Grunnskóli

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 17:05:29 (5503)

1996-05-02 17:05:29# 120. lþ. 129.14 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[17:05]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka þessar ágætu ræður sem hafa verið fluttar í tilefni af þessu frv. Ég skil vel það sem kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og vangaveltur hans um það hvort hér væri verið að koma á laggirnar nýju stjórnsýslustigi. Svo er nú ekki. Hér er finnst mér svo þröngt skilgreint verkefni Sambands ísl. sveitarfélaga varðandi þetta mál bæði í lagatextanum og einnig í greinargerðinni að það er, eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði, verið að koma á laggirnar samræmingaraðila á meðan flutningurinn gengur yfir þannig menn viti hvert þeir geta leitað, hvar er hægt að komast að niðurstöðu. Þarna er þessi samstarfsaðili sveitarfélaganna en það er ekki verið að ræða um það að þarna komi nýtt stjórnsýslustig. Ég held að hugur einskis standi til þess að flutningurinn verði til þess að það myndist nýtt stjórnsýslustig í landinu. Þvert á móti ætli sveitarfélögin að sinna þessu hvert um sig. Það eru verkefni sem við tíundum í greinargerðinni þar sem talað er um skólabúðirnar, sérskólana og nýbúafræðsluna. Á þessum verkefnum þurfa menn að taka sameiginlega og þess vegna var það sett sem varnagli að þetta væri í höndum Sambands ísl. sveitarfélaga og menn vissu þá hvar þeir ættu að leita að endanlegri niðurstöðu. Þannig ber að líta á þetta en ekki sem viðleitni í þá átt að færa menntmrn. til með þeim hætti og kalla það hér eftir Samband íslenskra sveitarfélaga að því er grunnskólann varðar. Svo er ekki heldur er það varðandi þennan þátt sérstaklega.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði hvort ég vissi til þess að sú stefna og það sem við blasir 1. ágúst hefði leitt til þess að grunnskólum hefði fækkað eða breyting hefði orðið. Ég get ekki tíundað nein sérstök dæmi um það í sjálfu sér enda leita menn ekki lengur til ráðuneytisins varðandi það. Þó er ljóst að á Vestfjörðum tel ég t.d. að það hafi knúið á um það að menn ákváðu að sameinast í einu stærra sveitarfélagi í kringum Ísafjörð að þetta stóra verkefni flytur til sveitarfélaganna. Ég hafði tök á því að ferðast þar um á þriðjudaginn og kynnast grunnskólastarfinu. Það er alveg ljóst að menn stefna þar að því að styrkja starfsemi skólanna með því að sameina sveitarfélögin. Það leiðir til þess að sveitarfélög sameinist og stoðþjónusta við skólana verður á öflugri hendi en áður var. Einnig koma þarna inn bókasafnsmál. Það má ekki gleyma því að skólabókasöfnin og almenningsbókasöfnin fara nú á eina hendi hjá sveitarfélögunum með öðrum hætti en var. Slík stoðþjónusta getur líka orðið öflugri. Ég veit hins vegar að í Reykjanesi við Ísafjarðadjúp breytist það kannski og skapast ný viðhorf vegna þess að Hólmavík dregur sig út úr skólastarfi þar og þar verða mál með öðrum hætti en áður eftir að af flutningnum verður. Við vitum það líka að í þessu efni er annars vegar spurningin um skólahaldið og hins vegar tilfinningaleg afstaða til skólans. Við sjáum í Mývatnssveitinni hvernig byggðarlag getur skipst út af deilum um skólahald sem snertir kannski ekki beint skólahaldið heldur spurninguna um það í hvaða skólahús börnin eiga að fara o.s.frv. Hér er víða um viðkvæm mál að ræða en ég veit ekki nákvæmlega og get ekki rakið það eða farið hringinn í kringum landið og nefnt dæmi. Bæði held ég að þetta leiði til þess að sveitarfélögin sjá sér meiri hag í því en áður að sameinast og einnig munu menn líta öðrum augum á skólastarfið en áður og vafalaust hefur það einhverjar breytingar í för með sér sem þarna er um að ræða.

Varðandi það sem spurt var um 3. gr. þegar sérstaklega eru tíundaðar eignir með þeim hætti sem þarna er gert þá er það skref sem er stigið með þessu að færa eignarhlutann í skólahúsnæði. Menn vildu ekki ganga lengra á þessu stigi málsins, töldu ekki ráðlegt að gera það en að sjálfsögðu kann einnig að vera skynsamlegt að gera það með aðrar eignir en þá verður það gert á öðrum forsendum en með þessum lögum. Þá verða menn að skoða það og fá fjárlagaheimildir eða gera það með öðrum hætti til að ráðstafa því ef til þess kæmi en mér finnst ... (KÁ: Skapar þetta ekki vandræði?) Ég held að þetta skapi ekki vandræði ég held að þetta hafi verið spurning um að skilgreina þetta sem nákvæmlegast í lagatextanum, m.a. fyrir þingmenn þannig að allir áttuðu sig á því um hvað var að ræða. En mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að í menntmn. þingsins fái menn sérfræðinga á fundi sína til að útskýra málið nánar. Þetta varð niðurstaðan eftir yfirferð allra þeirra sérfræðinga sem komu að málinu, að það væri skynsamlegast að gera þetta svona. Ég held að þar hafi bæði komið til álita eignarréttarleg sjónarmið og fagleg þannig að þetta ætti ekki að skapa vandræði. Mér finnst alveg eðlilegt að menntmn. Alþingis afli sér nánari upplýsinga um þennan þátt því að þetta er líka málefni sem hefur e.t.v. ekki verið svo mikið rætt í þinginu og er stórmál í sjálfu sér. Þess vegna finnst mér eðlilegt að þingnefndin kynni sér þennan þátt sérstaklega og þau atriði sem þingmaðurinn spurði um og ég ætla ekki að fara nánar út í þau hér og nú á þessari stundu. En það varð niðurstaðan af þessu starfi að það væri eðlilegt að draga mörkin og skilgreina það svona í lagatextanum. Ekki að hafa það í greinargerðinni heldur hafa það bundið í lögum því þarna er líka um það að ræða að menn hafa e.t.v. ekki heimildir til að yfirfæra óskilgreindar eignir í svo stórum mæli sem gert er. Þess vegna var farið út í að skilgreina þetta nánar þannig að menn vissu nákvæmlega um hvað þetta snerist.