Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 20:32:19 (5410)

1996-04-30 20:32:19# 120. lþ. 128.7 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, Frsm. 1. minni hluta GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[20:32]

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Guðný Guðbjörnsdóttir) (frh.):

Herra forseti. Ég mun þá halda áfram með ræðu mína. Ég hef velt því fyrir mér hvort ég eigi að hefja hana að nýju þar sem búið er að stoppa mig tvisvar eða þrisvar sinnum í henni miðri. En ég held nú að ég sleppi því að sinni ef ég má byrja a.m.k. á heillegri setningu.

(Forseti (ÓE): Forseti kann að meta það.)

(Gripið fram í: Byrjaðu bara á ræðunni Guðný. Það er nógur tími.) Ég er að gera grein fyrir nefndaráliti 1. minni hluta allshn. Og mun nú halda áfram þar sem frá var horfið.

Meginágreiningur 1. minni hluta og meiri hlutans varðar það hverjir eigi möguleika eða rétt á að fá tæknifrjóvgun og það hvort frv. sé fyrst og fremst viðbragð við ófrjósemi og því réttlætanlegt að hvorki sé tekið sérstaklega á stöðu samkynhneigðra né einhleypra kvenna. 1. minni hluti telur óhjákvæmilegt að taka á þessu máli í heild sinni í löggjöf af þessu tagi og því þurfi að rökstyðja gaumgæfilega og mun betur en gert er í greinargerðinni hvers vegna samkynhneigðir og einhleypar konur fá eða fá ekki aðgang að tæknifrjóvgun. Annað geti verið brot á jafnræðisreglu.

Með breytingartillögum sem að ég flyt á þingskjali 826 við 3. og 5. og 6. gr. frv. er mælt með því að tekið verði út það skilyrði a-liðar 3. gr. að tæknifrjóvgun sé takmörkuð við pör sem hafi búið saman í þrjú ár. Aðrar breytingartillögur eru tæknilegar orðalagsbreytingar vegna breytingar á a-lið 3. gr.

Rökstuðningur fyrir þessari afstöðu kom fram í ýmsum umsögnum um frv. en meiri hlutinn virtist ekki tilbúinn að ræða þessi rök til hlítar. Við 1. umr. um frv. benti undirrituð á að það kæmi kannski ekki á óvart miðað við þá hefðbundnu skoðun að börn eigi bæði föður og móður að einhleypum konum væri ekki heimilt að fá tæknifrjóvgun samkvæmt frv. Í reynd væru þó einstæðar mæður á Íslandi ekki skyldugar til að feðra börn sín. Því væri ekki sjálfgefið að hafa þennan hátt á og það þyrfti að athuga gaumgæfilega í nefndinni. Það að neita einhleypum konum um tæknifrjóvgun mætti einnig skoða sem mismunun gagnvart samkynhneigðum konum og enn eitt dæmið um skerta réttarstöðu þeirra. Þessi sjónarmið eru rökstudd mun ítarlegar í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands og í siðferðilegri álitsgerð um frv. sem unnin var af Maríu Sigurjónsdóttur, lækni og heimspekingi, fyrir framkvæmdastjórn Ríkisspítala.

Í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands segir að af greinargerð frv., með leyfi forseta: ,,... mætti ætla að það teldist andstætt viðurkenndum siðferðisreglum í íslensku samfélagi að heimila öðrum en konum í óvígðri sambúð eða hjúskap að njóta tæknifrjóvgunar og að barni verði ekki tryggð þroskavænleg skilyrði nema það alist upp með karli og konu sem eru samvistum. Þessar gefnu forsendur eru ekki rökstuddar og ástæða er til að setja spurningarmerki við gildi þeirra.`` Þá er bent á að engin trygging er fyrir varanleika sambúðar þó að hún hafi varað í þrjú ár og að rannsóknir bendi ótvírætt til að börn séu betur komin hjá umhyggjusömum einstæðum foreldrum en í slæmri sambúð. Þá er spurt, ef litið er á ófrjósemi sem sjúkdóm eins og frv. virðist gera, hvernig það megi vera að einn sjúklingur geti fengið lækningu en annar ekki, þ.e. einhleyp ófrjósöm kona. Tekið er undir eftirfarandi niðurstöðu í sömu umsögn, með leyfi forseta: ,,Það er engan veginn augljóst að útiloka eigi rétt einhleypra kvenna til tæknifrjóvgunar með öllu eins og gert er í frv. Margvísleg rök hníga að því að einnig þær skuli eiga þessa kost að vissum skilyrðum uppfylltum.``

Með hliðsjón af fyrirhugaðri lagasetningu um staðfesta sambúð samkynhneigðra leggur Mannréttindaskrifstofa Íslands til að íhugað verði að breyta frv. þannig að það nái einnig til samkynhneigðra kvenna í varanlegri sambúð.

