Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:28:04 (5362)

1996-04-30 14:28:04# 120. lþ. 128.92 fundur 277#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:28]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það sér á að hv. þingmenn Framsfl. kveinka sér undan umræðunni og ég spyr: Hversu langt ætla hv. þingmenn Framsfl. að ganga í því að vera í hlutverki fótaþurrkunnar fyrir Sjálfstfl. í þessu máli? Það var einn af þeim mönnum sem stofnaði Framsfl. sem fyrstur hvatti íslenskt verkafólk til þess að halda 1. maí hátíðlegan og á morgun er 1. maí. En í dag taka þingmenn Framsfl. þátt í þessu ofbeldisverki því að ég tek undir með þeim sem kalla þetta ofbeldisverk. Satt að segja lýsi ég undrun minni og hneykslan á Framsfl. sem hefur kallað sig flokk félagshyggjunnar.

Herra forseti. Það var líka lúpulegur formaður efh.- og viðskn. sem kom hingað áðan. Hann gat ekki varið gerðir sínar. En hann mætti þó og það er meira en hægt var að segja um þann sem kippir í spottann, hæstv. fjmrh., en það er einu sinni svo, við vitum að þeir eru í hlutverki Baldurs og Konna.

Herra forseti. Það er ekki hægt annað en telja það harðlega ámælisvert að hv. formaður efh.- og viðskn. skuli taka málið út án þess að leyfa nefndarmönnum að njóta þess réttar sem felst í því að fá fjmrh. til fundar við nefndina.

Herra forseti. Ein af kvenhetjum íslenskra fornsagna sagði: ,,Misjöfn verða morgunverkin. Ég hefi spunnið 12 álna garn en þú hefir vegið Kjartan.``

Herra forseti. Nú hefur stjórnarliðið vegið friðinn í þessu þingi.