Úthlutun sjónvarpsrása

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 13:53:21 (5469)

1996-05-02 13:53:21# 120. lþ. 129.91 fundur 279#B úthlutun sjónvarpsrása# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[13:53]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég mótmæla þeim dylgjum sem fram komu í garð nefndarmanna í útvarpsréttarnefnd í máli hv. málshefjanda. Ég tel að það sé með öllu ástæðulaust að gefa til kynna að útvarpsréttarnefnd hafi í þessu starfi sínu eða öðrum starfað á óeðlilegum forsendum. Slíkar dylgjur sæma ekki þingmönnum þegar þeir fjalla um mál af þessu tagi.

Ég sneri mér til útvarpsréttarnefndar vegna þessarar umræðu utan dagskrár og fékk svohljóðandi bréf frá henni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Útvarpsréttarnefnd vill í tilefni af utandagskrárumræðum í dag um úthlutun sjónvarpsrása gera grein fyrir starfi nefndarinnar þar að lútandi. Útvarpsréttarnefnd er kosin hlutfallskosningu á Alþingi og starfar á grundvelli útvarpslaga. Hlutverk nefndarinnar er að fjalla um og veita leyfi til útvarpsrekstrar, annars vegar til útsendingar íslenskrar hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrár og hins vegar til endurvarps erlendrar sjónvarpsdagskrár. Stjórnsýsluleg staða útvarpsréttarnefndar er ljós. Nefndin er sjálfstæð í störfum sínum og hefur endanlega ákvörðun um veitingu útvarpsleyfa. Við mat á umsóknum leggur nefndin frjálst mat en byggir þó ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum svo sem lög gera ráð fyrir.

Þar sem spurningar málshefjanda virðast lúta að úthlutun svokallaðra endurvarpsleyfa mun hér gerð sérstaklega grein fyrir þeim. Endurvarpsleyfi eru einvörðungu veitt til að endurvarpa viðstöðulaust óstyttri og óbreyttri dagskrá erlendrar sjónvarpsstöðvar svo sem kveðið er á um í útvarpslögum. Endurvarp erlendra sjónvarpsdagskráa er einvörðungu heimiluð um þráð eða þráðlaust, um örbylgju og er reyndin sú að allt endurvarp erlendrar sjónvarpsdagskrár fer fram um örbylgju. Umsóknir um endurvarpsleyfi berast útvarpsréttarnefnd en nefndin leitar í öllum tilvikum umsagnar fjarskiptaeftirlits ríkisins um tæknilega möguleika á að verða við þeim. Á örbylgjusviði eru 22 rásir til ráðstöfunar fyrir sjónvarp. Fjarskiptaeftirlitið hefur ákveðið að ráðstafa örbylgjurásum til dreifingar íslenskrar sjónvarpsstöðvar á örbylgjusviði, þ.e. Ríkisútvarpsins --- sjónvarps, Stöðvar 2 og Sýnar og jafnframt hefur Landsvirkjun fengið not af rás á örbylgjusviðinu. Þannig hefur útvarpsréttarnefnd einungis til ráðstöfunar 17 rásir til endurvarps erlendra sjónvarpsdagskráa.

