Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 14:38:20 (5477)

1996-05-02 14:38:20# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[14:38]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er rétt sem fram hefur komið að þetta frv., sem er til umræðu, er samkomulag um innihald þess vegna þess eins og segir í grg. frv. á bls. 8 í þskj., með leyfi forseta. ,,Frumvarpið felur því fyrst og fremst í sér endurspeglun á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 38/1954, auk þess sem starfsmönnum er áfram tryggður sá réttur sem þeir nú njóta samkvæmt reglugerðum nr. 410/1989 og 411/1989.``

Sá böggull fylgir hins vegar skammrifi að hér liggur fyrir í þinginu frv. til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem breytir lagaramma þeirra mála í grundvallaratriðum. Það frv. er umdeildasta eða annað umdeildasta frv. þessa þings og hefur þegar sætt verulegum mótmælum, bæði úti í þjóðfélaginu og hér í þessari virðulegu stofnun. Það er því óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að ræða þessi mál í samhengi eins og hér hefur verið gert af fyrri ræðumönnum, hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur og hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Þetta er sérstaklega mikilvægt vegna þess að hv. menntmn., meiri hluti hennar, tengir þessi mál saman með ótrúlega grófum hætti í nál. á þskj. 882, og þó alveg sérstaklega í brtt. meiri hluta menntmn. við frv. til laga um framhaldsskóla sem verður væntanlega rætt seinna á þessum fundi eða á morgun. Þar segir á þskj. 883, brtt. við frv. til laga um framhaldsskóla, með leyfi forseta: ,,Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um framhaldsskóla, nr. 57/1988, með áorðnum breytingum, að undanskildum ákvæðum 12. og 13. gr. þeirra laga sem halda skulu gildi sínu þar til ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, er kveða á um æviráðningu ríkisstarfsmanna, hafa verið afnumin, sbr. 47. gr.`` Með öðrum orðum er því slegið föstu í frv. til laga um framhaldsskóla og nál. um það að lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eigi að fella úr gildi og það hljóti að hafa áhrif á lög um framhaldsskóla. Þar af leiðandi liggur það væntanlega í augum uppi og í hlutarins eðli að við því er að búast að á það verði sótt af valdhöfum þessa máls sem hér er á dagskrá, þ.e. sveitarfélögunum þegar þar að kemur, að þessi réttindi kennara verði afnumin þegar þeir verða fluttir yfir til sveitarfélaganna. Það er í raun verið að viðurkenna með brtt. meiri hluta menntmn. við frv. til laga um framhaldsskóla að þetta frv. sem hér er á dagskrá sé einskis virði vegna þess að öll þau réttindi sem hér eru inni eigi að taka aftur og að meiri hlutinn á Alþingi sé tilbúinn til að hjálpa sveitarfélögunum við að taka þessi réttindi aftur. Og ég spái því, hæstv. forseti, að ef svo fer að þessi mál verða flutt yfir til sveitarfélaganna með þeim hætti sem hér er að gerast og ef svo fer að lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna verður breytt þá muni sveitarstjórnirnar koma strax á næsta vetri og segja: Við getum ekki verið með okkar starfsmenn á öðrum kjörum en gengur og gerist með opinbera starfsmenn. Þess vegna förum við fram á það við Alþingi að lögunum um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda verði breytt. Ég tel þess vegna að það sé nauðsynlegt að vekja athygli á því að sá meiri hluti sem hér situr, situr á svikráðum við kennarana. Hann situr á svikráðum við kennarastéttina í landinu þó hann sé auðvitað neyddur til þess vegna þess hvernig málin ber að að ganga svona frá þessu og samþykkja að frv. feli í sér endurspeglun á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Hann er neyddur til þess. Kennararnir knúðu það fram og ég tel í raun og veru afrek hvernig kennararnir hafa náð fram lendingu í þeim málum. En þá er hitt eftir sem áður ljóst að á næsta þingi mun sá meiri hluti sem hér situr fallast á óskir sem fram kunna að koma frá sveitarstjórnunum um að kippa þessum réttindagrundvelli undan kennurunum aftur af því að það er verið að gjörbreyta réttarstöðu opinberra starfsmanna í öðru frv. sem hér liggur fyrir. Og það er nokkuð harkalegt ef Framsfl. og Sjálfstfl. sitja þannig á svikráðum við kennara grunnskólanna eins og ástæða er til að ætla miðað við allan málatilbúnað og þó sérstaklega við þetta makalausa ákvæði á þskj. 883 sem ég ætla að lesa, með leyfi hæstv. forseta, á nýjan leik: ,,Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um framhaldsskóla, nr. 57/1988, með áorðnum breytingum, að undanskildum ákvæðum 12. og 13. gr. þeirra laga sem halda skulu gildi sínu þar til ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, er kveða á um æviráðningu ríkisstarfsmanna, hafa verið afnumin.`` Í brtt. sem hér liggur fyrir er gengið út frá því að önnur lög í þinginu verði afnumin. Það er með öðrum orðum verið að segja á grundvelli menntamálalöggjafarinnar að þau ákvæði sem hér er verið að ræða séu varla pappírsins virði. Ef sveitarstjórnirnar koma til meiri hluta Alþingis á næsta þingi og biðja um að þetta verði afnumið þá verður það gert. Þannig situr núverandi meiri hluti Alþingis á svikráðum við kennarastéttina, þá sem starfa í grunnskólunum. Það er bráðnauðsynlegt, hæstv. forseti, að fá það alveg skýrt frá hæstv. ráðherrum og meiri hlutanum hvernig þeir sjá þetta fyrir sér. En í rauninni skipta þeirra orð ekki öllu í þessu sambandi vegna þess að þau eru loðin og segja ekki margt. Ég veit nokkurn veginn hvernig þau verða. Veruleikinn er þessi. Hann er sá að þessi meiri hluti á Alþingi er tilbúinn til þess að svíkjast aftan að kennurunum strax á næsta vetri. Og það kemur hvergi skýrar fram en í þskj. 883 þar sem segir að þegar búið sé að fella úr gildi lögin um opinbera starfsmenn eins og þau eru núna eigi þetta og hitt að gerast. Þetta atriði vildi ég, hæstv. forseti, í fyrsta lagi nefna hér.

