Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 18:18:11 (5408)

1996-04-30 18:18:11# 120. lþ. 128.7 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, Frsm. 1. minni hluta GGuðbj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[18:18]

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 1. minni hluta allshn. um þetta frv. um tæknifrjóvgun sem birt er á þskj. 824.

Eins og fram kom hjá framsögumanni meiri hlutans þá hefur allshn. rætt málið mjög ítarlega. Mjög margir umsagnaraðilar komu á fund nefndarinnar. Ég ætla ekki að telja þá upp heldur vísa í meirihlutaálitið.

Eins og fram kom hjá mér við 1. umr. fögnum við kvennalistakonur framkomnu frv. um tæknifrjóvgun, enda má rekja tilurð þess til þingsályktunartillögu kvennalistakvenna frá árinu 1989 sem samþykkt var á Alþingi. Ályktunin hljóðaði svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja hið fyrsta fyrir Alþingi frv. til laga um tæknifrjóvganir, m.a. að því er varðar réttarstöðu og tryggingamál þeirra er hlut eiga að máli.``

Án löggjafar hefur tæknisæðing verið framkvæmd hér á landi frá árinu 1980, glasafrjóvgun frá árinu 1991 og árið 1992 voru lögfestar með barnalögunum reglur um faðerni barna sem getin eru með tæknifrjóvgun. Í greinargerð með frv. eru færð rök fyrir því að rétt sé að sett verði lög um tæknifrjóvgun og skýrar línur markaðar um ýmis atriði er varða framkvæmdina sjálfa, skilyrði sem þeir sem fá heimild til meðferðar þurfi að uppfylla, réttarstöðu barns o.fl. Um þetta var nefndin sammála eins og um flest meginatriði frv.

Fyrst og fremst var tekist á um tvö atriði í nefndinni. Annað atriðið varðar það hvort kynfrumugjafi eða kynfrumuþiggjandi geti krafist nafnleyndar og um leið útilokað að það barn, sem verður til, geti fengið vitneskju um líffræðilegan uppruna sinn við 18 ára aldur, eða þegar það verður sjálfráða. Hitt ágreiningsatriðið varðar það hverjir eigi rétt á tæknifrjóvgun, hvort rétt sé að frv. sé fyrst og fremst viðbragð við ófrjósemi og því réttlætanlegt að hvorki sé tekið sérstaklega á stöðu samkynhneigðra né einhleypra kvenna.

Þetta síðara mál var ekki eins mikið rætt í nefndinni, það skal tekið fram, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar undirritaðrar um þetta atriði.

Kvennahreyfingin úti um allan heim hefur fylgst grannt með hvernig mismunandi ríki hafa tekið á þeirri tækni sem gerir tæknifrjóvgun mögulega. Umdeildasta atriðið í þessu sambandi er svokölluð staðgöngumæðrun sem samkvæmt þessu frv. er óheimil. Staðgöngumæðrun, sem skilgreind er í 1. gr. frv., vekur upp mjög margar siðfræðilegar og lagalegar spurningar, m.a. um það hver teljist vera móðir viðkomandi barns. Ef til koma greiðslur í slíkum tilvikum er rætt um leigumæðrun sem að mati 1. minni hluta er eitt svívirðilegasta birtingarform kvennakúgunar sem hægt er að hugsa sér. Því ber að fagna því sérstaklega að ekki kom til tals að heimila staðgöngumæðrun við þessa lagasetningu. Að öðru leyti vil ég nota tækifærið og benda á tvö kvennapólitísk meginsjónarmið:

Annað sjónarmiðið er að með því að gera tæknifrjóvgun aðgengilega vaxi oft þrýstingur á barnlaust fólk að eignast börn og því sé erfiðara en ella að velja eða sætta sig við barnleysi. Því eyði margir dýrmætum tíma og fjármunum í aðgerðir sem oft bera ekki árangur og vonbrigðin vegna barnleysis verði sárari en ella. Því er mælt með að við ráðgjöf sé ávallt athugað að allir aðilar, sem æskja tæknifrjóvgunar, geri það óþvingaðir; að sjálfræði einstaklinganna sé virt.

Það má benda á að þessi ábending kom fram hjá nokkrum umsagnaraðilum.

Hitt sjónarmiðið er að þessa nýju tækni beri að nota til þess að gera sem flestum sem þess óska mögulegt að eignast börn. Í því samhengi er ófullnægjandi að líta á tæknifrjóvgun eingöngu sem viðbragð við læknisfræðilegri ófrjósemi því að það útilokar að tekið sé á ófrjósemi einhleypra kvenna og samkynhneigðra kvenna.

Í þriðja lagi má benda á að þótt ákveðin kvenfrelsisrök mæli með því að sem flestir fái aðgang að tæknisæðingu eða glasafrjóvgun geti þessi réttur kvenna eða foreldra varla talist æðri en sú skoðun að þessi börn hafi eins og önnur börn þörf fyrir og rétt á að fá að vita um líffræðilegan uppruna sinn og rétt á þroskavænlegum uppeldisskilyrðum. Þó að hvorki barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna né mannréttindasáttmáli Evrópu verði túlkaðir þannig að barnið eigi skýlausan rétt á að vita um uppruna sinn er ljóst að a.m.k. í þeim síðarnefnda hefur þessari kröfu ekki verið hafnað. Í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands er bent á að frá 1987 hafi átt sér stað ákveðin réttarþróun á túlkun mannréttindasamnings Evrópu um skyldu stjórnvalda til að veita barni upplýsingar um líffræðilegan uppruna sinn.

