Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 15:23:02 (5373)

1996-04-30 15:23:02# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, Frsm. 2. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[15:23]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir spurði að því hvort hér væri um einhverja kúvendingu að ræða. Hér er vissulega um kúvendingu að ræða því að hér er í fyrsta skipti verið að kveða á um það í lögum að leggja á skólagjöld. Hún spyr hvort ekki sé eðlilegra að gera þetta þá löglega frekar en að gera þetta ólöglega. Það er þegar komið fram í áliti umboðsmanns Alþingis að það var ekki lagastoð fyrir töku þessara gjalda. Því hefði ég haldið að það væri ekkert annað að gera í þeim efnum en draga fyrri ákvörðun til baka. Ég hefði líka haldið í framhaldi af þessu að ef menn vilja koma þessu á setji menn þetta á undir réttum formerkjum, ekki undir dulnefninu skrásetningargjald eða eitthvað annað og komi þá með þá umræðu inn í Alþingi að um skólagjöld sé að ræða en fari kalli þetta ekki skrásetningargjald. Við skulum frekar tala um hlutina eins og þeir eru og þá getum við rætt þetta undir réttum formerkjum.