Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 22:41:22 (5435)

1996-04-30 22:41:22# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, KPál
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[22:41]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Frumvarp það sem hér er til 2. umræðu um erlenda fjárfestingu vil ég ræða út frá þeim lið sem snýr að eignarhaldi í sjávarútvegi og fjárfestingu af þeim þætti frv. Fjárfesting erlendra aðila á Íslandi hefur eins og allir hér inni þekkja verið ákaflega viðkvæmt mál hjá íslensku þjóðinni. Hér hefur ríkt mikil tortryggni í garð útlendinga þegar kemur að eignarhaldi í þessari höfuðatvinnugrein okkar. Ég tel því að varkárni við að rýmka regur um erlenda fjárfestingu sé nauðsynleg og því eðlilegt að taka þau skref sem við ætlum okkur að stíga að vel athuguðu máli.

Undirritaður lagði ásamt þremur öðrum þingmönnum Sjálfstfl., þeim hv. þm. Pétri Blöndal, Vilhjálmi Egilssyni og Guðjóni Guðmundssyni, fram fyrir páska frv. samhliða frv. sem hæstv. iðnrh. lagði fram og frv. tveggja hv. þm. Þjóðvaka þar sem við lögðum til að heimila 49% beina eignaraðild erlendra aðila í sjávarútvegi. Þetta frv. var því til umræðu um leið og hin en á þeim tveim frumvörpum sem kannski skarast mest, þ.e. frv. okkar fjögurra þingmanna Sjálfstfl. og hæstv. iðnrh., er í mínum huga verulegur munur og nokkuð flókið að útskýra það svo vel fari.

Mig langar aðeins til að rifja upp þegar verið er að tala um erlenda fjárfestingu hver reynsla okkar er af fjárfestingum erlendra aðila í sjávarútvegi á þeim 69 árum sem hún hefur verið heimil samkvæmt lögum nr. 33/1922, en þá var erlendum aðilum heimilað að fjárfesta 49,9% beint í útgerðarfyrirtækjum. Um leið var reyndar óheimilt að fjárfesta í öllum öðrum hugsanlegum atvinnurekstri á landinu. Þessi lög voru í gildi til ársins 1991 eða í 69 ár. Þá tóku ný lög gildi þar sem öll fjárfesting erlendra aðila í sjávarútvegi var bönnuð. Lögin frá 1991 heimiluðu aftur á móti fjárfestingu erlendra aðila á EES-svæðinu í öðrum fyrirtækjum með ákveðnum takmörkunum þó eins og komið hefur fram í orkufyrirtækjum og flugi. Ástæðan fyrir þeirri breytingu að banna fjárfestingu í sjávarútvegi hefur lítið verið rökstudd að mínu mati. Enda ekkert í fortíðinni sem benti til þess að erlend áhrif í íslenskri útgerð yrðu yfirgnæfandi þó heimildir til hennar hefðu verið fyrir hendi allan þennan tíma.

Sannleikurinn er sá að útlendingar hafa yfirleitt sýnt lítinn áhuga á því að fjárfesta á Íslandi nema með sérkjörum, samanber áliðnað. Það er sérstakt rannsóknarefni hvers vegna útlendingar vildu ekki fjárfesta í útgerð í þau tæp 70 ár sem það var heimilt. Það má gera ráð fyrir því að ein ástæðan sé að verulegu leyti að hlutur útgerðarinnar var í eigu fiskvinnslunnar og hún rekin með miklu tapi þar til í upphafi þessa áratugar. Einnig hefur óðaverðbólga og gengisfellingar sligað útgerðina í áratugi og gert þennan fjárfestingarkost lítt eftirsóknarverðan.

Með EES-samningnum voru ýmsir sem töldu að erlend fjárfesting og áhrif hennar yrðu stórlega meiri og vegna þessa var settur þröskuldur í lagasetningu 1991 þannig að ef erlendur aðili óskaði eftir 250 millj. kr. fjárfestingu í íslensku fyrirtæki eða meira þurfti sérstakt leyfi ráðherra. Hver hefur svo raunin orðið að þessu leyti? Hafa erlendir aðilar streymt hingað með fjármagn til þess að fjárfesta í skjóli þessara laga? Nei, svo er ekki. Erlend fjárfesting var árin 1993--1995 eftirfarandi miðað við landsframleiðslu: Á Íslandi 0,1%, á Norðurlöndunum 1% og í OECD-ríkjunum 1,5--2% samkvæmt upplýsingum hæstv. iðnrh. á Alþingi nýlega. Það verður að vísu tímabundin aukning í ár hér á landi vegna mjög sérhæfðra framkvæmda hjá Ísal. En að undanskildum fjárfestingum í áliðnaði eru mjög litlar fjárfestingar í framtíðinni að því er séð verður.

