Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 16:03:52 (5496)

1996-05-02 16:03:52# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[16:03]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ekki ætla ég að tefja þessar umræður með langri ræðu. Fyrst vil ég þó geta þess af því að mér er annt um virðingu þingsins að þó að ég leggi það ekki í vana minn að deila á forsetann og þá sem stýra þinghaldi, þá finnst mér það ekki rétt að á sama tíma og við stöndum fyrir þingfundi, sé verið að boða til funda í fagnefndum. Staðreyndin er sú að fyrir fimm mínútum síðan hófst fundur í sjútvn. Ég vil mótmæla því að sá háttur sé tekinn upp hér á síðustu dögum þingsins og minni á ýmsar yfirlýsingar sem hafa gengið af forsetastóli einmitt um þess konar háttsemi á síðustu vikum.

Herra forseti. Hér hafa staðið málefnalegar og fróðlegar umræður um það frv. sem hérna liggur fyrir. Mönnum sýnist sitt hverjum. Það er samt sem áður ómótmælanleg staðreynd eins og bent hefur verið á af formanni nefndarinnar að þetta er samkomulagsmál. Það kom fram í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að það væri samkomulagsmál ekki síst vegna skörulegrar forustu hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur sem veitir nefndinni forstöðu. Það taldi hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir að væri sérstaklega þess virði að nefna og hrósa og ég hygg að það sé rétt. Hv. þm. gat þess einmitt að svo væri vegna þeirra kringumstæðna sem nefndin starfar við, þ.e. að það eru uppi viðsjár í viðræðum milli ríkisvaldsins og stéttarfélaganna einmitt núna um þessar mundir.

Ég sá að hæstv. menntmrh. var dálítið toginleitur undir þessu gagnkvæma skjallbandalagi sem mér sýndist þarna stofnað til í þingsölum svo að það er vert að minna á að hæstv. menntmrh. hefur heldur betur lagt sitt ósmáa og ekki skoplitla lóð á vogarskálina til þess að lægja ófriðaröldur.

Mér þykir afar slæmt, herra forseti, að hv. þm. Ögmundur Jónasson, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæjar, er ekki staddur í salnum. Ég ætla ekki að gera kröfur til þess að hann verði fluttur hingað gegn sínum vilja eða með valdi. En mig langaði ef hann væri hér að rifja það upp að fyrst þegar við tókum þetta mál til umræðu, sem var fimmtudagsmorgun fyrr í vetur, þá stóð hv. þm. Ögmundur Jónasson upp og sá sérstaka ástæðu til þess að hrósa hæstv. menntmrh. fyrir að hafa lagt sitt af mörkum til þess að stilla til friðar millum kennara og ríkisins.

Ég held að það megi ekki síður hrósa hæstv. menntmrh. en hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur fyrir skörulega forustu í þessu máli vegna þess að hæstv. menntmrh., þó hann sé svo óheppinn að vera af því sem hv. þm. og formaður þingflokks Alþfl. mundi sennilega kalla vitlaust kyn átti við ramman reip að draga. Ég held að það megi þakka hæstv. menntmrh. og hans starfi og þarflegri iðju á bak við tjöldin, sem ég vil alls ekki kalla baktjaldamakk, að mjög umdeilt frv. hæstv. fjmrh. sem var í burðarliðnum, var ófætt kallað til baka og er ekki enn í þennan heim borið. Það var frv. um lífeyrisréttindi. Hæstv. fjmrh. nánast spillti í einu vetfangi því ágæta starfi sem hæstv. menntmrh. og forveri hans höfðu undirbúið varðandi flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaganna með því að setja í uppnám yfirlýsingar um að ekki skyldi gengið á þau réttindi sem kennarar höfðu unnið sér. Þetta varð til þess að það kom ekki bara bakslag heldur fullkomin stöðvun í viðræðurnar. Það varð aftur til þess að hæstv. menntmrh. þurfti enn að leggjast á friðarsveifina og fá sinn ágæta vin, hæstv. forsrh., til þess að snúa upp á báða handleggi hæstv. fjmrh. og knýja hann til þess að lýsa því yfir að frv. um lífeyrisréttindin yrði dregið til baka. Allir muna hvernig það gekk. Hæstv. fjmrh. var svo ódæll sínum vinum í ríkisstjórninni að --- jú, í öðru orðinu lofaði hann því að til baka yrði dregið frv. um lífeyrissjóðsréttindin. En þegar forustumenn launþega gengu eftir því var hann samt enn þá uppi með munnsöfnuð og það þurfti sérstaka atlögu annarra ráðherra og sér í lagi hæstv. forsrh. að hæstv. fjmrh. til þess að það kæmist friður á í málinu. Þess vegna segi ég að ef það væri ekki fyrir hæstv. menntmrh., þá væri sennilega enn þá allt upp í loft í þessu máli og hér væri komið inn í þingið frv. sem legði til stórlegar skerðingar á áunnum lífeyrisréttindum starfsmanna ríkisins. Ég hygg því að það sé ósmátt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja á að þakka hæstv. menntmrh. Þess vegna sakna ég þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson endurtók ekki þau hugljúfu þakkarákvörp sem hann flutti hæstv. menntmrh. í næstfyrstu ræðu við 1. umr. þessa máls.

