alþingi. Þar með var ísinn brotinn. Stóra spurningin snýst um það í fyrsta lagi hvenær menn fara út í að hækka þessi gjöld? Hvað verður langt þar til þau verða komin upp í 50 þús. eða 100 þús. eða 200 þús.? Hvað líður á löngu? Hver er það sem á að kosta menntun þjóðarinnar? Er það vilji hv. þm. og Framsfl. að það verði fyrst og fremst einstaklingarnir sem borgi hana eða er það í þágu þjóðarinnar að mennta fólk? Er það hlutverk ríkisins eins og það hefur verið til þessa að reka menntakerfið?

[18:15]

Við kvennalistakonur erum þeirrar skoðunar að það sé hlutverk ríkisins að annast menntunina. Hún er mikilvæg allri þjóðinni og ég átti þátt í því, reyndar með nokkrum þingmönnum sem hér eiga sæti, að berjast fyrir því á sínum tíma sem nemendur Háskóla Íslands að skólinn yrði öllum opinn, að fjölbreytni náms yrði sem mest og að námslánakerfið yrði með þeim hætti að það tryggði jafnrétti til náms. Hv. síðasta ríkisstjórn vann ekki einungis að því að koma á skólagjöldum því að það eru skólagjöld þegar þau eru farin að standa undir rekstri. Það er munur á því hvort það er annars vegar verið að innheimta gjald til félagsstarfsemi stúdenta og þeirrar þjónustu sem þeir annast fyrir nemendur og hreinan og kláran kostnað m.a. vegna kennsluskrár og skírteinis sem nemendur fá eða hvort farið er að taka peninga í hreinan rekstur. Það er það sem gert var með lögunum 1991. Það er það sem í rauninni er verið að staðfesta hér þó það sé verið að kalla hlutina öðrum nöfnum. Þetta mál snýst um prinsipp. Það snýst um það prinsipp hver á að annast menntunina og hver á að borga menntunina. Er það vilji okkar að feta okkur eftir þeirri braut að einstaklingarnir borgi sífellt meira og það skipti sífellt meira máli hvernig að þeim er búið vegna þess, hæstv. forseti, að hæstv. síðasta ríkisstjórn gekk þannig frá Lánasjóði íslenskra námsmanna að það er mikið umhugsunarefni fyrir þá nemendur sem innritast í Háskóla Íslands hvort þeir eigi að taka námslán. Ég tilheyri þeirri heppnu kynslóð sem sá námslánin batna ár frá ári, reyndar eftir harðvítuga baráttu. Ég stóð að því ásamt mínum samnemendum á þeim tíma að fallast á að námslánin yrðu vísitölubundin og að þau fylgdu verðlagsþróun vegna þess að við vildum borga lánin til baka en þau voru líka fyrir alla og þau opnuðu þúsundum nemenda, þúsundum og aftur þúsundum tækifæri til að afla sér menntunar sem þeir hefðu ekki átt kost annars. Eins og margoft hefur verið sagt var námslánakerfi okkar með því albesta sem þekktist. Þar með er ekki sagt að það hefði ekki mátt bæta, það hefði ekki mátt herða eftirlitið og sjá til þess að það væri ekki misnotað en því miður gekk hv. síðasta ríkisstjórn allt of langt í þeim efnum og það bólar ekkert á efndum þeirra loforða sem snerta Lánasjóð íslenskra námsmanna sem m.a. Framsfl. gaf hér fyrir síðustu kosningar. Hv. þm. getur því ekki undrast það að við sem vorum með Framsfl. í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili innum þá eftir því hvernig þeir hyggist standa við þau loforð sem þeir gáfu.

Ég sat á fundi í Háskólabíói með fulltrúum allra flokka þar sem námsmenn spurðu frambjóðendur út úr. Ef ég man rétt var það þáv. þingmaður, núv. hæstv. viðskrh., Finnur Ingólfsson, sem sat þann fund og við vorum ákaflega sammála um þær úrbætur sem við vildum gera á Lánasjóði íslenskra námsmanna. Það bólar ekkert á þeim. Hér er því um margfalda árás á námsmenn að ræða. Þeim er gert að borga þessi skólagjöld og þeir mega jafnframt sæta þeim afarkostum sem Lánasjóður íslenskra námsmanna býður upp á en sem flestir þeirra eiga reyndar ekki eftir að reka sig á fyrr en eftir allnokkur ár þegar þarf að fara að borga þessi lán. Eins og staðan er hér á launamarkaði verð ég að segja það að ég kvíði því mjög þegar við stöndum frammi fyrir því að þurfa að fara að grípa til aðgerða vegna vanskila við Lánasjóð íslenskra námsmanna eða vegna þess að hópur menntafólks hefur ekki efni á að koma sér upp húsnæði. Í umræðunni á sínum tíma bentum við á, og þar með taldir framsóknarmenn, hvaða afleiðingar þetta muni hafa.