Í erlendum samanburði eru Íslendingar frekar aftarlega á merinni hvað opin viðskipti varðar. Það hefur að mínu mati leitt til þess að við höfum dregist aftur úr öðrum þjóðum í útflutningi miðað við verga landsframleiðslu. Árið 1960 voru Íslendingar í þriðja sæti af OECD-ríkjunum hvað þetta varðar en 1993 vorum við í 10. sæti. Varðandi samkeppnisstöðu erum við í 18. sæti miðað við sömu ríki.

[22:45]

Það má einnig benda á að framleiðni íslenskra fyrirtækja er með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Reynsla okkar af þátttöku erlendra aðila í atvinnurekstri er góð en hún er víða í okkar þjóðfélagi þó í smáum stíl sé. Má þar nefna sjónvarpsrekstur, olíufélög og víðar svo að eitthvað sé nefnt. Í stóriðjurekstri er hún mikil eins og þekkt er. Fjárfesting Íslendinga erlendis hefur skilað góðum árangri og ber þar hæst starfsemi fisksölufyrirtækjanna í Bandaríkjunum og Evrópu. Af nýjum fjárfestingum Íslendinga erlendis má nefna kaup Samherja og ÚA í þýskum útgerðum. Allt bendir því til þess að fjárfesting erlendra aðila á Íslandi sé ekki hættuleg heldur eftirsóknarverð á sama hátt og fjárfesting okkar erlendis hefur verið farsæl fyrir íslenskt þjóðarbú.

Það er grundvallarmunur í mínum huga á beinni og óbeinni fjárfestingu. Í öðru tilfellinu, þ.e. óbeinni fjárfestingu, er oftast um fjárfestingu að ræða sem þvælist með kaupum aðila í öðrum fyrirtækjum og skapar því óvissu hjá þeim fyrirtækjum sem eru hálfgerður bastarður í kaupunum. Bein fjárfesting er aftur á móti gagngert til þess að taka þátt í viðkomandi starfsemi.

Ef skoðaðir eru fleiri ólíkir þættir þessara tveggja aðferða, þá getur óbein fjárfesting leitt til óeðlilegra fjárfestingarleiða sem gætu lýst sér þannig að erlendur aðili á EES-svæðinu kaupir íslenskt byggingarfyrirtæki. Byggingarfyrirtækið kaupir 49% í íslenskri matvöruverslun sem kaupir síðan 100% í stóru útgerðarfyrirtæki. Það væri óbein erlend eignaraðild upp á 49% í sjávarútvegsfyrirtækinu. Hvar lægju hagsmunir þessa erlenda aðila helst í þessari fyrirtækjakeðju? Að mínu mati liggja hagsmunir hans í fyrirtækinu sem þeir eiga 100% sjálfir, þ.e. í byggingarfyrirtækinu. Tilhneigingin yrði því sú að hagnaður safnaðist frekar fyrir í fyrirtæki í þriðja lið keðjunnar og rýrði þar með afkomumöguleika sjávarútvegsins. Með enn annarri flækju getur óbein fjárfesting orðið allt að 62%.

Annar ókostur óbeinnar aðildar er sá að erlendir aðilar sjá þetta hvorki sem fjárfestingartækifæri né hagkvæman kost vegna tæknihindrana. Þeir fjárfesta því síður í þessari atvinnugrein. Eftirlit með slíkri fjárfestingu er einnig mjög erfitt eins og dæmi sanna og eru kaup Texaco á 33% hlut í Olís þar ofarlega í huga, en Olís er eigandi í mörgum útgerðarfélögum. Sú eignaraðild varð til þótt erlend fjárfesting væri óheimil með öllu í sjávarútvegi á Íslandi og er enn samkvæmt lögunum frá 1991.

Kostir beinnar eignaraðildar umfram óbeina eru aftur á móti þeir að eftirlit með henni er mjög auðvelt í framkvæmd, möguleikar á áhættufé verða fleiri og auðveldara er fyrir hagsmunaaðila að fylgjast með fjárfestingunni og bein markaðssamtenging verður meiri. Það verður einnig um aðgang að ýmsum tækninýjungum erlendis frá. Ótti manna við að erlendir aðilar eignist kvótann ef tillaga okkar fjórmenninganna nær fram að ganga er ástæðulaus því að það eru aðeins íslensk fyrirtæki sem mega veiða við Íslandsstrendur og samkvæmt tillögu okkar fjórmenninga verður fyrirtækið að vera í meirihlutaeigu Íslendinga. Að heimila 100% eignaraðild erlendra aðila í fiskvinnslunni er að mínu mati óraunhæft þar sem vinnslan og útgerðin eru nánast eitt og sama fyrirtækið og hugmyndin því marklaus. Þar er einnig um að ræða þann hluta sjávarútvegsins sem verst stendur í dag og því óneitanlega í anda þeirra sem vilja enga fjárfestingu bjóða erlendum aðilum. Að binda í stjórnarskrá að fiskstofnarnir við strendur landsins séu sameign þjóðarinnar er sjálfsagt. Slík ákvæði eru í lögum um stjórn fiskveiða. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur sl. fimm ár unnið markvisst að því að skapa stöðugleika í efnahagslífinu, lækka verðbólgu og vexti. Allt þetta hefur tekist með ágætum eins og öllum er kunnugt og samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja því orðin góð. Erlend fjárfesting er því orðin mun raunhæfari möguleiki en nokkru sinni fyrr.