Herra forseti. Ég vek sérstaka athygli á því að ég hef ekki látið við það eitt sitja að hrósa hæstv. menntmrh. heldur hef ég ítrekað, eins og mér ber, þau orð míns ágæta þingflokksformanns að hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir hefur vissulega unnið gott starf við afar erfiðar kringumstæður sem leiddi til þess að það tókst samstaða um þetta ágæta mál. Að vísu er það svo að ýmsir ófriðarseggir í hópi stjórnarandstöðunnar hafa gert sitt til þess að reyna að spilla þessu ágæta samkomulagi með því, viljandi eða óviljandi, að misskilja frv. Hér á ég auðvitað sérstaklega við hv. þm. Svavar Gestsson. Ég var hissa, herra forseti, á ræðu hans áðan eða a.m.k. parti hennar. Ég þekki hv. þm. Svavar Gestsson að því einu að vilja jafnan lægja allar þær öldur sem hann sér rísa í kringum sig og hella olíu, ekki á bálið heldur á öldurnar, til þess að lægja þær. Honum er farið eins og öðrum manni sem uppi var fyrir 2000 árum og var líka skeggjaður, að hann vildi gjarnan leggja gott eitt til málanna og beitti jafnvel hvers konar kraftaverkum til þess að lægja þær öldur sem enginn annar gat stillt. Förum ekki frekar út í þá sálma en minnumst þess kannski að svo vel voru menn að sér á þeim dögum og reyndar talsvert áður, að þeir luku í sundur sjálfu hafinu.

Það má segja, herra forseti, að hv. þm. Svavari Gestssyni hafi óafvitandi nánast tekist að ljúka í sundur því friðarhafi sem skapað var fyrir tilstilli hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur í nefndinni vegna þess að hann kom upp og taldi að það væri setið á svikráðum. Hann sagði beinlínis að stjórnarmeirihlutinn sæti á svikráðum við stéttarfélögin. Þarna held ég að hv. þm. hafi skjöplast eða að hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir hafi misskilið orð hans. Það sem hv. þm. Svavar Gestsson átti auðvitað við var það að ríkisstjórnin, miklu fremur en stjórnarmeirihlutinn í nefndinni, hafi setið að svikráðum við stéttarfélögin í þessu máli. Þó er sá skilningur ekki alls kostar réttur hjá hv. þm. vegna þess að það verður að undanskilja hæstv. menntmrh. Það er ekki hægt að halda því fram að hann hafi setið á svikráðum við kennara í þessu máli. Það er hins vegar hægt með ákveðnum rökum að halda því fram að hluti af ríkisstjórninni hafi a.m.k. haft maðk í sinni mysu þegar þetta mál var uppi. Ég á þá sérstaklega við hæstv. fjmrh. Það er alveg ljóst að það þurfti nánast að beita þann góða dreng ofbeldi til þess að fá hann til að draga til baka frv. sitt um skerðingarnar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Það var lykillinn að því að leysa þetta mál. Ég hygg að þegar allt er skoðað, þá sé ekki hægt að ásaka stjórnarmeirihlutann í menntmn. um svikráð og ekki hæstv. menntmrh., en meir er hæstv. fjmrn. grunaður um græsku í þessu máli.