Í öðru lagi vildi ég aðeins víkja að því sem fram kom í ræðum hv. þm. Ögmundar Jónassonar og hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur varðandi fræðsluskrifstofufólkið. Það á ekki af því fólki að ganga. Er ekki tiltölulega mjög stutt síðan þetta fólk varð starfsmenn ríkisins? Var það ekki í raun og veru gert með lögunum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga 1989? Var það ekki þannig að þetta fólk var í raun og veru meira og minna starfsmenn sveitarfélaganna eða samtaka þeirra? Síðan samþykktum við lög 1989 um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þar var allt í einu ákveðið að starfsmenn fræðsluskrifstofanna ættu að vera starfsmenn ríkisins. Það var farið í mikla samningavinnu um að koma kjörum starfsmanna fræðsluskrifstofanna fyrir með skipulögðum hætti eftir þessum nýju lögum. Það gekk út af fyrir sig ágætlega en þó var málið flókið. Það var aðallega flókið vegna þess að starfsmenn fræðsluskrifstofanna bjuggu við mismunandi kjör eftir fræðsluskrifstofum, eftir því hvernig sveitarfélögin höfðu tekið á þeirra málum. Það var mjög mikið verk sem var t.d. unnið í fjmrn. á þeim tíma við það að samræma þessa hluti þannig að kjörin væru annars vegar bærileg miðað við hinar almennu reglur sem ríkisstarfsmenn starfa eftir og hins vegar miðað við það sem hafði verið í gangi áður á þessum fræðsluskrifstofum. Nú gerist það síðan örfáum árum seinna --- ég hugsa að það séu kannski ekki nema 2--3 ár liðin frá því að gengið var almennilega frá kjörum starfsmanna ríkisins --- nú gerist það að þessir starfsmenn fræðsluskrifstofanna og þeir sem ég er að fjalla sérstaklega um hér, standa frammi fyrir því að þeir verða aftur fluttir yfir.

[14:45]

Mér liggur við að segja, hæstv. forseti, að það sé ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort það þurfi ekki að vera ákvæði í stjórnarskránni um það hversu oft á hverri starfsævi er hægt að þvæla mönnum á milli sveitarfélaga og ríkisins. Þetta fólk er búið að vera núna í hálfan annan áratug hjá ríkinu. Það var áður hjá sveitarfélögum. Nú á það aftur að fara til sveitarfélaganna. Þetta er dálítið umhugsunarvert og spurning hvort forustumenn opinberra starfsmanna sem eru sumir ekki langt undan þurfi ekki að velta því fyrir sér að það verði bara í kjarasamningum sérstakt ákvæði um að það sé hægt að takmarka eitthvað þessa gripaflutninga þannig að það sé ekki hægt fyrirvaralítið að flytja þessa starfsmenn á milli nema höfð sé alveg sérstök aðgát í hverju tilviki.

