Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 15:43:31 (5490)

1996-05-02 15:43:31# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[15:43]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Það er alveg skýrt kveðið á um það í 1. gr. frv. til hverra þetta frv. tekur og einnig var rætt áðan um reglugerðir um barnsburðarleyfi og veikindaforföll en það er fjallað um lögfestingu þeirra réttinda í 37. gr. Ég bendi sérstaklega á hana og síðan á biðlaunin en um þau er fjallað í 14. gr. Það er ljóst að hér er um samkomulagsmál að ræða sem tengist flutningi grunnskólans. Þetta mál og þau önnur sem tengjast flutningi grunnskólans eru fordæmisgefandi um frekari flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Ég hef margsinnis rætt það í þessum ræðustól hve miklu máli það skiptir að vanda sig við allan framgang þeirra mála sem tengjst því stóra, mikilvæga og viðkvæma máli. Þess vegna hefur verið lögð alveg sérstök áhersla á að vinna málið í fullri sátt allra málsaðila og þar með að fullnægja ákvæðum grunnskólalaganna. Ég vil að gefnu tilefni mótmæla þeirri fullyrðingu sem kom fram áðan í máli Svavars Gestssonar að stjórnarmeirihlutinn sitji á svikráðum við kennara. Það er þvert á móti unnið af miklum heilindum í þessu máli og þar hefur allri tortryggni sem allt of oft er til staðar á milli aðila verið ýtt til hliðar. Það er alveg ljóst að hér hafa menn viljað blanda saman í umræðunni um þetta tiltekna mál öðrum málum sem eru til umfjöllunar í þinginu og þá nefni ég sérstaklega framhaldsskólafrv. sem er líka á dagskrá í dag og síðan frv. til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Ég rifja upp í þessu samhengi að framhaldsskólafrv. var lagt fram til kynningar á þinginu fyrir tveimur árum. Það á ekki að koma neinum á óvart að gert sé ráð fyrir afnámi æviráðningar framhaldsskólakennara því að slík ákvæði hafa verið inni í því frv. frá upphafi.