Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 23:53:30 (5448)

1996-04-30 23:53:30# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[23:53]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Mismunun? Væri það mismunun gagnvart sjávarútvegi í þessu tilviki að ætlast til þess að útgerðarfyrirtækin greiddu fyrir aðgang að þeirri auðlind sem öðrum er synjað um og ríkisvaldið hefur tekið að sér að skammta? Hvaða aðrar sambærilegar atvinnugreinar eru það sem ríkisvaldið hefur ákveðið að skammta aðganginn að auðlindinni, þ.e. að útiloka aðila frá aðgangi að hráefninu? Það vill svo til að það er ríkisvaldið sem hefur skammtað þennan aðgang. Það er ríkisvaldið sem tekur ákvörðun um það hverjum er heimilt og hverjum ekki og það eru ekki aðrar sambærilegar atvinnugreinar. Mismunun felst í því. Hvað það varðar að þetta sé skattlagning er það náttúrlega útúrsnúningur og falsrök vegna þess að gjaldtaka fyrir úthlutun á fémætum heimildum sem ríkið skammtar mönnum er ekki það sama og almenn skattlagning. Hins vegar að því er varðar reynsluna af sambúð þeirra í þeim þjóðfélögum sem byggt hafa afkomu sína á hagnýtingu einnar auðlindar með þessum formerkjum þá eru dæmin um ófarnað sem af því hlýst ótalmörg. Það er engin leið að neita því að það er uppi sambúðarvandi annars vegar milli sjávarútvegsins íslenska og þróunar iðnaðar og þjónustu á samkeppnisgrundvelli og til útflutnings þegar svo háttar til að raunveruleg skráning á gengi íslensku krónunnar ræðst af þessum forréttindum þeirrar atvinnugreinar sem er fyrirferðarmest í útflutningi.