Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 15:40:36 (5488)

1996-05-02 15:40:36# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[15:40]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Efnislega hef ég svarað öllu varðandi réttarstöðu fólksins og lýst yfir því að verið sé að vinna að þeim málum. Það sem ég gerði athugasemdir við var að það væri verið að væna menn um að þeir sinntu ekki embættisskyldum sínum vegna eins bréfs sem ég hef þegar fjallað um hér í ræðustóli og lýst skoðun minni á því. Hv. þm. var því miður ekki í salnum og er einn bréfritara þannig að hann gæti þess vegna talið þau svör sem ég gef honum hér varðandi þetta mál fullnægjandi. Einn bréfritara situr í verkefnisstjórninni. Allir þeir sem rituðu þetta bréf hafa því fengið fullnægjandi upplýsingar um það hvernig þessi mál standa. Það var þetta sem ég var að gera athugasemd við, þennan málflutning sem mér finnst vera farinn út um víðan völl. Það er unnið að því að tryggja réttarstöðu þessa fólks og það verður unnið að því eftir því sem lög og reglur mæla fyrir um. Verkefnisstjórnin getur ekki gefið eitt svar við þessu af því að það er einstaklingsbundið hvernig á að taka á þessum málum. Það hlýtur hv. þm. að vita ef hann hefur kynnt sér málið og vill ræða það efnislega.