Ég held, hæstv. forseti, að þetta sé sérstakt umhugsunarefni og þess vegna tek ég undir orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem hér fjallaði um starfsmenn fræðsluskrifstofanna og aðra starfsmenn sem færast til sveitarfélaganna í tengslum við þennan flutning.

Ég vil einnig vekja athygli á því, hæstv. forseti, að í frv. er eitt lykilatriði sem ríkisstjórnin telur að skipti mjög miklu máli. Það er að biðlaunaréttur stofnist ekki við flutninginn. Ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin fellst á þetta endurspeglunarákvæði og þessa endurspeglunaraðferð er að með því er tryggt að biðlaunaréttur stofnist ekki við flutninginn, enda stendur á bls. 8 í þskj., með leyfi forseta:

,,Biðlaunaréttur stofnaðist ekki við flutninginn, enda hefði löggjafinn að fullu tryggt óbreytt réttindi.`` Þetta er aðalatriðið, að koma í veg fyrir það. Þá spyr ég um alla hina starfsmennina sem hér um ræðir, þ.e. starfsmenn fræðsluskrifstofanna og aðra starfsmenn menntakerfisins sem flytjast á milli við þessar breytingar en þetta frv. nær ekki til. Er verið að segja, hæstv. forseti, að fræðsluskrifstofustarfsmennirnir og aðrir sem ekki eru tilgreindir hér, fái biðlaunarétt, að þeir geti fengið biðlaunarétt og flutt biðlaunin með sér eða hvað? Halda þeir biðlaunaréttinum? Halda þeir biðlaununum? Hvað segir hæstv. fjmrh. um það atriði? Ég held að það sé óhjákvæmilegt að það komi í ljós hvernig farið er með biðlaunin gagnvart því fólki skólanna sem ekki er nefnt í frv. Það er greinilegt hvernig farið er með þetta gagnvart kennrunum vegna þess að það er reiknað með því að af því að hér er um að ræða endurspeglunaraðgerð þá sé ekki um að ræða flutning á þessum biðlaunarétti, hann stofnist ekki. En hvernig er með alla hina, hæstv. forseti? Um það vil ég spyrja hæstv. menntmrh. Hvað er með biðlaun hinna aðilanna?

Í bréfi sem ritað var af forustumönnum Kennarasambandsins, BSRB og Bandalags háskólamanna til Hrólfs Kjartanssonar, formanns verkefnisstjórnar vegna flutnings grunnskólans, er sérstaklega um þessi mál fjallað og stöðu þessara manna, þar sem segir m.a. í bréfinu, með leyfi forseta:

,,Samtökin leggja þess vegna til:

1. að verkefnisstjórnin geri nú þegar tillögur um hvernig störfin á fræðsluskrifstofum verði færð yfir til hlutaðeigandi sveitarfélags/sveitarfélaga í hverju tilviki fyrir sig, enda er aðeins um rúmlega 70 starfsmenn að ræða.

2. að núverandi starfsmönnum á fræðsluskrifstofum verði boðin störf og tryggður að öðru jöfnu forgangur til þeirra.

3. að gert verði sérstakt samkomulag milli hlutaðeigandi samningsaðila um réttarstöðu þessara einstaklinga (sbr. starfsmenn Landakots) sem feli í sér að þeim verði tryggð algerlega sambærileg og óskert réttindi miðað við það sem þeir hafa í dag, bæði með tilliti til laga nr. 38/1954 ásamt reglugerðum um barnsburðar- og veikindaleyfi og laga nr. 29/1963 (um lífeyrisréttindi) og feli þetta þá í sér að þessir starfsmenn fái ekki biðlaun við flutninginn.

4. að í þeim tilvikum þar sem ómögulegt reynist að tryggja starfsmönnum sambærilegt starf fái þeir yfirlýsingu um rétt sinn til biðlauna og hugsanlegan forgang að nýju starfi í faggrein sinni á vegum ríkis eða sveitarfélaga.``

Ég tel að þetta bréf, sem er ritað 7. febrúar 1996, segi allt sem segja þarf í þessu efni, hvað verður um réttindi þessa fólks, hvað verður um réttindi þessara starfsmanna fræðsluskrifstofanna og annarra þeirra starfsmanna skólanna sem ekki flytjast yfir samkvæmt þessu frv. sem hér er á dagskrá.

