Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 15:01:39 (5480)

1996-05-02 15:01:39# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[15:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gengur út frá því að hér sé um eitthvert stríðsástand að ræða og það sé mitt hlutverk að gera upp á milli aðila og taka afstöðu með öðrum á móti hinum. Niðurstaðan er hins vegar sú af öllu þessu starfi sem hefur verið í vetur sem ég hélt að hv. þm. hefði fylgst með að það er samkomulag um alla þessa meginþætti sem hann er að reyna að gera tortryggilega. Það gerir hans málflutning svo einkennilegan að hann er að reyna að draga fram einhver atriði sem eru engin ágreiningsefni milli aðila málsins. Hann er að reyna að gera málsaðilana, bæði sveitarfélögin og kennarana, tortryggilega á þann veg að menntmrh. þurfi að lýsa því yfir með hvorum hann standi í einhverri ímyndaðri deilu sem hv. þm. sér fyrir sér. Í bréfinu frá 21. mars er tekið af skarið um það hvernig aðilarnir ætla að standa að þessu máli og ég þarf ekki að gera upp á milli þeirra því að þeir hafa komið sér saman um það hvernig þeir munu standa að þessu.