Ég ætla ekki að ræða um ýmis mál sem hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir benti á að hv. þm. Svavar Gestsson væri að blanda saman við þetta mál. En staðreyndin er sú að hv. þm. Svavar Gestsson benti á ákvæði í frv. sem ég hygg að verði tekið til umræðu síðar í dag og lýtur að æviráðningu kennara. Ég er þeirrar skoðunar að æviráðningin sé hlutur sem er úti, sem er búinn. Æviráðning á ekki að vera til staðar. Ég er líka þeirrar skoðunar að það eigi einnig að taka æviráðninguna af þeim sem hæstv. ríkisstjórn kallar æðstu embættismenn og reyndar kannski fyrst og fremst af þeim. Ég vil hins vegar geta þess að ég tel að æviráðningin sé réttindi áunnin sem ég tel vera fémæti. Og ég skil það vel að maður sem hefur alla sína ævi barist fyrir hlut þeirra sem lakast eru settir eins og hv. þm. Svavar Gestsson, hann auðvitað heisir sitt flagg þegar hann sér þetta og vill að stéttarfélögin fái eitthvað fyrir sinn snúð sérstaklega ef á að taka þennan æviráðna snúð af þeim.

Herra forseti. Þegar maður skoðar þetta mál er það skiljanlegt að tilfinningaverur, mönnum sem eru ekki bara vitsmunaverur heldur tilfinningaverur eins og hv. þm. Svavar Gestsson er, þeim renni blóðið til skyldunnar þegar þeir lesa sumt í þessu ágæta frv. og hafa til hliðsjónar ýmsar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. Það er ekki skrýtið þótt þeim hitni ögn í hamsi og þeim verði á að mæla fram orð eins og svikráð. Það er svo að aumingja hæstv. menntmrh. hefur burðast við að lýsa því yfir aftur og aftur að hann hyggist ekki beita sér fyrir því að það verði gengið á réttindi og skyldur kennara þegar þetta frv. er samþykkt. En það var samt sem áður á ábyrgð hans sem í athugasemdum með frv. um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla stendur skrifað, með leyfi forseta:

[16:15]

,,Ef það frumvarp nær fram að ganga er ríkisstjórnin reiðubúin til að breyta lögum sem kunna að verða sett á grundvelli frumvarps þessa um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra við grunnskóla, ef ósk kemur fram um það frá sveitarfélögunum eða félögum kennara eða hvorum tveggja.``

Herra forseti. Eftir að hæstv. fjmrh. henti skrúflykli inn í það gangvirki sem hæstv. menntmrh. góðu heilli hafði verið að smyrja mánuðum saman var á einskis manns færi í ríkisstjórninni að draga hæstv. menntmrh. að landi. Það þurfti sameinuð samtök sveitarfélaganna á Íslandi til að gera það. Það var ekki fyrr en þau lýstu því yfir að þau mundu ekki fara fram á að meintar og væntanlegar breytingar á lögunum frá 1954 yrðu látnar ná til kennaranna að hægt var að setja þessar viðræður aftur í gang. Það varð hæstv. menntmrh. til happs að þar átti hann góða vini fyrir. (KÁ: Hverjir eru það?) T.d. borgarstjórann í Reykjavík, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir. Hún er eins og Kvennalistinn, hún tilheyrði honum víst einu sinni, þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að flytja grunnskólann yfir til sveitarfélaganna. (KH: Ertu búinn að flytja hana?) (KÁ: Hvert ertu búinn að flytja borgarstjórann?) Í dag læt ég mér nægja, hv. þm., að flytja grunnskólann.

(Forseti (ÓE): Forseti hélt að hann þyrfti ekki að áminna þennan hv. þm. um hvernig á að ávarpa í þinginu.)

Ég bið virðulegan forseta mikillega afsökunar. Það er einungis vegna þess að hér erum við að ræða um mál sem mér er svo kært, þar á ég við bæði grunnskólann og borgarstjórann í Reykjavík, sem mér varð þetta á.

