Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 21:38:37 (5414)

1996-04-30 21:38:37# 120. lþ. 128.7 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[21:38]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt eins og kom fram hjá hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur, að það voru mjög skiptar skoðanir um nafnleyndina í heilbrn. Við veltum því fyrir okkur hvort við ættum að hafa meirihlutaálit og minnihlutaálit í nefndinni en ákváðum að gera það ekki þar sem farið yrði mjög ítarlega yfir málið í allshn. Hins vegar fannst okkur það til bóta að það kæmi fram í nefndarálitinu að það væru skiptar skoðanir og það væri skárra að hafa ákvæði um val eins og meiri hluti allshn. gerði tillögu um en hafa algera nafnleynd. En ég vil bara ítreka það að eftir því sem ég hugsa þetta mál betur, þeim mun ákveðnari verð ég í þeirri afstöðu að nafnleyndin eigi ekki að ríkja. Ég var síðast í dag að tala við Þórhildi Líndal, umboðsmann barna, sem stappaði enn þá meira í mig stálinu um að það ætti að virða þann rétt barna að þau eigi að geta haft upp á sínu líffræðilega foreldri.

Við vitum um samtök stríðsbarna á Íslandi. Af hverju eru þau að leita að sínum líffræðilegu foreldrum? Af hverju? Af því að þau hafa að sjálfsögðu ríka þörf fyrir það. Þau vilja vita hvert sitt líffræðilega foreldri er. Þurfum við fleiri sannanir fyrir því að fólk vill hafa þennan rétt?