Í ljósi þessara meginviðhorfa sótti 1. minni hluti mjög fast að 4. gr. frv. yrði breytt í þá veru að nafnleynd verði aflétt til að þau börn, sem verða til við tæknifrjóvgun geti fengið upplýsingar um líffræðilegan uppruna sinn við 18 ára aldur. Helstu mótrökin sem fram komu gegn því að heimila tæknifrjóvganir eingöngu ef nafnleynd er aflétt, voru þau að erfitt yrði að fá kynfrumur, einkum sæði, ef nafnleynd yrði aflétt. Í nefndinni náðist fram málamiðlun sem birtist í breytingartillögum meiri hlutans. 1. minni hluti getur sætt sig efnislega við þá málamiðlun í ljósi aðstæðna þó að æskilegra væri að aflétta nafnleynd alfarið ef það væri hægt án þess að tæknifrjóvganir legðust af eða yrðu mun erfiðari í reynd. Orðalagið á breytingartillögu meiri hlutans miðast of mikið við gjafa kynfrumna í stað þiggjanda sem að mati 1. minni hluta á að vera sá sem ákveður hvort hann velur nafnleynd eftir faglega ráðgjöf.

Í reynd er þetta bara spurningin um hvort það er skipt við sæðisbanka frá Svíþjóð þar sem nafnleynd er ekki eða í Danmörku sem við höfum mest skipt við þar sem nafnleynd ríkir. Ég tel því að það sé fyrst og fremst þiggjandinn sem þarf að ákveða hvort hann vill nafnleynd eða ekki og þess vegna sé eðlilegra að miða orðalag breytingartillögunnar við þiggjandann fremur en gefandann.

Fyrsti minni hluti leggur því til breytingu á 4. gr. þar sem uppröðun efnisgreina og orðalag breytir áherslum þannig að fyrst er rætt um þau tilvik þar sem nafnleynd er aflétt og lögð áhersla á að það er val kynfrumuþiggjandans sem ræður úrslitum um það hvort reynt verður að fá kynfrumur frá gjafa sem er tilbúinn að aflétta nafnleynd. Þessi lausn er að því leyti ófullnægjandi að það eru væntanlegir foreldrar sem hafa valið um það hvort barnið getur fengið upplýsingar um líffræðilegan uppruna sinn við 18 ára aldur, í stað þess að það verði opið val fyrir öll börn sem fæðast vegna tæknifrjóvgunar. Hin leiðin er að útiloka alfarið tæknifrjóvganir með nafnleynd. Ef fram kemur breytingartillaga í þá veru munu þingkonur Kvennalistans taka sjálfstæða afstöðu til hennar sem einstaklingar.

(Forseti (GÁ): Ef forseti má aðeins trufla hv. þm. í ræðu sinni þá stóð til að fresta þessum fundi um klukkan hálfsjö. Forseti freistar þess enn að ná hér fram atkvæðagreiðslu um breytingartillögur sem eru of seint fram komnar. Ef þingmenn sem eru á skrifstofum heyra mál forseta þá komi þeir í húsið því enn vantar tvo menn til þess að atkvæðagreiðslan geti farið fram.

Forseti vill líka spyrja hv. þm. hvort hún vilji halda áfram, hvort hún eigi mikið eftir af ræðu sinni eða hvort hún vilji fresta henni þar til síðar?)

Já, ég á dálítið eftir af minni ræðu.

(Forseti (GÁ): Já, þá fer það nú svo á eftir að hv. þm. verður að fresta ræðu sinni. En meðan beðið er nokkurra þingmanna í viðbót þá biður forseti hv. þm. um að halda ræðu sinni áfram.)

Herra forseti. Ég veit ekki hvort þetta er eðlileg fundarstjórn eða ekki en mér finnst þetta mjög skrítin fundarstjórn verð ég að segja. En ég skal verða við beiðni forseta og halda áfram ræðu minni og vonast til að geta klárað hana áður en til atkvæðagreiðslu kemur.

Ég vil halda áfram að lýsa í hverju ágreiningur minn við meiri hluta nefndarinnar felst. Ég er komin þar í nefndarálitinu sem ég er að gera grein fyrir hér, þar sem kemur að því að meginágreiningur 1. minni hluta og meiri hlutans varðar það hverjir eigi möguleika eða rétt á að fá tæknifrjóvgun og það hvort frv. sé fyrst og fremst viðbragð við ófrjósemi og því réttlætanlegt að hvorki sé tekið sérstaklega á stöðu samkynhneigðra né einhleypra kvenna. 1. minni hluti telur óhjákvæmilegt að taka á þessu máli í heild sinni í löggjöf af þessu tagi og því þurfi að rökstyðja gaumgæfilega og mun betur en gert er í greinargerðinni hvers vegna samkynhneigðir og einhleypar konur fá eða fá ekki aðgang að tæknifrjóvgun. Annað geti verið brot á jafnræðisreglu.

Með breytingartillögum á þingskjali 826 við 3. svo og 5. og 6. gr. frv. ...


[18:30]