Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:16:11 (5357)

1996-04-30 14:16:11# 120. lþ. 128.92 fundur 277#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn# (um fundarstjórn), VE
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:16]

Vilhjálmur Egilsson:

Hæstv. forseti. Ég hygg að það hafi ekki farið fram nein styrjaldaryfirlýsing í sambandi við þetta mál. Það mál sem hér er til umræðu um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var lagt fram fyrir alllöngu og vinna við það í nefndinni hófst eftir páska. Nefndin hefur starfað að því ötullega og jafnframt málefnalega og ég get þess vegna endurtekið þakkir mínar til fulltrúa stjórnarandstöðunnar í nefndinni. Þeir hafa starfað málefnalega að málinu þrátt fyrir að um það væri ágreiningur.

Það er ekkert nýtt að ágreiningur sé um mál á þingi og það er heldur ekkert nýtt að stundum sé ágreiningur um þær leikreglur sem eiga að gilda um vinnumarkaðinn. Ég vek athygli á því að núgildandi lög um vinnumarkaðinn og réttindi og skyldur opinberra starfsmanna voru sett árið 1954. Þá höfðu opinberir starfsmenn ekki samningsrétt og ekki verkfallsrétt og þá giltu á því sviði launalög. Síðan hefur orðið ákveðin þróun. Ég hygg að þegar öllu er á botninn hvolft séu mörg nýmæli í þessari löggjöf og mörg atriði sem munu horfa til framþróunar.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og meiri hlutinn gerir breytingartillögur um málið í 18 liðum. Þær breytingar sem fylgja í kjölfarið í bandorminum hafa legið fyrir alllengi hjá nefndarmönnum. Það hefur hins vegar ekki tíðkast að ráðherrar hafi komið á fund efh.- og viðskn. Ég minnist þess ekki í þeirri sögu sem er reyndar ekki löng sem ég hef verið formaður í þeirri nefnd og ég hafna því enn fremur að verið sé að misbeita þingræði á nokkurn hátt. Það er hlutverk löggjafarvaldsins að setja þessar leikreglur eins og aðrar sem settar eru með lögum og reglum og það er drjúgur meiri hluti á þingi fyrir þessari löggjöf. Það væri misbeiting á þingræðinu ef minni hlutinn ætti að ráða málum.