Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:26:06 (5361)

1996-04-30 14:26:06# 120. lþ. 128.92 fundur 277#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn# (um fundarstjórn), VS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:26]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tilheyri þeim illræmda meiri hluta í hv. efh.- og viðskn. sem tók mál út með valdi eftir því sem mér heyrist í hádeginu, reyndar umdeilt frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég vil nota tækifærið og þakka samstarfsmönnum í efh.- og viðskn. fyrir sérstaklega gott samstarf í nefndinni. Minni hlutinn hefur haft áhrif á breytingartillögur sem hafa verið lagðar fram þó að þær séu eingöngu lagðar fram af meiri hlutanum og nefndinni hefur verið stjórnað af hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni og er ekkert nema gott um það að segja.

Hér var talað um þingræðislegt ofbeldi og ég spyr hv. þingmenn: Hvaða orð ætla þeir að nota þegar virkilega þarf á stórum orðum að halda á hv. Alþingi? Þetta mál var tekið fyrir á tíu fundum og þeir voru allir kallaðir til sem beðið var um að kæmu til fundar við nefndina og sumir komu oftar en einu sinni. (Gripið fram í: Nei, ekki fjmrh.) Ég ætla ekki að dæma um þær viðræður sem hagsmunaaðilar hafa e.t.v. átt eða ekki átt við fjmrn. á undirbúningsstigi þessa máls en eftir að málið kom til þingsins hefur verið fjallað um það algerlega eftir þingsköpum og vinnubrögð í nefndinni voru til fyrirmyndar eins og áður hefur komið fram .

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar áðan, þau lýsa honum best og ekki síst þar sem um fyrrv. ráðherra er að ræða.