Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 15:41:42 (5489)

1996-05-02 15:41:42# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[15:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil upplýsa hæstv. menntmrh. um það að ég hef fylgst með allri þessari umræðu og kynnt mér alla þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál. Ég vil upplýsa hæstv. menntmrh. um það aftur og ítreka það að viðkomandi starfsmenn hafa verið að koma saman til að ræða sín mál þar sem þeim hefur ekki þótt þeir fá viðhlítandi svör eða upplýsingar. Og í samræmi við það koma þingmenn upp hver á fætur öðrum og óska eftir upplýsingum um þessi efni. Ég furða mig hins vegar á þessum hrokafullu svörum. Þetta er fulltrúi ríkisstjórnar sem talar nú um það að verið sé að sólunda tíma hans og þingsins þegar við ræðum um réttindi starfsmanna. Þetta er fulltrúi ríkisstjórnar sem er að keyra fram lög þvert á vilja gervallrar verkalýðshreyfingarinnar, þvert á vilja fjölmennra funda þar sem þúsundir einstaklinga koma saman. --- Það voru tveir, þrír menn, sagði hæstv. félmrh., ímyndaðar deilur, segir hann núna, hæstv. menntmrh. --- Og hvers vegna í ósköpunum eru menn að sóa hinum dýrmæta tíma hæstv. menntmrh., Björns Bjarnasonar? (Menntmrh.: Ég var að tala um tíma Alþingis.) Hvílíkur hroki!