Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 13:40:06 (5467)

1996-05-02 13:40:06# 120. lþ. 129.6 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, ÁE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[13:40]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á þessu ákvæði sem hér er verið að greiða atkvæði um. Þetta er svokallað Olís-ákvæði en með þessu ákvæði til bráðabirgða er einu fyrirtæki á Íslandi settar sérreglur í lagasetningu.

Í upprunalega frv. voru takmarkanir við 25% og 33% eignaraðild og ekki mátti eiga hlut í innlendum fyrirtækjum. Það var eitt félag á Íslandi sem uppfyllti ekki þessar kröfur, það var Olíuverslun Íslands sem er að 35% hluta í eigu erlendra aðila. Í stað þess að hækka þessi mörk lítillega hefur meiri hlutinn kosið að setja sérstök íþyngjandi ákvæði gagnvart einu fyrirtæki hérlendis. Jafnframt er því sagt að það verði að fara þessa fjallabaksleið sem við höfum lýst í umræðunni með því að skipta upp eignarhlut sínum til þess að geta haldið hlut sínum í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum ef þau kjósa.

Í þessu ákvæði til bráðabirgða koma fram gallar þessarar óbeinu aðferðafræði við fjárfestingar sem lagðar eru til en það sem mér finnst vera ámælisvert við þetta er að eitt fyrirtæki hér á landi er tekið út sérstaklega með íþyngjandi hætti í stað þess að setja almennar reglur.

Ég greiði ekki atkvæði um þessa tillögu.