Herra forseti. Ég hef í allt of löngu máli reynt að sýna þingheimi fram á að hæstv. menntmrh. hefur lagt sitt af mörkum til þess að lægja þær öldur sem hafa risið í kringum þetta frv. sem hann verður ekki sakaður um að hafa sett af stað heldur ýmsir grunnhyggnari kollegar hans í hæstv. ríkisstjórn. Það er einungis eitt mál eftir sem þarf að leiða til lykta og það eru kjör, réttindi og framtíð þeirra starfsmanna sem flytjast yfir til grunnskólans en eru ekki kennarar. Hér er fyrst og fremst verið að ræða um starfsfólk fræðsluskrifstofanna. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvað bíður þeirra. Ég efa ekki góðan vilja hæstv. menntmrh. til að sjá til þess að þeirra framtíð verði eins trygg og unnt er. Hæstv. ráðherra er hins vegar nógu ærlegur til að segja að það eru ekki störf fyrir þessa starfsmenn hjá ríkinu. Hann lýsti því yfir áðan og það er það sem ég ætla að inna hann eftir. Hann sagði í fyrsta lagi: Það er verið að vinna að því að kanna réttarstöðu þessa fólks. Það er ekki nægilega góð framtíðartrygging fyrir það. En hann sagði annað. Hann sagði: Það verður samið við hvern og einn. Ég tel að ef sú verður raunin að það verði samið við hvern og einn verði væntanlega hægt að leysa þau vandamál sem þessu hafa tengst. En hæstv. ráðherra hefur séð það í dag að þetta hleypur tilfinningum í marga. Þarna er um að ræða talsverðan fjölda manna og hæstv. ráðherra verður að skilja að við þær aðstæður sem við búum núna er ekki nema von að menn fyllist nokkrum kvíðboga. Hæstv. ráðherra hefur því miður ekki náð að smita frá sér þeim friðarvilja sem hefur einkennt hann í þessu máli yfir til annarra hæstv. kollega sinna í ríkisstjórninni. Hæstv. félmrh. fer eins og bolabítur um nánast gervallt þjóðlífssviðið. Hann lýsir því yfir að hann gefi ekkert fyrir samanlagða verkalýðshreyfinguna á torgi hins himneska friðar í Reykjavíkurborg í gær. Tveir eða þrír menn, segir hann, þegar 7--8 þúsund reiðir Íslendingar koma saman til að mótmæla honum. Og hann er nægilega ófyrirleitinn til að lýsa því yfir að það sé mikill sigur fyrir hann persónulega þegar Lagastofnun Háskóla Íslands lýsir því yfir að af 13 atriðum sem hún kannar séu tvö bersýnilega í blóra við alþjóðlegar samþykktir og fjögur önnur séu álitaefni. Það er ekki nema von, herra forseti, að þegar slíkir menn hefja upp róminn og láta ófriðlega, blikni bæði ásýnd og veikist rómur hinna sem minni eru fyrir sér en hafa meiri friðarvilja til að bera.

Það er ekki nema von, herra forseti, að við þessar aðstæður falli lágt einlægur friðarvilji og samkomulagsvilji hæstv. menntmrh. sem sagði hérna: ,,Það verður samið við hvern og einn.`` Þýðir það, herra forseti, að hæstv. menntmrh. geti lýst því yfir að hann muni ekki ganga frá málinu fyrr en búið er að ná samkomulagi við sérhvern þessara manna sem þeir geta sætt sig við? Önnur spurning mín, herra forseti, kann að stafa af ókunnugleika mínum á tengingu þessa máls við það frv sem verður til umræðu í næstu viku og varðar breytingar á lögunum frá 1954, en hún er svona: Með hvaða hætti kynni réttarstaða þessa fólks að breytast ef búið verður að samþykkja breytingarnar á lögunum frá 1954 með þeim breytingum sem þar eru t.d. á biðlaunarétti áður en flutningur yfir til sveitarfélaganna tekur gildi? Hvað þýðir það fyrir framtíð þessa fólks?

Herra forseti. Ég gæti haldið áfram að spjalla talsvert meira um þetta, en ég hef komið frá mér öllum þeim athugasemdum sem ég vildi koma fram í dag. Það er svo að þótt rödd hæstv. menntmrh. nái skammt innan hæstv. ríkisstjórnar þegar hann talar á nótum friðarins og nái bersýnilega ekki eyrum hæstv. félmrh. þá eru aðrir í þessum sölum sem leggja jafnan við hlustir þegar hæstv. menntmrh. talar. Og ég þóttist skynja í máli hans möguleika og vilja til friðar sem ég taldi að hv. þm. Svavar Gestsson hefði e.t.v. ekki heyrt vegna þess að tilfinningalíf hans er sennilega enn í uppnámi eftir að hæstv. félmrh. mælti svo höstuglega til hans sem annarra Íslendinga í gær. Það verða menn að skilja og hæstv. menntmrh. verður að virða hv. þm. Svavari Gestssyni það til mikillar vorkunnar.