Ég vil einnig í þessu sambandi, hæstv. forseti, vekja sérstaka athygli á því ákvæði sem birtist í 37. gr. frv. og er auðvitað samkomulagsatriði og ekkert nema gott um það að segja. En þar stendur svo, með leyfi forseta:

,,Eftir flutning grunnskólanna frá ríki til sveitarfélaga skulu starfsmenn ekki njóta lakari réttinda í veikindaforföllum og barnsburðarleyfum en þeir njóta nú og kveðið er á um í reglugerðum nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, og nr. 411/1989, um veikindaforföll starfsmanna ríkisins.``

Þær reglugerðir sem hér er um að ræða, nr. 410 og 411/1989 eru væntanlega settar á grundvelli laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eins og þau eru núna. Spurningin er, hæstv. forseti: Hvernig gerir ráðherrann ráð fyrir því að þessum reglugerðum verði tryggð lagastoð eftir að lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hefur verið breytt eins og gerð er tillaga um hér í þinginu í öðru þingskjali? Hvernig á að tryggja það að þessi réttindi haldi? Ég tek eftir því að í þessu bréfi opinberra starfsmanna til Hrólfs Kjartanssonar er sérstaklega um þetta mál fjallað eða á það minnst. En ég hlýt að spyrja: Hvernig á að tryggja það að þessi réttindi haldist? Ég bið hv. þm. að staldra aðeins við í þeim efnum. Hvernig liggur það mál? Þessar reglugerðir eru settar á grundvelli tiltekinna laga. Eru það lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna? Já, það er á grundvelli þeirra. Ef þeim lögum verður breytt í grundvallaratriðum eins og hér á að gera, lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, þá er þar með fallinn lagagrundvöllurinn undan reglugerðunum um barnsburðarleyfi og rétt í veikindaforföllum nr. 410 og 411/1989. Segjum nú að ríkisstjórnin komi breytingunni á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna í gegnum þingið í vor. Hvað gerist þá? Hvaða lagagrundvöllur verður þá fyrir reglugerðunum sem kveðið er á um að skuli halda gildi sínu samkvæmt 37. gr. þessa frv. eins og það liggur fyrir? Það er óhjákvæmilegt að hæstv. menntmrh. svari þessu atriði líka vegna þess að þetta er úrslitaatriði varðandi flutninginn yfir til sveitarfélaganna.

Ég hef, hæstv. forseti, í örfáum orðum lagt fyrir hæstv. menntmrh. nokkrar spurningar og jafnframt látið það koma fram að ég tel alveg greinilegt, eftir að dreift var þessum breytingartillögum við frv. til laga um framhaldsskóla á þskj. 883, að stjórnarmeirihlutinn situr á svikráðum við kennarana í þessu máli eins og öðrum. Ég tel að það sé í stóralvarlegt mál. En það er svo sem ekkert merkilegt miðað við það hvernig núv. ríkisstjórn kemur fram við launafólk í landinu eins og þegar hæstv. félmrh. sagði þegar hann hafði hlustað á mótmælin í gær, þá sagði hann: Þetta voru bara tveir til þrír menn á Lækjartorgi. Eða þegar hann sagði þegar hann var spurður í fjölmiðlunum í gærkvöldi: Hvað segir þú nú um þessi mótmæli? Hvað segir ráðherrann um það? Hvernig líst honum á þetta? Þá sagði hæstv. félmrh.: Ja, það er nú bara 1. maí.

Núv. ríkisstjórn ákvað auk þess að heilsa upp á verkalýðinn í landinu 1. maí með því að taka út þetta frv. í fyrradag um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þannig að þetta er auðvitað allt löðrandi í hroka þegar kemur að opinberum starfsmönnum og launafólki í landinu yfirleitt. Það er því kannski ekki hægt að segja að þessi hótun á þskj. 883, sé neitt verri en víða kemur fram af hálfu hæstv. núv. ríkisstjórnar. Hún segir þó sína sögu. Ég dró það fram vegna þess að það er óhjákvæmilegt að draga það fram í þessari virðulegu stofnun að meiri hluti þingsins Framsfl. og Sjálfstfl., er að lýsa því yfir að hann muni breyta þessu frv. í grundvallaratriðum ef farið yrði fram á það á næsta þingi.