Útvarpsréttarnefnd hafa nýverið borist fleiri umsóknir en nefndin getur með nokkru móti brugðist við vegna skorts á rásum. Útvarpsréttarnefnd hefur byggt umfjöllun sína um umsóknir á því meginsjónarmið að gæta jafnræðis milli umsækjenda og sporna gegn því að leyfi til endurvarps um örbylgju safnist á hendur fárra aðila. Í útvarpslögum er ekki að finna heimildir til þess að synja umsóknum um endurvarpsleyfi og/eða útvarpsleyfi á þeim forsendum að um mikil eigendatengsl milli fyrirtækja í sama rekstri sé að ræða. Útvarpsréttarnefnd hefur allt frá því að löggjafinn heimilaði endurvarp erlendra sjónvarpsdagskráa hér á landi með breytingu á útvarpslögum á árinu 1993 byggt á því að veita einum aðila ekki fleiri leyfi til endurvarps en fimm og hafa slík leyfi verið veitt til þriggja og fimm ára. Þá hefur nefndin einnig veitt svokölluð bráðabirgðaleyfi til að nýta betur þær rásir sem fyrir eru og hafa slík leyfi ekki verið veitt til lengri tíma en til eins árs í senn. Á fundi nefndarinnar 21. mars sl. var ákveðið að þegar bráðabirgðaleyfi verði gefin út í framtíðinni verði gildistími þeirra sex mánuðir. Um veitingu bráðabirðgaleyfa er gerður sérstakur samningur við umsækjendur sem þeir eru frjálsir að ganga að þar sem kveðið er á um fyrirvaralausa og bótalausa afturköllun bráðabirgðaleyfisins telji nefndin slíkt nauðsynlegt til þess að tryggja eðlilega samkeppni á þessu sviði. Umsækjendum er gerð ítarleg grein fyrir þessum atriðum sem og á öllum stigum málsmeðferðarinnar.

Áður en til úthlutunar slíkra leyfa kemur verða umsækjendur að sýna fram á að þeir hafi fullnægjandi samninga við hina erlendu sjónvarpsstöð til endurvarpsins og verða þeir samningar að berast nefndinni áður en til formlegrar útgáfu leyfanna kemur. Til þess að greiða fyrir samningsgerðinni staðfestir útvarpsréttarnefnd ákvörðun um leyfisveitingu jafnskjótt og niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir. Staðfesting nefndarinnar felur í sér vilyrði fyrir endurvarpsleyfi sem verði afgreitt þegar samningar umsækjenda um sjónvarpsstöðvarnar liggja fyrir. Takist slíkir samningar ekki innan hæfilegs tíma fellur vilyrðið úr gildi og verða þá rásirnar til ráðstöfunar að nýju.

Þar sem spurt er sérstaklega um úthlutun nefndarinnar á endurvarpsleyfum til Sýnar hf. skal tekið fram að sú úthlutun byggist á þeim meginsjónarmiðum sem gerð er grein fyrir að framan. Útvarpsréttarnefnd taldi sig ekki hafa forsendur til þess að synja umsókn félagsins um leyfi til endurvarps enda er um sjálfstæðan lögaðila að ræða. Umsókn Sýnar hf. fékk sömu meðferð og aðrar umsóknir sem nefndinni berast. Þar að auki kallaði nefndin forsvarsmenn Sýnar hf. og Íslenska útvarpsfélagsins, Fjölmiðlunar hf., til fundar og óskaði eftir ítarlegum gögnum og greinargerðum um samstarf þessara aðila. Eftir ítarlega athugun nefndarinnar varð það niðurstaða að um sjálfstæðan lögaðila væri að ræða, enda þótt mikil eigendatengsl væru milli fyrirtækjanna. Taldi nefndin því ekki forsendu til annars en taka umsóknina til efnislegrar meðferðar sem veita Sýn hf. vilyrði fyrir leyfisveitingum vegna endurvarps á örbylgju innan þess svigrúms sem nefndin taldi sig hafa á þessu tíðnisviði.

Samhliða veitingu vilyrðis til Sýnar hf. var Íslenska útvarpsfélaginu, Fjölmiðlun hf. sem hafði hinn 13. september 1995 verið veitt bráðabirgðaleyfi til eins árs til endurvarps þriggja dagskráa svipt tveimur bráðabirgðaleyfum af þremur. Auk þess voru afturkölluð tvö vilyrði af þremur um veitingu bráðabirgðaleyfa til Íslenska sjónvarpsins hf. en það félag hafði haft vilyrði um sjö mánaða skeið án þess að samningar lægju fyrir um erlendar sjónvarpsstöðvar þannig að unnt væri að ganga frá formlegri leyfisveitingu.``

Herra forseti. Tíma mínum er lokið og get ég því ekki lokið við að lesa þessa skýringu útvarpsréttarnefndar.