Þá vil ég vitna beint í álit Mannréttindaskrifstofunnar, með leyfi forseta:

,,Með því móti er jafnræði með þeim sem líkt er ástatt um og tekið fullt tillit til stjórnarskrárbundins jafnræðis borgaranna án tillits til kynhneigðar.``

Við þetta vill 1. minni hluti bæta að fjölmargar rannsóknir benda til að samkynhneigðir foreldrar séu alls ekki síðri uppalendur en aðrir foreldrar.

Í álitsgerðinni frá framkvæmdastjórn Ríkisspítala er svipuð afstaða tekin til a-liðar 3. gr. frv. og stöðu einhleypra kvenna og samkynhneigðra gagnvart tæknifrjóvgun:

Þá vil ég bitna beint í það álit, með leyfi forseta:

,,Raunverulega tel ég að aðalatriðið í sambandi við tæknifrjóvgun sé að reyna að tryggja að væntanlegir foreldrar séu hæfir foreldrar og ráði við það hlutverk tilfinningalega. Hvað varðar hæfi þá tel ég að kynhneigð foreldris skipti ekki máli fyrir hæfi þeirra sem foreldris. Reynsla, sem komin er af einstæðum foreldrum, bendir ekki til þess að þeir séu vanhæfari en tveir foreldrar til að ala upp börn sín þó svo að vissulega mætti gera betri rannsóknir á þessu. Þess vegna dreg ég í efa [þ.e. María Sigurjónsdóttir sem skrifar álitið] að ákvæði frv. hvað varðar samkynhneigðar og einstæðar konur séu réttmæt þó svo að ég bendi líka á nauðsyn rannsókna.``

Með þeim breytingartillögum sem 1. minni hluti leggur til á þingskjali 826 er opnað fyrir möguleika fleiri til að fá tæknifrjóvgun, m.a. einhleypra kvenna og samkynhneigðra, svo framarlega sem skilyrðum b-, c- og d-liðar 3. gr. er fullnægt. Það er að segja, mælt er með því að væntanlegir foreldrar þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt þessum breytingartillögum sem 1. minni hluti leggur til en ekki aðeins pör sem hafa verið þrjú ár í sambúð. Í því sambandi er það oft staðreynd að barn, sem á eitt foreldri, hefur óöruggara tengslanet en það sem á tvo, en svo þarf alls ekki að vera. Því er áhersla lögð á að þrátt fyrir þá opnun, sem hér er lögð til með breytingu á a-lið 3. gr., hljóta hagsmunir barnsins að vega þyngst ef hagsmunir stangast á. Að öðru leyti styður 1. minni hluti breytingartillögu meiri hlutans við 2. gr., þ.e. að boðið verði upp á ráðgjöf, svo og breytingartillögur við 11., 13., 14. og 15. gr. frv.

Undir þetta álit 1. minni hluta skrifar Guðný Guðbjörnsdóttir.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir þessu nefndaráliti. En ég vil ítreka að þetta mál var mjög ítarlega rætt í allshn. og allir voru nefndarmenn sammála um að hér er um afar viðkvæmt en mikilvægt mál að ræða. Það sýnir mjög vel hvaða möguleika nútímatækni er að opna, en um leið hvað þessi tækni vekur margar siðferðilegar spurningar, spurningar sem orka mjög tvímælis. Þó að málið hafi verið rætt svona ítarlega þá náðist ekki eining um þessi atriði fyrst og fremst, þ.e. hverjir fái aðgang að tæknifrjóvgun og hvort nafnleynd skuli viðhöfð eða ekki.

Tæknifrjóvgun eins og ég sagði í upphafi er nú mjög mikið í umræðunni í flestum nágrannalanda okkar á vettvangi dómstóla, í kvennahreyfingum og á löggjafarsamkundum. Umræðan virðist vera að færast í þá átt að það sé meira og meira horft á réttindi barnanna sem verða til og þeirra hugmynda að þau eigi rétt á að vita um uppruna sinn eins og aðrir einstaklingar. Það er von mín að sú verði einnig þróunin hér á landi með þessari löggjöf. Það er reyndar bara opnað á þann möguleika að nafnleynd verði aflétt en það er vonandi aðeins skref í áttina. Hins vegar held ég að það sé líka mjög mikilvægt að þjóðfélagið viðurkenni að í reynd þá er hefðbundna kjarnafjölskyldan, par og börn, ekki eina fjölskyldugerðin sem er til. Í reynd eru til fjölskyldur kvenna með eða án barna og það er að mínu mati alls ekki réttlátt að útiloka þessar fjölskyldur frá tæknifrjóvgun eingöngu vegna þess að þær hafa ekki verið í sambúð í þrjú ár. Frv. eins og það er núna endurspeglar hefðbundin gildi í samfélaginu en veruleikinn er allur annar. Það er mín trú að þessi sjónarmið eigi eftir að breytast, það sé bara spurning um tíma hvenær það gerist. Þess vegna legg ég fram þá breytingartillögu að tæknifrjóvgun verði ekki bundin við gift pör eða þau sem eru í sambúð, þó ég búist ekki við því að sú tillaga verði samþykkt á þessari stundu.