Forræðismál Sophiu Hansen

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 13:50:30 (5347)

1996-04-30 13:50:30# 120. lþ. 128.91 fundur 276#B forræðismál Sophiu Hansen# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[13:50]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur verið merkilegt að fylgjast með hetjulegri baráttu Sophiu Hansen sem nú hefur staðið í um það bil sex ár. Eftir því sem ég best veit hefur engri erlendri konu tekist að vinna forræðismál í Tyrklandi, en þar eru mörg hundruð slík mál í biðstöðu. Þetta á sér m.a. skýringar í því að við erum að kljást við allt annan menningarheim, heim múslima þar sem konur og börn hafa öldum saman verið álitin eign karlmanna og því er það m.a. að svo erfiðlega hefur gengið.

Allir íslenskir menn þingmenn sem hafa átt þess kost að hitta kollega sína frá Tyrklandi hafa reynt að beita sér í þessu máli, í Evrópuráðinu og annars staðar þar sem það hefur verið hægt. En svörin eru greinilega alls staðar hin sömu. Það er alltaf vísað til þess að málið sé fyrir dómstólum og það sé hægt að treysta tyrkneskum dómstólum. En sagan sýnir okkur og þarf ekki annað en vísa til margfaldra mannréttindabrota, dóma yfir þingmönnum í Tyrklandi og annarra slíkra mála, að réttarfarið í þessu ríki er ekki mjög gott og því miður tel ég að því sé ekki að treysta. Því er ekki gott að segja hvernig þetta mál þróast. Það stefnir svo sannarlega í óefni því að samkvæmt múslimskum hefðum eru þessar ungu stúlkur að komast á giftingaraldur. Giftingaraldur stúlkna meðal múslima er almennt 13 ár. Mér er sagt að tyrknesk lög kveði á um 16 ár en ég veit ekki hvort það er virt meðal heittrúaðra múslima eins og faðir þessara stúlkna er.

Herra forseti. Sophia Hansen þarf á miklum stuðningi að halda. Hún þarf móralskan, pólitískan og fjárhagslegan stuðning og ekki síst vegna þess að hennar mál er mikilvægt. Það er fordæmi og það er mannréttindamál.