Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 21:51:07 (5426)

1996-04-30 21:51:07# 120. lþ. 128.7 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[21:51]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta stangast greinilega á við þær upplýsingar sem ég hef varðandi athugasemdina til norskra stjórnvalda en ég vil ítreka að við getum ekki lögfest nafnleyndina. Það eru mannréttindi hvers og eins að fá upplýsingar um líffræðilegan uppruna ef hann er tiltækur og þó svo, eins og fram kom í máli hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur, að konum sé ekki skylt að gefa upp rétt faðerni, þó svo að eiginmenn eigi ekki börnin þeirra, getum við ekki sett það í ný lög á Íslandi 1996 um tæknifrjóvgun að það sé ekki heimilt að gefa upp raunverulegan líffræðilegan föður. Ég tek undir að tillaga meiri hluta hv. allshn. er spor í rétta átt en það er ekki hægt að gera málamiðlun um mannréttindi. Þess vegna get ég ekki samþykkt þessa brtt. og styð minni hluta tillögur hv. þm. Hjálmars Jónssonar.