Forræðismál Sophiu Hansen

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 13:48:05 (5346)

1996-04-30 13:48:05# 120. lþ. 128.91 fundur 276#B forræðismál Sophiu Hansen# (umræður utan dagskrár), GHH
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[13:48]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Það var vissulega eftirminnileg stund þegar við þrjú áttum þess kost að hitta Sophiu Hansen, lögfræðing hennar og stuðningsmenn í Istanbul nú á dögunum. Þetta mál er allt hið hörmulegasta. Þetta er ekki bara hörmulegt mál út frá sjónarmiði þeirra einstaklinga sem hlut eiga að máli, konuna sem misst hefur börnin sín og er í aðstöðu sem við öll skiljum sem erum foreldrar. Þetta er líka hörmulegt út frá því sjónarmiði að hér skuli vera við að glíma ríki sem við viljum líta á sem lýðræðisríki, bandalagsríki, en þar sem réttarfarið er þannig að mál geta þvælst milli dómstiga svo að árum skiptir án þess að lausn fáist. Það er hörmulegt.

Ég fagna því mjög sem fram kom í máli utanrrh. varðandi stuðning ríkisstjórnarinnar í málinu á næstunni. Það hefur mikið verið gert af hálfu stjórnvalda, þingmanna, fyrrv. utanrrh. og margra fleiri í þessu máli árum saman. Allir sem hafa átt þess kost að blanda sér í málið og ræða við tyrkneska kollega sína hafa gert það árum saman. Ég fagna þessu sem fram kom. En það er fleira sem þarf að gera.

Ef þetta mál fer eins og margt bendir til fyrir Mannréttindadómstólinn í Strassborg fyrr eða síðar, þá þurfa íslensk stjórnvöld að koma þar að máli, leggja lögfræðilegt lið eins og kostur er og undirbúa þá málssókn sem þar mun væntanlega eiga sér stað. Það verður dýrt, en við Íslendingar höfum sérfræðinga sem kunna fyrir sér í þeim efnum og við höfum ákveðna reynslu af málarekstri þar.

Jafnframt vil ég nefna það, virðulegi forseti, að nú er það ljóst að börnin munu koma fyrir rétt. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þess verði freistað með einhverjum ráðum að þessar ungu stúlkur fái tök á því að kynna sér hvernig búið er að jafnöldrum þeirra á Íslandi og í vestrænum löndum, þannig að þær geti séð að sú mynd sem þeim er eflaust búin og sögð af háttum ungra stúlkna og ungra barna á Íslandi er ekki sú sem eflaust hefur verið látin í veðri vaka. Það er mjög mikilvægt að þeim sé gert kleift að skapa sér sjálfstæða, eðlilega og rétta mynd af því lífi sem mundi bíða þeirra á Íslandi og sem þær vonandi einhvern tíma upplifa ef réttlætið nær fram að ganga í þessu máli.