Forræðismál Sophiu Hansen

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:00:38 (5351)

1996-04-30 14:00:38# 120. lþ. 128.91 fundur 276#B forræðismál Sophiu Hansen# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:00]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið til máls og sýnt með því skilning og stuðning við málstað Sophiu Hansen og dætra hennar en ég vil þó sérstaklega þakka hæstv. utanrrh. þau svör sem við fengum og þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að senda sendiherra Íslands í Tyrklandi, Ólaf Egilsson, til Tyrklands til þess að skoða stöðu málsins og bera fram mótmæli íslenskra stjórnvalda.

Réttarfar í Tyrklandi virðist vera með algerum ólíkindum og virðing þeirra fyrir íslenskum úrskurðum engin. Sambærilegt mál var rekið í Tyrklandi fyrir um það bil tveimur árum af norskri konu. Það tók aðeins eitt ár að leysa það vegna samninga sem Norðmenn og Tyrkir eru aðilar að og það er vissulega umhugsunarvert hvort við þurfum ekki að taka til umræðu og fullgildingar ýmsa þá samninga sem í gildi eru hjá öðrum þjóðum og geta e.t.v. komið í veg fyrir að svona mál endurtækju sig.

Þetta mál á sér enga hliðstæðu í tyrknesku réttarkerfi. Hér er um barnsrán að ræða og vanvirðingu á úrskurði réttarkerfis annars lands. En mér sýnist að vilji Alþingis sé augljós og það er spurning hvort við ættum ekki áður en þingið fer heim að taka til umræðu og samþykkja heimild til ríkisstjórnarinnar til fjárhagsaðstoðar vegna þessa máls alls. Ég tek undir þá hugmynd sem kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það er full ástæða til þess að Alþingi álykti sérstaklega um málið og jafnvel fyrir 11. maí þegar sendiherra Íslands fer til Tyrklands.