Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 16:07:35 (5386)

1996-04-30 16:07:35# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:07]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór eins og mig grunaði að ekki var rætt sérstaklega um að leggja á skólagjöld í menntmn. Framsfl. á síðasta kjörtímabili og þar kvað við annan tón en núna af hálfu framsóknarmanna sem vaða fram glaðir að leggja skólagjöld á nemendur í framhaldsskólum og háskólum í landinu. Það er auðvitað býsna athyglisvert að nú er það þannig að hæstv. menntmrh. hefur verið fjarverandi alla þá umræðu sem hefur farið fram í dag. Hverjir hafa verið talsmenn ríkisstjórnarinnar í nemendaskattamálunum í dag? Það eru hv. þm. Guðni Ágústsson, hv. þm. Hjálmar Árnason, sem hér er á mælendaskrá, og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Það er bersýnilegt að Framsfl. eða hluti hans gengur mjög fram í því að bera þetta fram með sérstakri ánægju þó að það hafi ekki verið rætt í menntmn. Framsfl. á síðasta kjörtímabili.

Þar hefur væntanlega, hæstv. forseti, líka verið rætt um Lánasjóð ísl. námsmanna eins og kom fram hjá hv. þm. og það gefst væntanlega kostur á því á fimmtudaginn kemur eða svo að fjalla sérstaklega um frv. okkar alþýðubandalagsmanna um að taka upp samtímagreiðslur námslána á nýjan leik sem var mikið stefnumál þeirra framsóknarmanna fyrir síðustu kosningar. Látum á það reyna hvaða skoðun þeir hafa á því máli, hvort þeir hafa í rauninni ákveðið að svíkjast aftan að sjálfum sér í því máli eins og þeir ætla að gera í þessu nemendaskattamáli sem þeir eru að knýja fram í gegnum þingið.