Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 15:31:00 (5381)

1996-04-30 15:31:00# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[15:31]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Komið hefur fram í máli Sigríðar Önnu Þórðardóttur, hv. 3. þm. Reykn., að hér sé ekkert nýtt á ferðinni. Þessi gjöld hafa verið lögð á frá skólaárinu 1991--1992 og ekkert sé nýtt á ferðinni. Það verður að segjast eins og er ef það tekst að koma þessum frumvörpum í gegn, þá verða alla vega lögin ný og það er alger nýjung að það séu lögfest skólagjöld í háskólum á Íslandi. Það hefur ekki gerst fyrr.

Það hefur verið margborið upp á okkur sem berum fram tillögu 2. minni hluta í þessari umræðu að við höfum sjálf verið að leggja til skólagjöld. Mér finnst það vera mikill útúrsnúningur þar sem það er mjög skýrt tekið fram í greinargerð með tillögunni hvernig hún er byggð upp. Hún er byggð upp á því að við leggjum til að það fé sem hingað til hefur verið áætlað til hagsmunagæslu stúdenta komi nánast óskert áfram og þar að auki verði borgað lágt gjald, um 3.000 kr., sem renni til þess kostnaðar sem raunverulega er skrásetningarkostnaður við háskólann. Það má kalla skrásetningargjald og þá ættu þeir að gleðjast sem halda því fram að nemendur skili sér mun betur til náms ef þeir þurfa að borga eitthvert lágt gjald við skrásetningu. Ég er hins vegar ekki sannfærð um það.

Mér þykir mjög miður að í umræðunni hafa engar undirtektir orðið frá hv. meiri hluta Alþingis við tillögum um að þeir sem eru í hlutanámi greiði hlutagjald. Mér finnst þetta mikið sanngirnismál. Það er mjög margt fólk sem er að reyna að taka nám í háskólanum og vinna með. Það tekur námið á mun lengri tíma en þeir sem geta stundað fullt nám og það er mjög ósanngjarnt og það hljóta allir að sjá að þegar búið er að setja á skólagjöld eins og hér er verið að gera með lögum frá Alþingi að þeir sem stunda þess háttar nám geti ekki fengið að borga í hlutfalli við það nám sem þeir stunda.

Það var mikið gleðiefni fyrir þá sem unna menntun í landinu að heyra ræður um menntamál, ekki bara framsóknarmanna heldur fulltrúa allra þeirra flokka sem voru í framboði til Alþingis á sl. vori. Þar voru háleit markmið sett fram og það var ekki mikið talað um að fjárhagsvandi íslenska ríkisins mundi standa þeim markmiðum fyrir þrifum. Það virðist hins vegar hafa runnið upp fyrir þeim framsóknarmönnum strax og þeir komust í ríkisstjórn hvernig fjárhagur ríkisins stóð raunverulega. (Gripið fram í: Hvar eru framsóknarþingmennirnir?) Þeir eru sjálfsagt að hlusta á skrifstofum sínum, mér hefur verið sagt það.

Í þessum frumvörpum sem Framsfl. m.a. stendur að eru gerðar tillögur um skólagjöld. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, 3. þm. Norðurl. e., hefur viðurkennt að hún viti vel og viðurkenni að stór hluti af þessum gjöldum eigi að ganga til reksturs háskólanna. Það stendur beinlínis í frv. að þessa upphæð skuli endurskoða við flutning fjárlaga ár hvert. Mér finnst ekki að mikið hugmyndaflug þurfi til að ímynda sér að þeim sem á annað borð flytja slíka tillögu kunni að detta það í hug þegar kreppir að við gerð fjárlaga og vantar hér og þar efni til að troða í fjárlagagatið að það kynni að vera hægt að hækka þessar upphæðir, þessi skólagjöld, við endurskoðun fjárlaga ár hvert. Spurningin um hver ætti að borga hlýtur að hafa hvarflað að öllum þeim sem voru að flytja tillögur um bætta menntun í landinu á sl. vori. Ég held að það sé alveg óumdeilanlegt að við Íslendingar eyðum ekki mjög stórum hluta af þjóðarköku okkar til menntamála. Því hefur verið líkt við ríki sem hefur verið til umræðu í hörmulegu samhengi fyrr í dag, Tyrkland, og þykir það ekki mjög stór hlutur og auðvitað verður að auka þann hlut ef allir eru sammála um það eins og mér hefur heyrst að leið Íslands inn í framtíðina til betri lífskjara liggi í gegnum það að við menntum þjóðina sem allra best. Það hlýtur að felast í þeirri hugsun að við verjum meiri peningum til menntamála, stærri hluta af þjóðarkökunni en nú er gert.

Það var vitnað til þess áðan að fólk, m.a. hv. þingmenn, sendu börn sín í Ísaksskóla og borguðu þar skólagjöld. Ég minni á að Ísaksskóli er einkaskóli. Við hliðina á Ísaksskóla er rekinn annar skóli, ríkisskóli, mjög sambærilegur skóli og þar þarf ekkert að borga þannig að þarna er ekki hægt að tala um mismunun heldur val.

Það hefur líka verið minnst á það í umræðunni að enn þá hafi þessi svokölluðu skrásetningargjöld, sem voru lögð á í leyfisleysi árið 1991 og hafa verið látin líðast, ekki komið í veg fyrir að fólk færi í háskólanám. Ég held að það hafi á öðrum stöðum, því miður hef ég þær tölur ekki handbærar, einmitt verið sýnt fram á að það hefur komið í veg fyrir að fólk færi í háskólanám. Sá hópur hefur stórminnkað sem stundar háskólanám núna, t.d. einstæðir foreldrar. Það er kannski ekki bara vegna skólagjalda. Það kunna að koma þar til önnur úrræði þjóðarinnar til að hjálpa menntafólki eins og námslán sem hafa verið skert og fólki gert erfiðara fyrir að taka. En það er m.a. þetta og það er ekki nein spurning að það hefur dregið úr því að efnaminna fólk hafi farið í háskólanám á undanförnum árum.