Álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 13:19:35 (5461)

1996-05-02 13:19:35# 120. lþ. 129.92 fundur 280#B álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[13:19]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Hv. 17. þm. Reykv. beindi þeim fyrirspurnum til starfandi forsætisráðherra hvað ríkisstjórnin hygðist gera varðandi frumvarpsflutning. Er þar einkum verið að benda á tvö frv. sem hafa mikið verið í umræðunni upp á síðkastið, annars vegar frv. um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og hins vegar frv. um stéttarfélög og vinnudeilur. Ég vil staðfesta það hér að það er áform ríkisstjórnarinnar að fá þessi mál afgreidd á yfirstandandi þingi. Hins vegar er það svo að stjórn þingsins ræður að sjálfsögðu dagskrá þingsins þannig að ég get ekki svarað hvenær og hvernig það verður gert. Það verður að ráðast af dagskrá þingsins hverju sinni.

Ég vil láta það koma fram að mikil vinna hefur farið fram í þessum frv. í nefndum og frv. um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna hefur verið afgreitt úr nefnd eins og hv. þm. er kunnugt.

Ég vil einnig láta það koma fram og ítreka það sem hæstv. félmrh. sagði að hann hefur boðað breytingar á frv. sem hann flytur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í tengslum við niðurstöðu Lagastofnunar. En það var öll félmn. ef ég veit rétt, sem bað um álit Lagastofnunar eða a.m.k. skrifaði til nefndarinnar sem slíkrar þannig að ég stóð í þeirri meiningu að nefndin hefði beðið um þetta álit. Þess vegna hlýtur það álit að hafa talsverða þýðingu fyrir málið og frekari umfjöllun um það í nefndinni.

Þetta vildi ég að kæmi fram við þessa umræðu þannig að ljóst sé hver áform ríkisstjórnarinnar eru varðandi þessi tvö frv. sem hér hefur verið spurst fyrir um. (ÖJ: Er Lagastofnunin mikilvægari en verkalýðshreyfingin?

(Forseti (ÓE): Ekki grípa fram í.)

Það eina sem ég sagði, virðulegi forseti, var það að ef hv. nefnd sendi Lagastofnun beiðni um úttekt á málinu, þá hlyti það að vera gert vegna þess að nefndin vilji fá álit Lagastofnunar og ætli eitthvað með það álit að gera.