Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 22:32:38 (5429)

1996-04-30 22:32:38# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[22:32]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það virkar satt að segja dálítið ruglandi að hlusta á hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson ræða þetta mál. Í hans ráðherratíð var ekki alltaf þægilegt að tala um aukið frjálsræði í fjárfestingum í sjávarútvegi. Meðal annars vek ég athygli á því að á árinu 1991 stóð hann að miklum breytingum á þessum heimildum sem takmarkaði þá 70 ára gamla heimild til þess að fjárfesta í útgerð þar sem erlendir aðilar máttu eiga allt að helmingi í útgerð. Það var tekið til baka í hans ráðherratíð.

Mig langar til að spyrja hvort hv. þm. telur það forsendu fyrir því að leyfa erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi að það sé komið á veiðileyfagjaldi. Mér heyrðist það hálfpartinn á hv. þm. Ég velti því líka fyrir mér hvort það virki yfirleitt hvetjandi á erlendar fjárfestingar að hóta því að koma þeim í uppnám með því að leggja veiðileyfagjald á sjávarútveginn. Ég hygg raunar að allt þetta tal um veiðileyfagjald hjá hv. þm. og öðrum sem eru hans skoðunar sé einmitt til þess fallið að draga úr því að erlendir aðilar vilji festa fé í íslenskum sjávarútvegi.