Iðnþróunarsjóður

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 17:21:13 (5402)

1996-04-30 17:21:13# 120. lþ. 128.5 fundur 487. mál: #A Iðnþróunarsjóður# (gildistími o.fl.) frv. 63/1996, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[17:21]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frv. til laga um breytingar á lögum um Iðnþróunarsjóð. Lætur þetta frv. í sjálfu sér ekki mikið yfir sér enda í raun aðeins lítill angi af mun stærra máli sem hér hefur eðlilega verið talsvert rætt í þeim umræðum sem fram hafa farið, þ.e. hvernig hv. þingheimur og framkvæmdarvaldið líta á það hvernig styrkur og stuðningur til nýsköpunar í atvinnulífi gengur fyrir sig. Staðreyndin er auðvitað sú, virðulegur forseti, hvort sem okkur líkar það betur eða verr að almennar yfirlýsingar stjórnmálamanna, gjarnan skömmu fyrir kosningar, um nauðsyn þess að efla nýiðnað, auka vöruþróun og markaðsstarf, koma á þessum eða hinum áhættulánasjóðnum eru oft og tíðum ákaflega innihaldslitlar. Ég held að mörg okkar getum svo sem litið í eigin barm í þeim efnum. Veruleikinn er auðvitað sá þegar atvinnulífið skoðar efndir slíkra vilyrða að minna hefur orðið úr þeim en efni hafa staðið til.

Hér ræðum við um Iðnþróunarsjóð sérstaklega. Ég hef sjálfur nokkra reynslu af samskiptum við þann sjóð, raunar fyrir þá breytingu sem gerð var árið 1995. Ég hygg að ég sé ekki að ljóstra upp neinu viðskiptaleyndarmáli en þar var um að ræða Stálverksmiðjuna í Hafnarfjarðarhrauni þar sem Iðnþróunarsjóður átti hlut að máli. Ég held að það sé ekki fráleitt að sú saga verði sögð í örfáum orðum. Þannig var að langstærstur hluti þeirrar verksmiðju var í eigu sænskra aðila og þeir afskrifuðu hlutafé, einhvers staðar í kringum milljarð króna. Eftir stóðu, nú segi ég þetta án ábyrgðar, virðulegur forseti, þegar upphæðir eru annars vegar, 200--300 millj. kr. sem m.a. Iðnþróunarsjóður var eigandi að. Ég sem bæjarstjóri í Hafnarfirði á þeim tíma vildi gera það sem í mínu valdi stæði til að koma þessari starfsemi í gang á nýjan leik. Ýmsir erlendir aðilar sýndu því raunverulegan áhuga að festa kaup á þessari verksmiðju. Það voru hins vegar aðrir erfiðleikar sem voru með í för tæknilegs eðlis og lutu að raforkusölu sem gerðu það að verkum að það þurfti að gera meira en að kaupa verksmiðjuna, það þurfti líka nýtt fé til að ráðast í tæknilegar breytingar vegna rafmagnssölu og rafmagnskaupa.

Virðulegi forseti. Til að gera langa sögu stutta verð ég að segja að samskipti þeirra lysthafenda sem að málinu komu til að ýta því úr vör hjá Iðnþróunarsjóði, þróunarsjóði iðnaðarins, voru með þeim hætti að þeir erlendu aðilar, þeir lysthafendur sem að málinu komu misstu áhugann fljótlega. Með öðrum orðum vildi þessi sjóður fremur halda sínum eignarhlut í ónothæfu iðnaðarhúsnæði út í Hafnarfjarðarhrauni en að freista þess að koma myndarlega inn í þær ráðstafanir sem til þurfti til að koma verksmiðjunni í gang á nýjan leik og þeirri merkilegu starfsemi sem þar fór nú fram þrátt fyrir allt á sínum tíma.

Ég gæti haft þessa sögu langtum lengri og ítarlegri en ég held að það sé hins vegar alveg nauðsynlegt að við áttum okkur dálítið á bakgrunni þessara mála þegar við erum að hafa hér á tungu orð eins og nauðsyn þess að stofna nýja áhættulánasjóði og styrkja nýjan iðnað og markaðsþróun og hvað það heitir allt saman. Því að sagan segir okkur að því miður hefur það verið þannig í allt of ríkum mæli að þessir svokölluðu iðnaðarsjóðir, ég hef nefnt hér Iðnþróunarsjóð, ég get líka nefnt Iðnlánasjóð, hafa í raun og sanni verið lítið annað en lítil bankaútibú sem hafa undir mörgum kringumstæðum gert mjög svipaðar arðsemiskröfur og hinir venjulegu viðskiptabankar. Þeir hafa heimtað nákvæmlega sömu tryggingar og viðskiptabankarnir. Út af fyrir sig hafa þeir sem þangað hafa sótt fengið svipaðar viðtökur og gerist og gengur í okkar venjubundna bankakerfi í okkar venjubundna umhverfi. Margir hafa komið að máli við mig, einmitt undir þessum kringumstæðum, og sagt sem svo á sama tíma og iðnaður hefur átt í verulegum erfiðleikum, nýsköpun verið í algjöru lágmarki og þróunarstarfsemi sömuleiðis, hafa þeir tveir sjóðir sem ég hef gert að umtalsefni einhverra hluta vegna skilað hámarkshagnaði, hámarksarði. Eigið fé þeirra er umtalsvert og út af fyrir sig ætla ég ekki að hafa við það að athuga að þessir sjóðir eins og aðrir skili góðri afkomu en á það hefur verið bent með vissulega nokkuð réttum rökum að hér á árum áður undraði margan að á sama tíma og iðnaðarfyrirtæki áttu í verulegum erfiðleikum voru þessir svokölluðu stuðningssjóðir iðnaðarins í býsna góðum málum.

