Forræðismál Sophiu Hansen

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 13:52:53 (5348)

1996-04-30 13:52:53# 120. lþ. 128.91 fundur 276#B forræðismál Sophiu Hansen# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[13:52]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að taka þetta mál til umræðu. Mál Sophiu Hansen og dætra hennar er eitt af sorglegri fjölskylduvandamálum sem hafa verið uppi á Íslandi á síðari tímum. Það sem athygli vekur er mikil þrautseigja Sophiu Hansen í þessu máli og hversu vel henni hefur tekist að halda á málinu allan þennan tíma. Það sem er þó einnig eftirtektarvert og mjög sérstakt í þessu máli er að hér er í rauninni um mannrán að ræða. Það er verið að ræna íslenskum ríkisborgurum til Tyrklands og í skjóli tæknilegra atriða í dómskerfinu hefur tekist með ýmsu móti að draga málið svo á langinn að það er að falla á tíma eins og sagt er, því að börn Sophiu eru að komast á aldur þannig að þau verða Tyrkir. Þetta er allt að gerast að mér sýnist með afskiptaleysi stjórnvalda í Tyrklandi.

Ég veit að fjöldinn allur af hv. alþingismönnum og ríkisstjórn hafa beitt sér til að vekja athygli tyrkneskra stjórnvalda á þessu grófa mannráni. Ég er einn af þeim sem hafa gert það, m.a. með því að reyna að ná tali af forsætisráðherra Tyrklands, Tansu Ciller, í París á sl. sumri. Það tókst ekki því miður vegna þess að hún var svo umsetin af fólki og tími hennar svo naumur að hún gat ekki tekið nema hluta af þeim sem höfðu komist á mælendaskrá til þess að ræða þessi mál við hana. Ég ritaði henni því bréf 27. júní sl. og ítrekaði það tvisvar sinnum. Mér er kunnugt um að þetta bréf kom til hennar og var skoðað en engin svör hafa fengist við því. Ég tel því að á hæstu stöðum sé þetta mál gjörkunnugt en ráðamenn hafi látið það afskiptalaust. Þess vegna tek ég hjartanlega undir þær aðgerðir sem hæstv. utanrrh. hefur reifað að hann muni gera. Ég tel að ríkisstjórnin eigi sjálf að beita sér í þessu máli að fullu. Hún á að mótmæla beint við ríkisstjórn Tyrklands og koma þessu máli til sérstakrar umræðu í tyrkneska þinginu. Hugur þingmanna og þjóðarinnar allrar stendur með Sophiu Hansen í þessu máli.