Álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 13:05:44 (5455)

1996-05-02 13:05:44# 120. lþ. 129.92 fundur 280#B álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp# (aths. um störf þingsins), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[13:05]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni var ég harla ánægður með álit Lagastofnunar. Eins og ég gat um í framsögu vonaðist ég eftir því og bað sérstaklega hv. félmn. við meðferð málsins að kanna hvort ásakanir þær sem hér komu fram við 1. umr. um stjórnarskrárbrot og brot á alþjóðasamþykktum væru staðreynd. Félmn. vísaði málinu til umsagnar Lagastofnunar. Félmn. hefur fengið það svar við spurningum sem hún lagði fyrir Lagastofnun að það sé í lagi og það hefur komið í ljós að hér er ekki um stjórnarskrárbrot að ræða. Það er vafi um hvort tvö atriði í niðurstöðum Lagastofnunar standist 98. ályktun frá ILO. Það vildi svo vel til að bæði þessi atriði höfðu fengið mikla gagnrýni og ég var ákveðinn í því að biðja hv. félmn. að taka það til greina. Ég mun biðja félmn. að flytja brtt. við þau tvö atriði sem athugasemdir komu við og voru álitamál hjá Lagastofnun.

Varðandi önnur atriði sem Lagastofnun er með vangaveltur um eru það ákvæði sem standa óbreytt frá gildandi lögum þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að kippa mér upp við það enda er þar ekki um neinar fullyrðingar að ræða heldur fremur í vangaveltustíl. Ég vænti þess að þegar breytingartillögur sem ég vona að liggi fyrir í dag líta dagsins ljós muni hv. formaður félmn. taka málið til meðferðar og það hljóti afgreiðslu í sem bestri sátt.