Með vísan til forsögunnar, og ég tek fram að ég horfi ekki á þetta mál, þessa forsögu flokkspólitískt, held ég að allir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa og stóðu, geti horft í eigin barm í þeim efnum að stundum hafa þeir sagt meira en þeir hafa getað staðið við og raunveruleikinn verið annar en þeir hafa viljað. Þess vegna fagna ég þeim nýja tóni sem er þrátt fyrir allt að finna í orðræðum, aðgerðum og tilraunum fráfarandi iðnrh. og núv. iðnrh. í þá veru að menn ætli að láta efndir fylgja þessum almennu orðum um raunverulegan stuðning til nýsköpunar. Til þess að gera glöggan greinarmun á þessum venjubundnu lánaviðskiptum viðskiptabanka og aftur sjóðanna til áhættufjárfestinga er það þannig að þetta Íslandsgull, steinsteypan, sem hefur öllu ráðið þegar um lánafyrirgreiðslu hefur verið að ræða af hálfu lánastofnana, er auðvitað ekki það sem öllu máli skiptir þegar kemur að lánafyrirgreiðslu og styrkjum og öðrum stuðningi til atvinnuveganna heldur eru það langtum fleiri þættir sem þar eiga að ráða för og jafnvel oft og tíðum mun veigameiri. Mér finnst kveða við þann rétta anda í þeim athugasemdum sem fylgja þessu litla frv. Þar er eins og hér hefur komið fram í umræðunni vísað til þess og hæstv. ráðherra hefur komið inn á að menn eru að halda áfram því starfi sem lagður var grundvöllur að í tíð fyrri ríkisstjórnar að steypa þessum sjóðum saman og skipa þeim málum með mun heildstæðari og gleggri hætti en verið hefur. Því vil ég sérstaklega fagna. Varðandi þetta frv. út af fyrir sig þá er þar verið að tjalda til einnar nætur og um bráðabirgðaráðstöfun að ræða sem Alþingi ber samkvæmt gildandi lögum að koma að fyrir tiltekinn tíma. Meginmálið er að menn skipi þessum málum með þeim hætti að vit sé í þegar til lengri tíma er litið.

[17:30]

Ég tek hins vegar undir réttmætar ábendingar sem hér hafa komið fram í þessum ræðustóli að iðnn. hv. fái til þess tækifæri að koma að þessu máli í sumar, þ.e. áður en hæstv. ráðherra og ríkisstjórn munu endanlega leggja fram sinn heildarpakka á haustdögum eins og hér er getið um í greinargerð því að ég er handviss um að í þessum efnum er ekki um að ræða djúpstæðan ágreining. Ég held að það væri hyggilegt til þess að ná fram víðtækri sátt og víðtækum stuðningi við það nýja hugarfar sem mér finnst sem betur fer vera að festa rætur í þessum efnum, að stjórnarandstaðan og iðnn. eða annað það form sem hæstv. ráðherra telur heppilegt, komi að málinu áður en það verður alskapað lagt fram í þingsölum á haustdögum. Nú veit ég ekki hver er að vinna þessi mál í ráðuneyti af hálfu hæstv. ráðherra, en ég held að það væri ekki óskynsamlegt að menn kæmu, svona á lokaspretti þeirrar vinnu, að málum eins og ég lýsti hér áðan og að stjórnarandstaðan legði sitt lóð á vogaskálarnar og sitt liðsinni við þá nýhugsun sem ég held og trúi að sé að finna í þeirri stefnumörkun.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég vil hins vegar undirstrika það eitt að þegar við erum að ræða um áhættufjármagn, þá er það auðvitað áhættufjármagn. Menn eiga að ganga að slíku með opin augu, auðvitað ekki að kasta til höndum við undirbúning slíkra lánsumsókna eða styrkumsókna, en engu að síður gera sér grein fyrir því að áhætta er með í för. Þeirri gömlu hugsun um að allt megi tryggja og treysta í steinsteypunni eigum við auðvitað að kasta og láta tilheyra fortíðinni. Menn hafa líka séð það að sú stefnumörkun gengur ekki upp. Miklar afskriftir bankanna á umliðnum árum segja þá sögu alla og við eigum að láta nýtt hugarfar ráða ferðinni. Víðsýni er auðvitað lykilorðið í þessari nýju stefnumörkun. Ég trúi því og treysti og vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra hafi það lykilorð með í för í sínu starfi. Að sumu leyti hefur hann gert það. Ég verð að segja það. Það er langt í frá, virðulegi forseti, að hann sé verstur ráðherra Framsl. án þess að ég ætli að fara að endurtaka þuluna frá fyrr í dag um Framsókn fyrr og nú. Við fengum okkar skammt í morgun og fáum kannski meira þannig að ég ætla að hlífa hv. þingheimi við slíkum orðræðum. Ég vil segja það eitt að ráðherrann er þrátt fyrir allt á réttri leið þótt framsóknarmaður sé, virðulegi forseti.