Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:50:09 (5368)

1996-04-30 14:50:09# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:50]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Já, það er rétt. Hv. þm. kom upp og talaði um að þær væru margar merkilegar ræðurnar. Og þessi var afskaplega merkileg sem hér var flutt áðan. Hvað vilja þeir gera, spyr hv. þm. Það væri ráðlegt fyrir hv. þm. og ugglaust fleiri þingmenn stjórnarflokkanna --- vegna þess að það rifjaðist upp fyrir mér að þeir sátu ekki svo ýkjamikið í þingsölum þegar verið var að ræða fjárlagafrv. fyrir jólin --- það hefði verið hyggilegt fyrir hann að líta á þær tillögur stjórnarandstöðunnar sem þá lágu fyrir. Þar kom nefnilega fram hvað stjórnarandstaðan vildi gera.

Stjórnarandstaðan var tilbúin til þess að skattleggja þá sem þessi ríkisstjórn þorir ekki að skattleggja. Þar lágu fyrir hugmyndir um skatta og um gjöld og tekjur til ríkissjóðs sem hefðu getað, ef menn hefðu haft kjark til, nægt til þess að reka Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri af fullum sóma og ekki hafi þurft að ganga í vasa stúdenta til þess. Meðal þess sem stjórnarandstaðan benti á í þeirri umræðu var fjármagnstekjuskattur, ekki skattur með öfugum formerkjum Hróa hattar eins og stjórnin er með, heldur fjármagnstekjuskattur sem væri raunverulegur skattur til þess að jafna kjörin í þessu landi og bæta auk þess fé í ríkissjóð. Á meðan ríkisstjórnin ekki þorir að sækja peningana þangað sem þeir eru en heldur áfram að fara aftur og aftur í vasa þeirra sem minna hafa, þá er aumlegt að koma upp og spyrja: Hvað vill svo stjórnarandstaðan? Hún hefur talað. Það er ríkisstjórnin sem skilar auðu. Og þegar verið er að spyrja hvað fólk borgar fyrir skólavist í einkaskólum, þá er það bara allt, allt annað mál. Það er skólastefna sem hér hefur verið rekin áratugum saman að menn hafa greitt fyrir skólavist í einkaskólum. Við erum að tala um breytingar á menntastefnu þegar kemur að okkar ríkisskólum. Það er allt annað mál. Ef hv. þm. hefur ekki áttað sig á þeim mun sem er þrátt fyrir allt á einkaskólum og ríkisskólum, þá þarf hann líka að lesa sér til í þeim efnum.