Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 14:13:45 (5475)

1996-05-02 14:13:45# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[14:13]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég er ekki alveg sammála fullyrðingum síðasta ræðumanns að það sé ekki ástæða til að fjölyrða um þetta mál. Ég er hræddur um að við þurfum að ræða þetta í víðara samhengi en hér hefur verið gert. Þannig háttar málum að við flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga flytjast að sjálfsögðu þeir starfsmenn sem hafa starfað við skólana en voru áður ríkisstarfsmenn yfir til sveitarfélaganna og verða starfsmenn þeirra. Þess vegna er frv. flutt og eins og segir í athugasemdum, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið er byggt á því samkomulagi sem náðist milli þessara aðila og birt er í skýrslu nefndarinnar. Frumvarpið felur því fyrst og fremst í sér endurspeglun á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 38/1954, auk þess sem starfsmönnum er áfram tryggður sá réttur sem þeir nú njóta samkvæmt reglugerðum nr. 410/1989 og 411/1989.``

[14:15]

Við flutninginn á skólanum frá ríki til sveitarfélaga færist ýmis önnur starfsemi tengd skólunum að sama skapi. Það á t.d. við um fræðsluskrifstofurnar og þar af leiðandi það starfsfólk sem þar starfar. Í febrúarmánuði, nánar tiltekið 7. febr. sl., komu fulltrúar samtaka allra þeirra starfsmanna sem starfa á fræðsluskrifstofunum saman til fundar og ákváðu að senda erindi til verkefnisstjórnar vegna flutnings grunnskólans. Þeir sendu frá sér svohljóðandi bréf, með leyfi forseta:

,,Neðangreind samtök vilja vekja athygli verkefnisstjórnar vegna flutnings grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga á því að enn er algerlega óljóst um stöður og réttindi starfsmanna á fræðsluskrifstofum. Samtökin telja að þessir starfsmenn eigi siðferðilega sama rétt og grunnskólakennarar til áframhaldandi starfa og óskertra réttinda þrátt fyrir að störf þeirra séu nú færð frá ríki til sveitarfélaga með öðrum hætti en störfin í grunnskólanum. Samtökin leggja þess vegna til:

1. að verkefnisstjórnin geri nú þegar tillögur um hvernig störfin á fræðsluskrifstofum verði færð yfir til hlutaðeigandi sveitarfélags/sveitarfélaga í hverju tilviki fyrir sig enda er aðeins um rúmlega 70 starfsmenn að ræða,

2. að núverandi starfsmönnum á fræðsluskrifstofum verði boðin störf og tryggður að öðru jöfnu forgangur til þeirra,

3. að gert verði sérstakt samkomulag milli hlutaðeigandi samningsaðila um réttarstöðu þessara einstaklinga (sbr. starfsmenn Landakots) sem feli í sér að þeim verði tryggð algerlega sambærileg og óskert réttindi miðað við það sem þeir hafa í dag, bæði með tilliti til laga nr. 38/1954 ásamt reglugerðum um barnsburðar- og veikindaleyfi og laga nr. 29/1963 (um lífeyrisréttindi) og feli þetta í sér að þessir starfsmenn fái ekki biðlaun við flutninginn.

4. að í þeim tilvikum þar sem ómögulegt reynist að tryggja starfsmönnum sambærilegt starf fái þeir yfirlýsingu um rétt sinn til biðlauna og hugsanlegan forgang að nýju starfi í faggrein sinni á vegum ríkis eða sveitarfélaga.

Samtökin hvetja verkefnisstjórnina til að hefjast strax handa í þessu verkefni þar sem ýmis sveitarfélög eru þegar búin að auglýsa umrædd störf laus til umsóknar.``

Undir þetta bréf rita síðan fulltrúar Kennarasambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna. Þetta bréf var sent formanni verkefnisstjórnar vegna flutnings grunnskólans, Hrólfi Kjartanssyni, 7. febrúar eins og áður kom fram. Afrit var sent menntmrh., Sambandi íslenskra sveitarfélaga og borgarstjóranum í Reykjavík.

Fleiri bréf hafa verið skrifuð til að vekja athygli á réttarstöðu annarra starfsmanna sem flytjast einnig frá ríki til sveitarfélags vegna flutnings grunnskólans. Samtök opinberra starfsmanna hafa þannig vakið athygli á því að í kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana og fjmrn. með gildistíma frá 1. apríl 1995 segir: ,,Fjármálaráðherra í samráði við menntmrh. mun beita sér fyrir því að tryggja efnislega óbreytt ráðningaréttindi þeirra félaga í SFR, þ.e. Starfsmannafélagi ríkisstofnana, sem nú starfa hjá ríkinu í grunnskólum, sem færast til sveitarfélaga samkvæmt nýsamþykktum grunnskólalögum eftir yfirfærslu.``

Starfsmannafélag ríkisstofnana hefur bent á að félagið líti svo á að þessi bókun nái einnig til lífeyrisréttinda viðkomandi starfsmanna.

Mér finnst mjög mikilvægt í tengslum við það frv. sem hér er til umræðu og er góðra gjalda vert, skoðað út af fyrir sig og þröngt. Það er nú ástæða til að taka svo til orða þegar á öðrum stað í kerfinu er frv., reyndar komið út úr þingnefnd núna, sem gerir ráð fyrir að taka réttindi og skyldur opinberra starfsmanna upp, rífa þau upp frá rótum, þannig að það stangast nú sitt hvað á þegar við förum að skoða þessi mál öll í heild sinni. Það er eitt að vera ánægður með það sem er að gerast varðandi þetta frv. skoðað þröngt og svo annað þegar við förum að skoða málin í víðara samhengi.

Mér finnst mjög mikilvægt áður en þetta frv. er samþykkt eða þessu máli lokið öllu heldur, ég er síður en svo að leggjast gegn því að þetta frv. verði samþykkt, þá þurfum við engu að síður að fá botn í að hvað ríkisstjórnin hyggst gera varðandi aðra starfsmenn sem tengjast skólahaldinu og munu flytjast frá ríki til sveitarfélaga vegna þessa flutnings. Getur það virkilega verið að ríkisstjórnin ætli ekki að tryggja því fólki sambærileg réttindi og ríkisstjórnin kveðst reiðubúin að tryggja kennurum? Við verðum að fá afdráttarlaus svör við þessu áður en áfram er haldið. Ég tel að við getum ekki lokið þessari umræðu áður en við fáum botn í þetta.