Álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 13:16:50 (5460)

1996-05-02 13:16:50# 120. lþ. 129.92 fundur 280#B álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[13:16]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. flutti í ríkissjónvarpinu í gær 1. maí boðskap sinn. Hann svaraði gagnrýni stéttarfélaganna með því að segja: ,,Það er nú til lítils að vera að hóta því að verða reiður einhvern tíma löngu seinna.`` Hann svaraði gagnrýni Lagastofnunar Háskóla Íslands með því að segja: ,,Þetta er smáræði.`` Ég hef aldrei heyrt aðra eins 1. maí ræðu og þá sem hæstv. ráðherra flutti í gær.

Í umsögn Lagastofnunar vekur hún sérstaka athygli á því í lokaorðum sínum þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Við teljum að síðustu rétt að vekja athygli á því að réttarheimildir á því sviði sem álitsgerðin fjallar um eru í senn mjög miklar að vöxtum og ekki að öllu leyti aðgengilegar. Hefur þessi aðstaða sett mark sitt á verk okkar ...`` Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að það er bráðabirgðaálit sem hér liggur fyrir sem þeir hafa orðið að vinna að í tímahraki og við getum átt von á því að ýmislegt eigi eftir fram að koma sem þeir hafa ekki haft tíma til að athuga. Síðan segir ráðherra: ,,Þær athugasemdir sem gerðar eru eru smávægilegar.`` Er það smávægilegt þegar bent er á að sjónarmið um skipan félagsdóms í ákvæðum frv. kunni að brjóta í bága við mannréttindasáttmála Evrópu? Er það smáatriði þegar bent er á að ákvæði frv. um samþykkt miðlunartillögu teljist ekki samrýmast rétti manna til frjálsra samninga samkvæmt alþjóðasáttmálum? Er það smáatriði þegar allur gjörvallur kafli frv. um meðferð miðlunartillögu ríkissáttasemjara og atkvæðagreiðslur við hana brjóta í bága við samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, allur kafli frv. um þetta atriði, er það smáatriði? Er það smáatriði þegar tekið er fram í umsögn Lagastofnunar að ekki sé nægilega skýrt hvaða skilningur eigi að ríkja um boðun og framkvæmd samúðarvinnustöðvunar? Er það smáatriði þegar tekið er fram af þessari sömu stofnun í þessari sömu greinargerð að ákvæðin um félagssvæði stéttarfélaga samrýmist e.t.v. ekki alþjóðasáttmálum um félagafrelsi? Er það smáatriði þegar bent er á að óljóst er um réttarstöðu stéttarfélaga ef kemur til stofnunar vinnustaðarfélaga?

Það stendur ekki steinn yfir steini, herra forseti, af því frv. sem hæstv. félmrh. lagði fram. Umsögn Lagastofnunar fjallar um það og honum væri sæmst að draga frv. til baka.