Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:18:58 (5358)

1996-04-30 14:18:58# 120. lþ. 128.92 fundur 277#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn# (um fundarstjórn), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:18]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það eru alvarleg tíðindi að ríkisstjórnin og flokkar hennar á Alþingi skuli hafa beitt valdi til þess að taka það mál út úr nefnd sem einna mestar umræður og einna mest andstaða hefur verið við í vetur. En með þessu er líka alveg skýrt hver er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, hvaða mál það eru sem hún ætlar að leggja megináherslu á. Það eru mál sem snúa að skerðingu á réttindum launafólks, það eru mál sem snúa að íhlutun í málefni verkalýðshreyfingarinnar. Við skulum ekki gleyma því að það er ekki bara um það að ræða að hér hafi málið um réttindi og skyldur rutt öðru frá þegar á hefur þurft að halda heldur hefur það einnig gerst þegar frv. um stéttarfélög og vinnudeilur hefur átt í hlut. Þannig má segja að áhugi og áherslusvið þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr kristallist.

Frv. sem nú var tekið út úr nefnd var lítt unnið og ekki gefinn tími til að ganga frá því með sæmandi hætti. Stjórnarandstaðan hefur verið með varnaðarorð en ríkisstjórnarflokkarnir láta þau sem vind um eyru þjóta og hafa hafnað þeirri samningaleið varðandi þetta mál sem og frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sem verkalýðshreyfingin hefur þó boðið upp á. Vinnubrögðin undirstrika þessa áherslu mjög nákvæmlega. Þetta er unnið í algerri andstöðu við sameinaða verkalýðshreyfingu. Svona er unnið í algerri andstöðu við stjórnarandstöðuna á Alþingi og á það er lögð áhersla að málið sé tekið út daginn fyrir 1. maí, baráttudag verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi. Herra forseti. Í þessum vinnubrögðum felast ögranir, ögranir sem verður ekki litið fram hjá.