Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:23:20 (5360)

1996-04-30 14:23:20# 120. lþ. 128.92 fundur 277#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:23]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef alið á þeirri von að þau tvö stjfrv. sem komu fram fyrir nokkrum vikum á Alþingi og fara með valdboði gegn sameinaðri launþegahreyfingu landsins yrðu sett á ís og það yrði reynt að ná samkomulagi við launþega um innihald frumvarpanna og samkomulagi við stjórnarandstöðuna þannig að mál um réttindi og umhverfi launþega yrðu ákveðin í sátt við alla aðila eins og hefur verið alla tíð að þessi mál hafa verið unnin í sátt. Það er þess vegna sláandi og skelfileg upplýsing að frv. hafi nú verið tekið út úr efh.- og viðskn. og þessar upplýsingar sem hér koma fram vekja sannast sagna furðu.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, og taka undir með þeim sem hér hafa talað að það er ákveðinn hroki í því að taka þessi mál út úr nefnd með valdi og með fruntaskap vil ég segja á þessum degi. Hvernig eigum við að meta það að þetta mál er tekið út úr nefnd í dag, hvernig eigum við að meta það? Ég met það svo að þetta séu skilaboð hins mikla meiri hluta um að ég geri það sem ég vil, ég geri það þegar ég vil og ég hef þetta eins og ég vil. Ber það vinnulag í sér einhvers konar hugsunarhátt verkamanna að mál sem eru tekin inn á dagskrá á 80 ára afmæli Alþýðusambands Íslands séu rifin með valdi út úr nefnd daginn fyrir 1. maí, baráttudag verkalýðsins? Við formenn þingflokka höfum átt mjög gott samstarf við forseta um að reyna að koma okkur saman um þinglok. Það hefur verið góður vilji í þessum hópi en viljinn hefur líka snúist um það hvað ríkisstjórnin hyggist gera í þessum stóru málum og nú liggur það fyrir. Ég er ekki að spyrja um hvers vegna, virðulegi forseti, tíu ráðherrar eru ekki hér en ég spyr: Hvað hugsa tíu ráðherrar og hvað hugsa stjórnarliðarnir sem eru bakland þessara aðgerða?