Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 23:03:24 (5439)

1996-04-30 23:03:24# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[23:03]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ekki ráð fyrir því að ég gleymi því að hafa flutt þessa tillögu og kæri mig ekkert um það. Eins og ég hef sagt áður þá lýsti ég því yfir við 1. umr. að ég mundi styðja tillögu ríkisstjórnarinnar og við það mun ég standa. Ég get svo aftur á móti sagt hv. þm. að ég ræddi þetta mál við formann efh.- og viðskn. og hann upplýsti mig um að í sumar og fyrir næsta þing verður unnið áfram í málinu. Hvernig því mun lykta ætla ég ekkert að fullyrða sérstaklega um hér enda veit ég ekki nákvæmlega um það en um það hefur verið sérstaklega rætt. Ég held að við ættum að spyrja hv. þm. Ágúst Einarsson að leikslokum. Ég get alveg sagt að ég met málflutning hv. þm. yfirleitt mikils og tel að þar fari maður sem hafi oftast vit á því málefni sem hann er að ræða um. Ég tel mig einnig hafa þó nokkra reynslu í sjávarútvegsmálum og ætla ekki að taka til mín einhverja sleggjudóma um þær hugmyndir sem ég kem með að þær megi ekki geymast í minningu þingsins og vísa því til föðurhúsanna sem pirringsumræðu sem sæmir ekki hv. þm.