Forræðismál Sophiu Hansen

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 13:34:03 (5343)

1996-04-30 13:34:03# 120. lþ. 128.91 fundur 276#B forræðismál Sophiu Hansen# (umræður utan dagskrár), MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[13:34]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Í sex ár hefur staðið yfir í Tyrklandi forræðisdeila þar sem íslenskur ríkisborgari fer fram á að forræði yfir tveimur dætrum sínum sem einnig eru íslenskir ríkisborgar sé virt. 15. júní 1990 fór faðir þeirra með þær 8 og 9 ára gamlar til Tyrklands. 15. ágúst sama ár áttu þær að koma aftur heim. Þann dag tilkynnti hann móður þeirra að hún fengi þær aldrei aftur. Frá þeim tíma hefur staðið yfir þrotlaus barátta Sophiu Hansen fyrir því að fá dætur sínar heim og að úrskurði íslenskra dómstóla frá 10. apríl 1992 þess efnis að hún fari með forræði stúlknanna verði framfylgt. 16. maí 1992 hitti Sophia Hansen dætur sínar síðast. Þá kom fram í viðtali sem tekið var við þær að þær sættu harðræði og hótunum á heimili föður síns. Tyrkneskir dómstólar hafa vissulega úrskurðað að Sophia skuli hafa umgengnisrétt við dætur sínar á meðan réttað er í málinu enda verði það að teljast lágmarksmannréttindi. En engu að síður hafa tyrknesk yfirvöld látið það viðgangast að þessi réttur móðurinn hefur verið brotinn 63 sinnum síðan 1992. Forræðismálinu hefur verið vísað frá undirrétti til hæstaréttar og frá hæstarétti til undirréttar fram og til baka öll þessi ár. Í fjögur ár af sex sem liðin eru frá því að stúlkurnar voru numdar á brott hefur þessum tveimur ungu íslensku ríkisborgurum verið meinað að sjá móður sína eða hafa samskipti við hana.

Baráttu Sophiu Hansen fyrir að fá dætur sínar tvær þekkir öll þjóðin. Við vitum að þessi barátta hefur verið hörð, kostað mikið, bæði tilfinningalega og fjárhagslega. Þingmenn hafa tekið þetta mál upp í hvert sinn sem færi hefur gefist. Almenningur í landinu hefur sýnt stuðning sinn í verki. En er nóg að gert? Við höfum skipt okkur af mannréttindamálum og fordæmt mannréttindabrot á alþjóðavettvangi. Þurfum við ekki að líta okkur nær? Það er brot á mannréttindum þegar foreldri er meinað að hafa eðlilegt samband við börn sín og ofbeldi, jafnvel dauða hótað reyni foreldrið að nálgast börnin. Við þetta hefur Sophia Hansen mátt búa frá því að dætur hennar voru numdar á brott.

Fyrir tæpum tveim vikum áttum við hv. þingmenn, Geir H. Haarde og Einar K. Guðfinnsson, þess kost að hitta Sophiu og lögfræðing hennar, Hasip Kaplan. Í samtali okkar við lögfræðinginn kom fram að þetta forræðismál á sér ekki hliðstæðu í tyrknesku réttarkerfi. Niðurstaða þess verður fordæmisgefandi. Fjöldi einstaklinga, sem staðið hafa í sömu sporum og Sophia, hafa gefist upp en bíða nú niðurstöðu í máli Sophiu.

Við undirbúning málsins hefur lögfræðingur hennar ráðfært sig m.a. við færa lögmenn og dómara við Mannréttindadómstólinn. Hann er ákveðinn í að fara með málið fyrir Mannréttindadómstólinn tapist það í Tyrklandi, að tyrknesk yfirvöld verði ekki látin komast upp með fleiri mannréttindabrot af þessu tagi. Lögfræðingurinn telur að aðeins viðræður milli æðstu manna Íslands og Tyrklands geti fært þetta mál til betri vegar. Hann telur nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld sendi tyrkneskum yfirvöldum harðorð mótmæli vegna málsmeðferðarinnar og bendi á þau grófu mannréttindabrot sem framin hafa verið gagnvart Sophiu og dætrum hennar, sérstaklega hvað varðar umgengnisréttinn, að málið snúist um staðfestingu á íslenskum úrskurðum, að bent sé á að þetta mál geti spillt verulega fyrir samstarfi ríkjanna. Þá telur lögfræðingur Sophiu Hansen að nauðsynlegt verði að öryggi hennar sé tryggt á meðan hún dvelst í Tyrklandi vegna réttarhaldanna. Sjálfur er hann ekki viss um sitt eigið öryggi á meðan á réttarhöldunum stendur og gengur því með byssu.

Virðulegi forseti. 25. apríl sl. ákvað undirréttur í Istanbul að fresta ákvörðun í málinu enn einu sinni og leiða dætur Sophiu Hansen, þær Dagbjörtu og Rúnu, fyrir rétt þannig að vilji þeirra komi í ljós. Faðir stúlknanna hefur haft þær í sex ár. Þær hafa ekki fengið að hitta móður sína, vita ekkert hvað bíður þeirra velji þær að koma hingað. En eitt vita þær: Strax að loknum yfirheyrslum verða þær að fara aftur með föður sínum heim, föður sem beitt hefur harðræði og hótunum. Tyrkneskt réttarkerfi hefur ekki séð til þess að þær hafi eðlilega möguleika til þess að velja. Tyrkneskt réttarkerfi brýtur á grófan hátt sjálfsögð mannréttindi á þessum tveimur stúlkum og móður þeirra.

Ég vona að sú umræða sem hér verður verði málefnaleg, snúist ekki um það hvort og hvað hefði átt að gera, heldur hitt sem er mest um vert að við finnum sameiginlega þau úrræði sem duga. Mínar spurningar til hæstv. utanrrh. eru:

1. Mun ríkisstjórnin beita sér í þessu máli þannig að það verði ekki látið viðgangast að tyrkneskt réttarkerfi og tyrknesk yfirvöld hunsi íslenska úrskurði í máli þar sem málsaðilar eru allir íslenskir ríkisborgarar?

2. Munu stjórnvöld senda frá sér formleg mótmæli þar sem tekið er á ítrekuðum, grófum brotum á mannréttindum dætra Sophiu Hansen og krefjast þess að forræði hennar yfir dætrunum verði staðfest?

3. Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera til að aðstoða Sophiu Hansen nú á lokastigi málaferlanna í Tyrklandi?