Lánasjóðurinn er auðvitað eitt mál og þessi skólagjöld eru annað og í mínum huga er þetta prinsippmál sem snýr að því að við eigum að mennta ungu kynslóðina eða reyndar alla því það er orðið algjörlega úrelt að tala um að mennta ungu kynslóðina, það bendir allt til þess að fólk þurfi að sækja sér menntun allt sitt líf og vera sífellt að endurbæta menntun sína sem auðvitað kallar á mikla endurskoðun á skólakerfinu og á hlutverk þess þar með talið auðvitað það hvernig fólk hefur efni á að borga þá símenntun og endurmenntun. Það að byggja upp þröskulda eins og þessa gerir auðvitað mörgum erfiðara fyrir. Það hefur komið fram hér að Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands býður upp á mörg og merkileg námskeið sem eru afar vel sótt en þau eru líka mörg hver alveg gífurlega dýr. Það er nú svo að mörg þeirra stóru námskeiða eru greidd af fyrirtækjum. Þar sem um endurmenntun verkfræðinga eða lögfræðinga er að ræða eru það fyrirtækin sem borga. Hins vegar eru þau námskeið sem snúa að menningarmálum og slíku ekki mjög dýr, þau standa fyrst og fremst undir ákveðnum kostnaði, ákveðnum hluta kostnaðar við þessi námskeið. Þessi þjónusta er með þeim hætti að hún á að standa undir sér. Þar erum við fyrst og fremst að ræða um fullorðið fólk. Það er mikið af eldra fólki sem sækir þau námskeið. Ég veit að fólki er gefinn kostur á því að skipta þessum gjöldum og það eru ýmis liðlegheit í sambandi við það ef fólk á erfitt með að borga þannig að þetta er náttúrlega á engan hátt sambærilegt. Það er alls ekki sambærilegt að tala um að fólk borgi fyrir námskeið sem það velur sjálft að fara á. Það er um frjálst val að ræða. Hins vegar liggur nokkuð í hlutarins eðli að sérstaklega ungt fólk sem vill mennta sig, vill búa sig undir lífið, leggur í háskólanám og þá er ósanngjarnt að láta fólk borga gjöld af þessu tagi. Ég verð að segja að ég óttast tvennt í þessu alveg sérstaklega. Það er annars vegar það að þessi gjöld muni hækka mjög fljótlega. Það er svo þrengt að Háskóla Íslands að þar hefur náttúrlega verið umræða í gangi um það að staða háskólans sé því miður á niðurleið vegna þess langvarandi fjársveltis sem hann hefur búið við. Það er annars vegar það að gjöldin muni hækka og hins vegar atriði sem ég hef ekki orðið vör við að hafi verið nefnt í þessari umræðu og það er hvaða áhrif þessi lagasetning muni hafa á gjaldtöku í framhaldsskólunum. Eins og þessi gjaldtaka er rökstudd er verið að taka gjald fyrir þjónustu sem er veitt í framhaldsskólunum án þess að það sé borgað fyrir hana sérstaklega. Í nál. er talið upp ýmislegt það sem er verið að greiða fyrir og það er m.a. aðgangur að tölvum og ýmislegt sem nemendur hafa frjálsan aðgang að í framhaldsskólunum. Ég spyr: Hvenær verður farið að taka gjöld í framhaldskólanum fyrir þá þjónustu sem kemur innritun nemenda ekki nokkurn skapaðan hlut við? Hvernig stenst þetta þá álit umboðsmanns Alþingis sem benti á það réttilega á sínum tíma að innheimta gjaldanna í háskólanum hefði ekki lagastoð? Þetta gengur ekki upp. Sú aðferð sem hér er viðhöfð gengur einfaldlega ekki upp. Hver er munurinn á því að taka gjöld af framhaldsskólanemum og af háskólanemum? Þetta er allt fólk í frjálsu námi. Það er enginn sem skyldar fólk til að fara í þetta nám. Munurinn liggur einfaldlega í því að nemendur á háskólastigi eiga þó kost á námslánum. En hvers er að vænta þegar menn eru einu sinni búnir að ganga inn á þessa braut? Það er þetta tvennt í málinu sem ég óttast mjög.

Hæstv. forseti. Að lokum aðeins eitt atriði. Hv. þm. Guðni Águstsson sagði það í ræðu sinni að hér væri ekki ágreiningur í menntamálum. Ég hygg að hann muni komast að öðru þegar framhaldsskólafrv. kemst á dagskrá. Það er því miður ekki svo að hér sé samstaða í menntamálum. Það er ekki einu sinni leitað eftir henni. Það er ekki staðið þannig að málum af núv. ríkisstjórn og ekki heldur þeirri síðustu að það sé leitað breiðrar samstöðu. Það eru lögð fram frv. sem hafa verið unnin af nefndum á vegum stjórnarmeirihlutans og ég tel að þannig eigi ekki að standa að skólamálum. Það á að ná breiðri samstöðu um skólamál vegna þess að þau snerta alla þjóðfélagsþegnana. Þau koma öllum við. Skólalöggjöf á fyrst og fremst að vera opin og sveigjanleg þannig að hún gefi kost á ýmiss konar skólaformum. Það á ekki að vera að þrengja öllu í sama farveginn eins og er því miður stefna þessarar ríkisstjórnar. Allra síðast, hæstv. forseti, þá nefndi hv. þm. Guðni Ágústsson það að stjórnarandstæðingar væru í rauninni sammála þessu skólagjaldaprinsippi vegna þess að þeir legðu fram breytingartillögur um að lækka skólagjöldin í 9.000 kr. Hér er auðvitað um það að ræða að menn eru að reyna að lágmarka skaðann. Það er verið að reyna að draga úr tillögunni. Auðvitað vildum við ekki hafa nein skólagjöld. Ekki nein en það er þó verið að reyna að draga hér úr með þessari tillögu.

Hæstv. forseti. Eins og ég nefndi hafði ég alls ekki hugsað mér að taka þátt í umræðunni. Ég talaði við 1. umr. og lét þá í ljós skoðanir mínar en umræðan hefur þróast þannig að ég sá mig knúna til þess að ofreyna hér mína illa förnu rödd en það stendur vonandi til bóta.