Úthlutun sjónvarpsrása

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 13:48:47 (5468)

1996-05-02 13:48:47# 120. lþ. 129.91 fundur 279#B úthlutun sjónvarpsrása# (umræður utan dagskrár), ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[13:48]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Sá háttur sem hafður er á við úthlutun þeirra takmörkuðu gæða sem sjónvarpsrásir eru hefur verið réttilega gagnrýndur frá því að útvarpsréttarnefnd tók fjórar sjónvarpsrásir til endurúthlutunar, tvær á hvorri sjónvarpsstöð, Stöð 2 í eigu Íslenska útvarpsfélagsins annars vegar og Stöð 3 hins vegar sem er nýtt fyrirtæki í samkeppni við sjónvarpsstöðvar Íslenska útvarpsfélagsins og úthlutaði þeim öllum til þriðju stöðvarinnar, Sýnar, sem er í eigu Íslenska útvarpsfélagsins eins og Stöð 2. Enn sem komið er er fjöldi rása til sjónvarpsútsendinga takmarkaður. Þetta er takmörkuð og eftirsótt auðlind, samanber að Sýn seldist á 100 millj. sem var aðallega greiðsla fyrir þær rásir sem hún hafði til umráða. Það skiptir miklu máli þegar verið er að úthluta sjónvarpsrásum að þær reglur sem farið er eftir séu gagnsæjar og öllum ljósar. Sjónvarpsrekstur kostar miklar fjárfestingar og það gengur ekki að menn sem fara út í þær þurfi að búa við það rekstraróröyggi sem ríkir við núverandi ástand. Þeir eiga ekki að þurfa að sæta því að ríkisskipuð nefnd breyti í veigamiklum atriðum rekstraraðstæðum og rekstrargrundvelli þeirra fyrirvaralítið.

Þeir sem úthluta þessum rásum, í þessu tilfelli útvarpsréttarnefnd, eru skipaðir af Alþingi þar sem stjórnmálaflokkar tilnefna fulltrúa. Nú er það svo að formaður og einn nefndarmanna eru framkvæmdastjórar stjórnmálaflokka. Þeir eiga í tugmilljónaviðskiptum við sjónvarpsstöðvar í kosningabaráttu fyrir hönd þeirra stjórnmálaflokka sem þeir starfa hjá og eru hins vegar að úthluta þessum gæðum. Sem nefndarmenn, eru þeir fulltrúar hins opinbera en hins vegar starfsmenn framkvæmdastjóra stjórnmálaflokka og annast fjármál þeirra. Þó að þeir séu e.t.v. ekki vanhæfir samkvæmt stjórnsýslulögum stangast þær sannarlega á við anda laganna. Það er líka líklegt til að skapa tortryggni. Það er því spurning hvort seta þeirra í nefndinni stenst almennt siðgæði.

Það er oft talað um fjölmiðla sem fjórða valdið á eftir löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi og dómsvaldi. Hvernig farið er með þessa takmörkuðu auðlind í ljósi þess skiptir mjög miklu máli.

Þróun í eignaraðild að fjölmiðlum hér á landi er visst áhyggjuefni. Í einkareknum fjölmiðlum og sjónvarps- og útvarpsrekstri virðast vera að myndast hringar. Sömu aðilar eru eigendur að Stöð 2 og Sýn. Þeir eiga síðan og reka útvarpsstöðina Bylgjuna og eiga einnig hlut í útgáfufélaginu sem gefur út dagblaðið DV sem rekur síðan dagblaðið Tímann. Þessi aðili hefur mjög sterka og vaxandi markaðsstöðu í rekstri ljósvakamiðla.

Nú er að koma upp samkeppnisaðili, Stöð 3, fyrsti einkarekni samkeppnisaðilinn við sjónvarpsstöðvar Íslenska útvarpsfélagsins. Það skiptir því afar miklu máli ef menn vilja samkeppni í einkarekstri sjónvarpsstöðva að búa þeim þannig umhverfi að samkeppni sé möguleg. Svo er vissulega ekki við ríkjandi ástand. Þegar nefndin tekur rásir af Stöð 3 fyrirvaralítið og færir öðru fyrirtæki, sem er í markaðsráðandi stöðu, til að efla hana, virðist það brjóta í bága við 17. gr. samkeppnislaga. Það eru því allar líkur á því að vinnubrögð útvarpsréttarnefndar í síðustu úthlutun standist ekki samkeppnislög.

Hæstv. menntmrh. Ég legg mikla áherslu á það að gerð verði á Alþingi skýr grein fyrir því hvaða forsendur eru hafðar til hliðsjónar þegar þessum útvarpsrásum er úthlutað og þá einnig í tilfelli Sýnar þannig að þingmenn og ekki síður þeir sem ætla að fara út í þennan rekstur viti að hverju þeir ganga. Mikilvægt er þegar farið er með takmörkuð gæði í eigu ríkisins sem varða almannahagsmuni í þessu tilfelli ekki minna en lýðræði í landinu að reglur séu gagnsæjar þannig að menn viti hverjar þær eru. Ég spyr einnig: Þarf ekki að setja skýrari reglur um útgáfu endurvarpsleyfa eða rása til að tryggja réttaröryggi og rekstrargrundvöll sjónvarpsstöðva? Að lokum spyr ég: Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þess að raunveruleg greiðsla komi fyrir afnot af þessum rásum sem eru vissulega auðlind samanber söluna á Sýn sem ég gat um áðan?