Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 16:01:54 (5494)

1996-05-02 16:01:54# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[16:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Kjarni málsins er sá að menn komu sér saman um það að rétturinn yrði ekki lakari en í þessum reglugerðum segir. Hann getur orðið betri. Þessar reglugerðir kunna að breytast í samningi á milli sveitarfélaganna og kennaranna. Menn sjá fyrir sér að sumt af því ... (MF: Ekki til hins verra.) Ekki til hins verra, nei. Sveitarfélögin eru aðili að þessari gjörð og þessu samkomulagi. Þetta var unnið í réttindanefnd þar sem áttu sæti fulltrúar sveitarfélaga, kennara og ríkisvaldsins. Þessi nefnd var sammála um þessa niðurstöðu, þennan texta. Þar með hafa sveitarfélögin skuldbundið sig til þess að réttindi grunnskólakennaranna að þessu leyti verði ekki lakari. En þau þurfa ekki endilega að vera bundin í reglugerð. Þau geta alveg eins verið bundin í kjarasamningum. Það er sú þróun sem menn sjá væntanlega fyrir sér þegar ríkið hættir að hafa hönd í bagga. Þá verður þetta samningsatriði á milli sveitarfélaganna og kennaranna. Aðilar hjá sveitarfélögunum hafa komið sér saman um hvernig þeir ætla að skipa málum og sett á laggirnar sameiginlega launanefnd. Ég held að það sé allt komið á þann skrið að menn átti sig á því hvernig á þeim málum verði tekið. En við flutninginn er tryggt að það verði ekki lakari réttindi og það hafa sveitarfélögin skrifað undir ekki síður en ríkið sem er að afhenda þennan stóra hóp starfsmanna sinna til sveitarfélaganna.