Grunnskóli

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 17:11:59 (5504)

1996-05-02 17:11:59# 120. lþ. 129.14 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[17:11]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins örfáar spurningar til viðbótar við þær sem þegar hafa komið fram. Þá er það fyrst um 1. gr. þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga fer með grunnskóla sem varðar fleiri en eitt sveitarfélag. Ef það dæmi kemur upp að ekki næst samkomulag milli sveitarfélaga um rekstur fræðsluskrifstofu eða skólaskrifstofu er þá möguleiki á því að Samband íslenskra sveitarfélaga taki það verkefni yfir eða skipti sér af því með einhverjum hætti?

Í öðru lagi. Hversu mörg byggðasamlög hafa þegar orðið til eða hversu margar sveitarstjórnir hafa tilkynnt um samstarf eða byggðasamlög?

Í þriðja lagi. Í eignaskrá ríkisins er þó nokkuð um að skólastjóra- og kennarabústaðir séu skráðir sem slíkir en nýting þeirra er þó með öðrum hætti. Það er jafnvel um að ræða kennslustofur sem áður voru íbúðarhúsnæði og skráð sem slíkt í eignaskrá ríkisins og einnig að skólabókasöfn hafa verið staðsett í þessum fyrrum kennara- eða skólastjórabústöðum þrátt fyrir að eignaskráin segi að þetta sé með öðrum hætti. Þýðir þessi grein það að þetta skólahúsnæði sem er í raun í dag, kennsluhúsnæði eða skólabókasöfn, verði ekki fært yfir til sveitarfélaganna? Svo er vitað að kennarabústaðir og úthlutun kennarabústaða á töluverðan þátt í að fá menntaða kennara til starfa út á land. Það ræðst af því hvaða húsnæði stendur til boða. Sveitarfélögin hafa hingað til talið sig hafa ráðstöfunarrétt á þessu húsnæði og það hefur í sumum tilvikum auðveldað ráðningar. Hvernig verður því samstarfi eða fyrirkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga háttað?