Grunnskóli

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 17:19:11 (5508)

1996-05-02 17:19:11# 120. lþ. 129.14 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[17:19]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skildi orð hæstv. menntmrh. þannig að það hefði ekki verið vilji til að ganga lengra í þessari eignatilfærslu en hér kemur fram. Hér drógu menn mörkin og eflaust eru ákveðnar ástæður fyrir því. Það kom einnig fram í máli hæstv. menntmrh., eða ég skil hann þannig, að það er meiningin að skólarnir hafi afnot af kennarabústöðum, skólastjórabústöðum og öðru húsnæði sem þarna kann að heyra undir. En ég velti því fyrir mér hvort þetta skapi ekki einhver vandræði í framkvæmd þegar allur rekstur grunnskólans er kominn yfir til sveitarfélaganna. Hér er verið að afhenda þeim þetta ákveðna húsnæði, þ.e. skólahúsnæði, sem verður síðan afskrifað á 15 árum. En síðan er tekið frá ákveðið húsnæði sem tilheyrir grunnskólunum og það sem sagt tilheyrir ríkinu. Þetta íbúðarhúsnæði tilheyrir ríkinu áfram. Verður það þá í einhvers konar útleigu á vegum ríkisins? Eða sér hæstv. menntmrh. það þannig fyrir sér að það verði gerður einhver samningur eða veitt umboð þessu til ráðstöfunar. Ég átta mig ekki á því hvers vegna menn drógu línuna þarna. Hvers vegna menn takmörkuðu sig við það húsnæði sem flokkað er sem kennsluhúsnæði og er skilgreint í 19. gr. núgildandi grunnskólalaga. Ég átta mig ekki á því hvers vegna menn drógu mörkin svona. Ég sé ekki betur en þetta skapi smávandræði í framkvæmd. Menn þurfa a.m.k. að útfæra hvernig eigi að framkvæma þetta.