Flestar þjóðir leggja mikið á sig til þess að laða til sín erlenda fjárfestingu og áhættufjármagn og það verðum við að gera einnig. Því tel ég að við verðum að ganga ákveðnari skref að þessu leyti í sjávarútveginum en gert er ráð fyrir í frv. viðskrh. Fjárfesting erlendra aðila í þessum mikilvægasta atvinnuvegi þjóðarinnar má ekki verða tilviljunarkennd og ómarkviss.

Ég verð því í framhaldi af þessu að lýsa yfir vonbrigðum mínum með þá niðurstöðu sem meiri hluti efh.- og viðskn. komst að í áliti sínu. Þar eru engar raunverulegar breytingar á ferðinni nema að ríkjandi ástandi í erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi er mætt óbeint. Það felst því engin stefna eða framtíðarsýn í þeim tillögum, þ.e. hvernig við viljum þróa erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi og aðlaga hann að samstarfi við markaðssjónarmið í hinum vestræna heimi frjálsra viðskipta. Sjónarmið okkar fjórmenninganna hafa því ekki fengið nægilegan hljómgrunn að mínu mati í meiri hluta nefndarinnar. Ég lýsi vonbrigðum mínum með það þó ég viðurkenni að þar eru stigin ákveðin skref sem nauðsynlegt var að fara og að því leytinu til hafi verið stigin hálfgerð hænufet eða kjúklingafet til leiðréttingar. Af þeim ástæðum mun ég samþykkja frv. ríkisstjórnarinnar eins og ég hef lýst yfir áður í þessum umræðum. En ég mun um leið og vil í þessari umræðu lýsa því yfir að þeim afskiptum mínum að koma á beinni fjárfestingu í sjávarútvegi er ekki lokið og mun ég síðar á hinu háa Alþingi flytja þetta mál að nýju ef ekki verða komnar einhverjar verulegar breytingar af hálfu ríkisvaldsins við þau lög sem nú eru til umræðu.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hafði mörg orð um frv. okkar fjórmenninganna og taldi að þar hefði lítið farið fyrir okkar málflutningi og við hefðum farið mikla sneypuför. Ég held að það verði að segjast um alla umræðu um erlenda fjárfestingu á Íslandi í gegnum árin og aðild útlendinga að fyrirtækjum hverju nafni sem þau nefnast, hefur verið erfið, tekið langan tíma og eins og fram hefur komið í umræðunni áður, að það þarf að aðlaga þjóðarsálina að ákveðnum staðreyndum, ákveðnum breytingum. Það er sálfræði sem reyndir stjórnmálamenn eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson þekkja. Ég lít svo á að sú umræða sem okkar tillaga fékk um breytingar á lögum hafi verið mjög af hinu góða og hafi leitt þessa umræðu inn á aðra braut. Ég varð var við að alþýðuflokksmenn urðu hálf pirraðir yfr þessari tillögu og komu þeir reyndar strax á eftir með tillögu um það að leyfa 100% erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi. Það sýndi mér fyrst og fremst það að þeir höfðu hugsað sér að leggja fram einhverja álíka tillögu og við en voru teknir í rúminu. (JBH: Hvaða tillögu ætlar hv. þm. að styðja?) Þú hefur ekki fylgst með, hv. þm., því sem ég hef verið að segja. Ég bara bið þig um að lesa það þegar það kemur ...

(Forseti (StB): Ávarpa ekki hv. þm. í annarri persónu.)

... úr vélritun hvað ég sagði í þessum efnum. Það eru margar tillögur lagðar fram í þessu þingi sem ekki fá afgreiðslu en fá umræðu eigi að síður. Ég veit um þingmenn í mínum flokki og fleirum sem endurflytja tillögur þing eftir þing og gefast aldrei upp. Ég tel mig vera einn af þeim þingmönnum sem gefast ekki upp og mun halda áfram að flytja þau mál sem ég tel vera til framfara fyrir þjóðina eins oft og þarf.

Það er nefnilega til gott og gilt hugtak í íslenskri þjóðarsál sem er þrautseigja. Ég vona að hún svíki mig ekki og ég vona að hún svíki ekki aðra þingmenn í þessu mikilvæga máli. Ég ætla bara aðeins að minna á eina góða vísu sem er í Hávamálum:

  • Haltur ríður hrossi,
  • hjörð rekur handarvanur,
  • daufur vegur og dugir.
  • Ég held að við dugum.